Frá biskupstíð til búsetu

Málverk af Breiðholtsbænum eins og hann hefur verið talinn líta út á einhverjum tímapunkti sögunnar.

Breiðholtshverfið eða öllu heldur Breiðholts­byggðin er kennt við jörðina Breiðholt. Breiðholt var á skrá yfir jarðir sem Viðeyjarklaust­ur eignað­ist í tíð Páls ábóta frá árinu 1395. Vísbendingar eru um að kirkjugarður, kirkja eða ein­hvers konar bænahús hafi verið við bæinn þótt kirkju sé ekki getið í kirknaskrá Páls biskups. Mannabein hafa fundist nokkrum sinnum við jarðrask á bæjar­hólnum og í nágrenni hans. Af frásögn í Þorláks sögu hins helga frá 1325 virðist hafa verið einhvers ­konar guðshús þar sem helguð var heilögum Blasíusi. Heimildir mun vera til um að bænhús hafi verið í Breiðholti en verið aflagt fyrir 1600. 

Við siðaskiptin 1550 varð Breiðholt eign konungs eins og aðrar jarðir Viðeyjarklausturs. Árið 1580 var jörðin afhent kirkjunni og heyrði eftir það undir Víkurkirkju og seinna Dómkirkjuna í Reykjavík. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 er jörðin sögð lénsjörð fyrir prest sem þjónaði kirkjum á Seltjarnar­nesi sem þá náði yfir mun stærra landsvæði en nú. Séra Árni Helgason dómkirkju­prestur og biskup á árunum 1814 til 1825 mun um tíma hafi búið í Breiðholti. Heimildir eru ekki að finna um að aðrir prestar hafi búið þar.

Kort af Breiðholti frá 1906.

Herseta á Fálkhóli 

Efsti hluti Seljahverfis er á svæði nefnist Háholt. Þar stendur svo­nefndur Fálkhóll hæst. Á Fálkhóli var loftvarnastöð á her­nám­sárunum á fimmta áratugnum. Þar var eitt af þremur loftvarnabyssuvígum við Reykjavík. Bretar önnuðust það í fyrstu. Þeir bjuggu í Camp Hilton sem var herskálahverfi þar sem Dalvegur í Kópavogi er nú. Fálkhóll er nefndur Scapegoat Hill á kortum bresku herstjórnarinnar frá 1940 en Arlington Hill eftir að Bandaríkjamanna tóku við hervörnum. Á Fálkhóli voru fjórar þriggja þumlunga loftvarnabyssur auk þess sem ameríski herinn reisti herskálahverfi norðan og vestan við hólinn og nefndu Camp Arlington Hill. Þar eru nú eru íbúðagöturnar Engjasel og Dalsel. Í kampinum bjuggu allt að 130 landgönguliðar og hann samanstóð af 19 bröggum, tveimur baðhúsum, einum bragga fyrir mötuneyti, tveimur salernis­byggingum ásamt 40.000 lítra vatns­tanki sem sá hermönnum fyrir vatni.

Breiðholtsbærinn í Háholti 

Breiðholtsbærinn sem hverfið er kennt við stóð vestan í Háholti. Ummerki um hann má sjá austan við Skógarsel 41 til 43. Seint á 19. öld bjuggu þar hjónin Björg Magnús­dóttir og Jón Jónsson ásamt börnum sínum. Þóra dóttir þeirra hefur sagt frá búskaparháttum og staðháttum í Breiðholti. Samkvæmt frásögn henn­ar voru þá um sex til tíu kýr á býlinu, um 200 fjár og sex til átta hross. Einnig voru hross og naut Reykvíkinga tekin í hagagöngu yfir sumarið. Smjör, rjómi og skyr var selt til Reykjavíkur og stund­um mjólk. Volg laug var í mýrinni fyrir neðan túnið í Breiðholti og var hella lögð út yfir laugina þar sem þvottur var þveginn. Mór eða svörður var tekinn í Breiðholtsmýri niður undir Digraneshálsi sem þótti góður eldiviður.  

Breiðholt í eigu Reykjavíkurborgar 

Í upphafi 20. aldar komst jörðin Breiðholt í eigu Reykjavíkurbæjar og lögð með lögum undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur árið 1923. Búskapur var þó áfram stundaður í Breiðholti fram yfir miðja 20. öld. Sjö hús stóðu í samfelldri bæjarröð á hlaðinu. Húsin stóðu þar sem nú er opið svæði milli húsanna Grjótasels 21 og Skógarsels 39. Þar eru sjáanlegar rústir sem eru leifar af síðustu baðstofu eða íbúðarhúsi bæjarins.  

Myndin er af húsatóftunum og upplýsingaskiltunum sem standa við lóðina þar sem Breiðholtsbærinn stóð áður. 

Alaska í Breiðholti 

Jón H. Björnsson lands­lagsarkitekt sem stofnaði og rak gróðrarstöðina Alaska við Miklatorg keypti Breið­holt árið 1960. Í Breiðholti kom Jón upp annarri gróðrarstöð undir nafninu Alaska og hafði þar jafnframt sumar­dvalarstað fyrir fjölskylduna. Jón girti svæðið af og flutti þangað alla trjáplönturækt sem hann hafði áður haft í Hveragerði. Þarna hafði Jón viðamikla ræktun og trjáplöntusölu með hléi til ársins 1967. Í byrjun áttunda áratugarins var ákveðið að taka mikinn hluta Breiðholtslandsins úr erfða­festu vegna skipulags og væntanlegra bygg­ingarframkvæmda. Eftir það var rekst­ur gróðrarstöðvarinnar færður í átt að verslunarrekstri í stað trjáplöntur­æktunar og árið 1975 innréttaði Jón fjósið og hlöðuna á staðnum sem verslun­ar- og geymsluhús og var verslun Alaska opnuð þar í nóvember það ár.

Verkalýðshreyfingin kemur að málum

Á fimmta og sjötta áratugnum varð mikill húsnæðisvandi í Reykjavík í kjölfar fólksfjölgunar. Fjöldi fólks bjó í heilsuspillandi og óviðunandi húsnæði. Kaupmáttur launa var of lítill, verðbólgan há og erfitt að fá lóðir og einnig lán til ný­bygginga. Almenningur átti erfitt með eða ómögulegt að eignast húsnæði. Skipulagsleysi í byggingarmálum var viðvarandi vandamál sem nauðsynlegt þótti að bregðast við. Verkalýðs­hreyfingin þrýsti á yfirvöld um að bæta úr stöðunni.

Sendiför Styrmis 

Á árunum 1964 og 1965 gerðu ASÍ og þáverandi ríkisstjórn með sér samninga um kjaramál þar sem lögð var áhersla á úrbætur í húsnæðismálum. Samkomulag þetta hefur verið kennt við mánuðinn júlí. Til er ákveðin saga að baki þess hvernig efnt var til þess. Finnbogi Rútur Valdimarsson bæjarstjóri í Kópavogi var bróðir Hannibals Valdimarssonar forseta ASÍ. Forystu­menn verkalýðs­hreyfingarinnar ræddu þetta við Finnboga. Tengdasonur hans var Styrmir Gunnarsson blaðamaður og síðar ritstjóri Morgun­blaðsins. Sjálfstæðismaður sem bjó við hlið tengdaforeldra sinna á Marbakka í Kópavogi. Sagan segir að Finnbogi hafi sett nokkrar hugmyndir á blað og beðið Styrmi að fara með til Bjarna Benediktssonar eldra sem þá var forsætisráðherra. Bjarni á að hafa tekið sendisveinunum vel og talið að um áhugaverðar hugmyndir væri að ræða.

Hófst með júlísamkomulaginu

Eftir þetta var gefin út svokölluð júlíyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og kjölfar hennar fylgdi loforð um að gert yrði stórátak í byggingarmálum. Ákveðið var að byggja skyldi 1250 íbúðir á næstu fimm árum og þær seldar láglaunafólki í verkalýðs­hreyfingunni á kostnaðarverði og á hagstæðum lánum. Þá skyldi Reykja­víkurborg verða aðili að þessum framkvæmdum og fá í sinn hlut 250 íbúðir til að útrýma heilsuspillandi húsnæði. Framkvæmdanefnd byggingar­áætlunar var stofnuð sama ár til þess að annast byggingarframkvæmdir. Ákveðið var að staðsetja alla hina fyrirhuguðu byggð í einu hverfi til að stytta byggingartímann. Hið óbyggða Breiðholtsland varð fyrir valinu. Þarna er upphafið að Breiðholti eins og það er í dag.

Mjóddin tók langan tíma 

Mjóddin var fyrirhuguð sem þjónustumiðstöð og miðbæjar­kjarni fyrir Breiðholtshverfin og jafnvel Austurborgina í heild. Árið 1970 samþykkti borgarráð úthlutun lóðar undir stórmarkað í Mjóddinni en að honum stóðu nokkur af stærri innflutningsfyrirtækjum landsins. Deiliskipulag miðbæjarkjarna í Norður-Mjódd var samþykkt í júní 1974. Þó leið nokkur tími uns var farið að byggja í Mjóddinni. Fyrst reis fjölbýlishúsið við Þangbakka 8 til 10 árið 1979 og var í fyrstu kallað Húsið á sléttunni eftir samnefndum amerískum sjónvarpsþætti sem hét Little House on the Prairie. Verslunar­svæðið í Mjódd tók ekki að byggjast fyrr en um 1984 til 1985 þegar Landsbankinn og síðan verslunin Víðir opnuðu þar útibú. Eftir það fóru verslanir og önnur fyrirtæki að flytja starfsemi sína þagað. Síðast komu heilsugæslustöðvarnar.

Frá klaustursjörð til stærstu íbúðabyggðar 

Norður Mjóddin stóð lengi að mestu auð. Árið 1976 var bensínstöð Olís við Álfabakka opnuð og árið 1984 var Staldrið, sjoppa með bílalúgum, opnað við Stekkjarbakka fast við þáverandi aðkomu að Mjódd­inni. Með nýju Aðalskipulagi Reykja­víkur 1996 til 2016 var landnotkun í Norður Mjódd breytt frá því að vera útivistarsvæði í blandaða notkun verslunar- og þjónustusvæðis. Svæðið var deiliskipulag árið 1999 og sama ár voru reistar skemmubyggingar á lóðinni Stekkjarbakka 4 til 6 þar sem gróðrarstöð og verslun Garðheima eru til húsa. Nú hefur verið ákveðið að taka Norður Mjóddina til íbúðabygginga og verður verslun og starfsstöð Garðheima flutt í sjálfa Mjóddina. Hér hefur verið stiklað á mjög stóru úr sögu Breiðholts frá því það var klaustursjörð og síðan kirkjujörð án kirkju að því að talið er í að verða fjölmennasta hverfi eða íbúðabyggð í Reykjavík.

ÍR svæðið í Suður Mjódd. Það tók hálfa öld að koma upp flottri íþróttaaðstöðu í Mjóddinni.

You may also like...