ÍR blæs til sóknar

– viðburðaríkt ár hjá félaginu –

Á þessari mynd sem tekin er úr dróna má sjá yfir glæsilegt svæði Íþróttafélags Reykjavíkur. Nýi útivöllurinn er fremst á myndinni en til baka má sjá félagsaðstöðu ÍR og hið nýja og glæsilega íþróttahús.

Með sanni segja má að sumarið 2022 sé viðburðaríkt hjá Íþrótta­félagi Reykjavíkur. Þann 29. maí var nýr og langþráður frjáls­­íþrótta­völlur ásamt frjáls­íþrótta­húsi á æfingasvæði ÍR í Skógar­selinu vígður af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. Völlurinn hefur strax sannað gildi sitt því hann er þétt­setinn auk þess sem nokkur mót hafa verið haldin á honum. 

ÍR lét af rekstri íþróttahússins í Austurbergi í hendur borgarinnar 1. ágúst þar sem íþróttahúsið mun gegna nýju hlutverki og hýsa hinar ýmsu íþróttir nokkurra félaga sem eru vonandi til þess fallnar að auka íþróttaiðkun í Efra-Breiðholti. ÍR mun áfram starfrækja karatedeild sína í kjallara Austurbergsins auk þess sem félagið verður þar með handboltaæfingar og mun bjóða upp á opna handboltatíma fyrir 1. – 6. bekkinga í hverfinu.

Líf og fjör í Skógaselinu í vetur

Eins og fram kemur á forsíðu verður haldinn ÍR dagur þann 27. ágúst frá kl. 11 til 14 þar sem borgar­stjóri mun vígja nýja og glæsilega parkethöll er verður heima­völlur bæði handknattleiks- og körfu­knattleiks­deildar. Á ÍR deginum býðst gestum að skoða allt svæðið, taka út aðstöðuna og fá kynningu hjá deildum félagsins á starfsemi þeirra veturinn 2022/2023. Íþrótta­félag Reykjavíkur býður upp á frjálsar, knattspyrnu, handknattleik, körfuknattleik, júdó og taekwondo. Allt á sama blettinum fyrir iðkendur smáa sem stóra. Einnig starfrækir félagið skíða-, keilu- og karatedeild ásamt því að bjóða upp á fimleika og parkour.

Frístundarúta í 109 og 111

Foreldrar eru hvattir til þess að kynna sér verkefnið „ÍR ungar“ en krökkum í 1. og 2. bekk býðst að iðka allt að sex íþróttagreinar fyrir eitt æfingagjald. Með þessu fá börnin frábært tækifæri til þess að spreyta sig í fleiri greinum á meðan þau eru að gera upp við sig hvar áhuginn liggur. Þegar komið er upp í 3. og 4. bekk gefst þeim kostur á að fara inn í „ÍR tvennuna“ en þá fæst 30% afsláttur af æfingagjöldum ef verið er að æfa tvær greinar á vegum félagsins.

Til þess að tryggja aðgengi iðkenda að aðstöðu ÍR í Breiðholtinu þá starfrækir félagið í samvinnu við Þjónustumiðstöð Breiðholts frístundarútu sem keyrir hring í póstnúmerum 109 og 111 og nýtist öllum krökkum í hverfinu og þá sér í lagi þeim sem leggja stund á íþrótta-, tónlistar- og tómstundariðkun.

Laugardaginn 3. september mun ÍR kveðja sumarið og standa fyrir haustfagnaðarballi í nýopnaðri parkethöllinni. Bandmenn og Salka Sól munu stíga á svið og spila fyrir dansglaða ballgesti inn í komandi misseri. Miðasala fer fram á tix.is og hvetur ÍR alla Breiðhyltinga sem og aðra borgarbúa til þess að fjölmenna í sólskinsskapi og fagna saman.

Áfram ÍR!

Nýtt glæsilegt fjölnotahús ÍR við Skógarsel.
Parketsalur í nýja íþróttahúsinu.
Hér má sjá akstursleið frístundarútunnar sem ÍR starfrækir í samvinnu við Þjónustumiðstöð Breiðholts.

You may also like...