Ásmundur Einar heimsótti FB

Ásmundur Einar Daðason spjallar við nemendur og kennara í FB.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra kom í heimsókn í Fjölbrautaskólann í Breiðholti skólann 7. nóvember sl. Í fylgdarliði hans voru þrír starfsmenn ráðuneytisins, þau Gylfi Arnbjörnsson, María Þorgerður Guðfinnsdóttir og Sigurlaug Ýr Gísladóttir.

Skólameistari tók á móti ráðherra og sagði stuttlega frá skólanum og okkar helstu áherslum sem skóli Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, skóli þar sem ríkir virðing og áhersla er lögð á velferð nemenda – skóli sem er svo stór og fjölbreytilegur að þeir sem okkur heimsækja upplifa að þeir gangi á milli ólíkra heima er þeir fara milli námsbrauta, úr einni kennslugrein í aðra. Rafvirkjun, tölvur og forritun, snyrtifræði, sjúkraliðanám, textílgreinar, myndlist, fjölmiðlafræði, nám á starfsbraut, húsasmíði, íslenska og FabLab var meðal þess sem heimsótt var. Einnig var nemendaþjónusta skólans skoðuð, með bókasafni og fjölbreyttum stuðningi og ráðgjöf við nemendur.

Í svo stuttri heimsókn er ekki mögulegt að sjá nema brot af starfseminni, en allir tóku ráðherra fagnandi. Í móttökunefndinni var öll yfirstjórn skólans og formaður NFB, Jóhanna Birna Guðmundsdóttir sem sýndi ráðherra aðstöðu nemendafélagsins. Fagstjórar, kennarar og nemendur tóku vel á móti gestunum á hverjum stað, útskýrðu störf sín og hugðarefni og svöruðu spurningum.

Við erum þakklát ráðherra fyrir heimsóknina og þökkum starfsfólki ráðuneytisins fyrir ánægjulega sam­veru sem styrkir tengslin milli skólans og ráðuneytisins.

You may also like...