Sprenging í umsóknum um verknám í FB
Sprenging hefur orðið í umsóknum um verknám við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, einkum í húsasmíðum og rafvirkjun. Skólameistarinn segir þróunina hafa verið hraðari en fólk átti von á þannig að færri komast að en vilja.
Haustið 2017 byrjaði einn hópur í húsasmíði í FB og einn hópur í rafvirkjun. Síðan snarfjölgaði þeim og nú eru hóparnir orðnir þrír í báðum greinum. Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari segir mjög æskilegt sé að nemendur geti stundað nám þar sem hugur og hönd fara saman. Í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti er hvort tveggja kennt í kvöld- og dagskóla. Hvert skot er fullt í skólanum til að koma nemendum fyrir. Víðir Stefánsson aðstoðarskólameistari í FB hefur sömu sögu að segja. Hann segir húsakynnin þau sömu og voru fyrir tveimur áratugum þegar hann hóf störf við skólann. Nemendur séu alla vega tvöfalt fleiri en þeir voru þá.