Samningi um byggingar við Vesturbugt rift

— Vesturbugt telur riftunin ólögmæta en lóðirnar verða boðnar út að nýju —

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Grímur M. Jónasson, framkvæmdastjóri VSÓ og Bjarki A. Brynjarsson, framkvæmdastjóri Vesturbugtar skrifuðu undir samninginn í maí 2017 sem nú hefur verið rift. 

Reykjavíkurborg hefur rift samningi við Vesturbugt ehf. um uppbyggingu við gömlu höfnina í Reykjavík. Ástæða riftunarinnar eru vanefndir vegna tafa. Forsvarsmenn Vesturbugtar ehf. telja riftunina á hinn bóginn ólögmæta, meðal annars vegna þess að deiliskipulag fyrir svæðið hafi ekki verið samþykkt. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að samningurinn um uppbyggingu á tveimur lóðum í Vesturbugt hafi verið undirritaður eftir forval og keppnisviðræður og á grundvelli tilboðs félagsins árið 2017.

Í samningnum fólst að Reykjavíkurborg seldi félaginu byggingarrétt á lóðunum Hlésgötu 1 og Hlésgötu 2, þar sem heimilað var í samræmi við deiliskipulag að byggja allt að 18.400 fermetra húsnæði ofanjarðar auk bílakjallara og geymslna. Miðað var við að íbúðir yrðu allt að 176 og atvinnuhúsnæði um 1.665 fermetrar. Vesturbugt ehf. bauðst í tilboði sínu til þess að greiða fyrir lóðirnar og byggingarréttinn með því að afhenda Reykjavíkurborg kvaðalaust um 74 íbúðir í húsunum og 170 bílastæði í bílakjallara. Vestubugt ehf.  hefur ekki hafið framkvæmdir og allir umsamdir frestir félagsins til að byggja á lóðunum eru liðnir. Vegna þessara vanefnda hefur Reykjavíkurborg því rift samningnum við Vesturbugt ehf. um uppbyggingu á lóðunum og afturkallað úthlutun til félagsins á lóðinni Hlésgötu 1. Nú er í undirbúningi lítilsháttar endurskoðun á gildandi deiliskipulagi fyrir Vesturbugt. Reykjavíkurborg áformar að lóðirnar verði boðnar út að nýju í haust.

Dótturfélag fasteignafélagsins Kaldalón hf. er langstærsti hluthafi Vesturbugtar ehf., Í tilkynningu Kaldalóns til kauphallar um að samningnum hefði verið rift segir að Vesturbugt ehf. telji riftun Reykjavíkurborgar ekki lögmæta, meðal annars þar sem deiliskipulag fyrir Vesturbugt, sem sé nauðsynlegur undanfari framkvæmda, hafi ekki enn verið staðfest. Þá hafi Reykjavíkurborg gert kröfur um tryggingar, sem geri viðskiptabönkum ókleift að fjármagna verkefnið. Þannig séu í raun brostnar forsendur fyrir því. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur sagt þessar fullyrðingar vera fyrirslátt hjá Kaldalóni ehf. Riftunin sé fullkomlega eðlileg miðað við forsögu málsins. Félagið hafi ekki hafið framkvæmdir og allir umsamdir frestir Vesturbugtar ehf. til að byggja á lóðinni liðnir.

You may also like...