Verkstæðið í Grófinni slær í gegn

Valgeir Gestsson.

Á meðal nýjunga sem Borgar­bókasafnið í Grófinni býður upp á er Verkstæðið, þar sem fólki á öllum aldri býðst að koma og fikta, æfa sig og vinna með hin ýmsu forrit. Á meðal þeirra eru myndvinnsluforrit, tólistarforrit og klippiforrit þar sem hægt er að klippa myndbönd. Engrar kunnáttu er krafist enda er þetta einkum hugsað sem aðstaða til þess að prófa sig áfram og læra af sjálfum sér. Auk þess býður safnið upp á fullbúið stúdío þar sem komið hefur verið fyrir hljóðnemum og fullkomnum upptöku- og útsendingarbúnaði fyrir hlaðvarpsupptökur. Fólk getur komið og notað þennan búnað sér að kostnaðarlausu til þess að senda út eigin hlaðvörp. Vestur­bæjar­blaðið leit á herleg­heitin og ræddi við Valgeir Gestsson sem annast þessa áhuga­verðu þjónustu í Grófinni.

„Hér í Grófinni erum við nýlega búin að opna það sem við köllum Verkstæði. Þetta er aðstaða fyrir fólk til að koma og vinna í öllum helstu skapandi forritunum í góðum iMac tölvum. Við leggjum sérstaka áherslu á tónlistarforrit og einnig myndvinnsluforrit. Við erum til dæmis með allan Adobe pakkann sem inniheldur forrit á borð við Photoshop og Illustrator og einnig klippiforritið Premiere til að klippa lifandi myndefni, myndbönd og kvikmyndir. Ég klippi sjálfur mikið þarna og nota þá forrit sem heitir Final Cut Pro. Í tónlistinni erum við með öll vinsælustu forritin.“ Valgeir segir það vera eitt af hlutverkum bókasafnsins að veita fólki aðgang að þessu. „Í gegnum aldirnar hefur hlutverk bókasafna verið að varðveita þekkingu og veita fólki aðgang að henni. Þetta er framlenging á því hlutverki og nú erum við að gera fínustu og bestu tækin og tólin, sem notuð eru í nútímanum, aðgengileg almenningi.“

Auk Verkstæðisins er í Grófinni hlaðvarpsstúdíó sem kallast Kompan, en þar gefst fólki kostur að vinna eigin hlaðvörp og senda út á öldum ljósvakans. Valgeir segir þetta vera gríðarlega vinsælt. „Það hafa ekki allir kost á að koma sér upp tækjum til þess að vinna hlaðvörp í góðum gæðum. Fólk kemur því hingað og það kostar ekkert annað en að hafa bókasafnsskírteini.“

Notendur Verkstæðisins koma úr öllum áttum, en Valgeir segir frá því að í vetur hafi frábær hópur úr Tjarnaskóla nýtt sér aðstöðuna við kennslu. „Við fáum nýja notendur í hverri viku og gaman að fylgjast með því hvað fólk er að bralla. Það er eins og við manninn mælt að þau sem koma og prófa einu sinni, þau koma aftur og aftur.“ Valgeir segir mjög auðvelt að bóka tíma fyrir einstaklinga á heimasíðu Borgarbókasafnsins borgarbokasafn.is. „Þar smellir fólk bara á Verkstæðin og bókar þann tíma sem því hentar.“

Að sögn Valgeirs er orðið algengt núorðið að fólk noti snjallsíma og taki upp vidéóefni og það geti því mætt með myndefnið á Verkstæðið, klippt það saman og unnið eitthvað sniðugt úr því. „Til dæmis er fólk með lítil fyrirtæki sem þarf að gera auglýsingamyndir eða annað kynningarefni fyrir að koma til okkar. Hefur kannski ekki tök á að leggja í mikinn kostnað en þarf að láta á sér bera á markaðinum og velur þá þessa auðfengnu leið. Stundum koma nokkur saman sem eru að vinna að tónlist og henda í eitt og eitt lag. Einnig er Verkstæðið tilvalið fyrir fólk sem hefur einhvern tíma lært að nota myndvinnsluforrit en ekki notað þau lengi að koma til að rifja upp. Þá er alltaf hætt við að fólk ryðgi ef það notar ekki þekkinguna og þarna er leið til að halda sér við.” 

Valgeir segir alla velkomna burtséð frá aldri, menntun og stöðu. Eldra fólk þurfi ekki að veigra sér við að koma þótt það kunni ef vil vill ekki mikið í þessum fræðum. Alltaf megi byrja þótt fyrstu skrefin verði ef til vill bara að fikta sig áfram. Til þess sé verið að þessu. Að gefa öllum tækifæri til að kynnast þessum möguleikum. „Við erum með Fiktdaga alla miðvikudaga á milli 15-18. Þetta eru opnir aðstoðartímar þar sem starfsfólk bókasafnsins er áhugasömum innan handar við allt milli himins og jarðar, en hvorki þarf að eiga bókasafnskort né skrá sig, það er bara nóg að mæta. Við erum líka með grænskjá (green screen) og ótrúlega margt fyndið hægt að gera með þá tækni. Við vonumst bara til að sjá sem flest á Verkstæðinu í sumar, það er svo gaman að öðlast nýja þekkingu og vera skapandi,“ segir Valgeir og hlær.

Hann hvetur fólk til að kynna sér önnur Verkstæði Borgar­bókasafnsins; hljóðverið í Úlfars­árdal, saumavélarnar í Árbæ og spennandi tæknitengd tól í Gerðubergi.

Á verkstæðinu í Grófinni

You may also like...