KR er samfélagslega mikilvægt stórveldi í Vesturbænum

— segir Þórunn Hilda Jónasdóttir sem tók við sem markaðs- og viðburðastjóri KR á dögunum —

Þórunn Hilda Jónasdóttir markaðs- og viðburðastjóri KR.

Þórunn Hilda Jónasdóttir tók við sem markaðs- og viðburðastjóri KR á dögunum. Hún kemur frá Háskólanum í Reykjavík þar sem hún starfaði sem viðburðastjóri á markaðssviði en hún hefur einnig unnið við markaðs- og viðburðastjórnun á ýmsum vettvangi. Hlutverk hennar hjá félaginu verður að þróa og viðhalda ímynd og vörumerki KR, afla nýrra markaðstækifæra, ritstýra og hafa umsjón með helstu miðlum félagsins sem og viðburðastjórnun á stærri viðburðum, ásamt öðrum tilfallandi verkefnum. Þórunn Hilda er ættuð frá Húsavík en ólst upp í Reykjavík frá átta ára aldri. Hún kveðst hafa saknað Húsavíkur eftir að hún flutti suður og taugarnar liggi þar enn. „Að koma í Vesturbæinn og kynnast KR samfélaginu finnst mér ég finna þessa stemningu sem ég þekkti heima á Húsavík. Á ég að orða það þannig að ég sé komin heim,“ segir Þórunn í spjalli við Vesturbæjarblaðið.

„Ég þekkti lítið til í Vestur­bænum þegar ég ákvað að sækja um starf hjá KR. Ég hef unnið við viðburðastjórnun á ýmsum vettvangi um árabil. Síðast hjá Háskólanum í Reykjavík. Það kitlaði mig að sækja um þótt ég hefði enga vissu fyrir því að ég fengið starfið. Og þegar ég kom hingað vestur eftir varð ég alls ekki fyrir vonbrigðum. Mér fannst eins og ég væri komin á lítinn stað úti á landi. Ég er alls ekki að segja þetta í neikvæðri merkingu heldur þveröfugri. Það er ekkert nema jákvætt við þetta. Það er sterkt samfélag í kringum KR og heimilislegt. Hér fara flestir heim í hádegismat. Þetta minnti mig strax á Húsavík. Ég fann strax fyrir vellíðan hér og mér fannst ég passa vel inn. Það kom mér á óvart hvað þetta er sterkt samfélag.

Mikið líf allan daginn

Þórunn Hilda segir mikið líf í KR húsinu allan daginn. „Kaffikarlarnir þessir eldri með Kristinn Jónsson hinn sanna Kidda KR-ing í broddi fylkingar koma hingað til þess að spjalla á morgnana, Kraftur í KR á föstudögum. Svo er unga fólkið hér yfir allan daginn. Kynslóðasamfélagið er sterkt og vinalegt að hafa það. Þetta koma mér á óvart. Lítið og þétt samfélag. Eins og bær út á landi inn í miðri borg.“ Þórunn kveðst ekki hafa kynnst Vesturbænum mikið út fyrir KR enn sem komið er. Vesturbæjarandinn hljóti þó að vera í líkingu sem það sem má finna hjá KR. „Ég ólst upp í Norðurmýrinni eftir að ég kom frá Húsavík. Þar er ekki að finna þetta andrúmsloft. Samfélagið er öðruvísi. Ekki eins þétt. Ég bý í Bökkunum í Breiðholti eins og er. Ég finn betur fyrir þessu þar. Þessari samheldni. Hugsa stundum um af hverju er ekki til miklu fleiri Bakkar. En kannski jafnast ekkert á við Vesturbæinn þegar maður kynnist honum betur.“

Hafði ekki eignast farsíma

„Ég var lengi að venjast Reykjavík. Var í afneitun í áratug. Ég fór til Húsavíkur í hverju einasta fríi. Fannst ég verða að skreppa heim. Kláraði grunn­skólann og fór síðan í Menntaskólann við Hamrahlíð. Eftir menntaskóla fór ég að vinna í nokkur ár og byrja þá að vinna hjá fjarskiptafyrirtækinu Tali, þar datt ég inn í fjarskiptageirann sem var í örri þróun. Hann var nýr fyrir mér sem hafði ekki eignast farsíma og þurfti að fara að leiðbeina fólki í gegnum síma um tækni sem ég hafði aldrei tekið á. Þá var ekki um annað að gera en að reyna að vera fljótur að hugsa og halda þeim boltum á lofti sem þurfti sem gátu verið margir. En svo kom að því að hún þyrfti að ákveða hvað hún ætlaði að gera þegar hún yrði stór eins og hún komst að orði. „Þá ákvað ég að skerpa á skólagöngunni og fara í viðskiptalögfræði við Háskólann á Bifröst. Ekki af því að ég hefði svo mikinn áhuga á viðskiptum eða lögfræði heldur af því að þetta var praktískt nám. Eftir að skólagöngu lauk kallaði fjarskiptageirinn í mig aftur og ég fór að vinna hjá Vodafone. Ég var svo viðloðandi fjarskiptageirann í  rúman áratug og á þessum tíma urðu miklar breytingar á öllu umhverfi.“

Viðburðastjórnun – að fá borgað fyrir partýstand

Eftir að Þórunn sleit sig frá fjarskiptum réði hún sig sem verkefnastjóra á tölvunarfræðibraut Háskólans í Reykjavík. Dvölin þar varð þó styttri en í upphafi var ætlað. „Þá togaði viðburða geirinn í mig. Ég var búinn að vera í partý- og samkomuiðnaðinum ef við getum kallað hann svo og út um allt. Þarna sá ég að best væri að fá bara borgað fyrir að verða í þessu partýstandi og réði mig til starfa hjá Practical sem síðar varð CP Reykjavík. Þá fór ég að vinna við að undirbúa árshátíðir, setja upp starfsdaga og ráðstefnur og annað fyrir ýmis fyrirtæki bæði stór og smá í landinu. Nokkuð óvænt bauðst mér að verða viðburðastjóri Háskólans í Reykjavík. Ég stökk á það tækifæri því það var frábært að vinna hjá HR. En svo gerist það einn daginn að ég sá auglýst spennandi starf hjá KR og ákvað að sækja um því mér fannst svo sniðugt að fara úr HR í KR.“  

Miklar breytingar hjá KR á næstunni

Hvað heillaði Þórunni við KR. Það sem heillaði  mig mest við starfið er viljinn til að gera gott betra, mynda góða stemmingu í kring um félagið. Fá fólk aftur á völlinn og fleiri iðkendur í starfið og fleiri sjálfboðaliða til að vinna með félaginu. Ná að þjónusta allar þessar ólíku deildir sem starfa undir félaginu. Finna leiðir til að gera meira og flottara, halda vel utan um alla KR-ingana okkar stóra sem smáa. Stór partur í því eru allar breytingarnar á næstunni hjá þessu gamla og gróna Vesturbæjarfélagi. Aðstöðuleysi undanfarinna ára hefur skapað KR ákveðinn vanda. Aðstæður margra annarra félag hafi verið mun betri. Eins og staðan sé í dag er félagið næstum tveimur áratugum á eftir flestum öðrum hvað aðstöðu varðar. Elstu félögin KR og ÍR hafa  lengi glímt við þennan vanda. ÍR er nú að fá íþróttahús eftir að hafa verið í nær hálfa öld í Mjóddinni í Breiðholti og nú hillir undir langþráðar framkvæmdir hjá KR. Tilkoma fjölnota íþróttahús mun gerbylta allri aðstöðu og starfsemi á KR svæðinu fyrir utan annað. Samningur sem gerður var á síðasta ári á milli Reykjavíkurborgar og KR byggir á mikilli skipulags- og hugmyndavinnu sem forsvarsmenn KR hafa unnið með arkitektunum. Það er ljóst að samningurinn sem gerður var við Reykjavíkurborg er mikil lyftistöng fyrir allt íþrótta- og félagsstarf í Vesturbænum. Hann telst til stærri áfanga í 122 ára sögu félagsins. Gert er ráð fyrir að húsið verði reist á árunum 2023 til 2024. Vonandi verður byrjað á framkvæmdum strax á þessu ári svo að fjölnota íþróttahús KR fari að rísa eins og stefnt hefur verið að.“ Þórunn segir að með þeim auknu byggingaráformum sem ætlunin er að fara í verði allt þjónusturými á KR svæðinu aukið sem vonandi muni nýtast fyrir meiri og betri þjónustu fyrir íbúa Vesturbæjar. „Ég get nefnt heilsugæslu í því sambandi sem er ekki til staðar í Vesturbænum sem væri frábært að sjá á svæðinu svo eitthvað sé nefnt. Það er mjög dýrmætt fyrir félagið að búa við fjölbreytta þjónustu á staðnum.“

Tölvugerð mynd af KR svæðinu eins og það mun líta út þegar þeim framkvæmdum sem nú eiga að fara að hefjast verður lokið.

Reynslan úr þjónustuverinu nýtist vel 

Þórunn segir að reynslan frá störfum í fjarskiptageiranum komi vissulega að gagni í nýju starfi fyrir KR. „Einkum og sér í lagi að hafa starfað í þjónustuveri þar sem maður þurfti stöðugt að vera viðbúinn margvíslegum fyrirspurnum og oft að hafa marga bolta á lofti í einu. Þurfa að vera fljót að hugsa, fljót  að taka ákvarðanir og finna lausnir fyrir viðskiptavinina. Sambærilegar aðstæður og kröfur einkenna þetta starf og þá kemur gömul reynsla sér vel. Einnig reynsla úr viðburðageiranum þar sem flest byggir á samskiptum við fólk og að hafa yfirsýn yfir marga ólíka hluti í einu. Og nú er ég komin til að vera svo lengi sem KR vill mig. Hér eru tækifæri til að gera marga góða hluti og ekki síst í ljósi þeirra bættu aðstöðu sem við erum farin að sjá að verði að veruleika. KR er samfélagslega mikilvægt stórveldi í Vesturbænum.“ 

You may also like...