“Byggja á merkustu fyrirbyggjandi heilsufræðum veraldarsögunnar”
– segir Guðrún í Systrasamlaginu –
Systurnar Jóhanna og Guðrún Kristjánsdætur eigendur heilsuhofsins Systrasamlagsins við Óðinsgötu 1, hafa undanfarið ár staðið fyrir geysivinsælli svokallaðri 3ja daga endurræsingu sem byggir á því að borða svokallað Kitserí (kitchari) sem mun vera afar vinsæll indverskur réttur og af mörgum er talinn hin fullkomna næring. Blaðamanni lék forvitni á að vita meira um málið:
“Kitserí er frábær blanda kolvetna, próteina og fitu. Í indversku lífsvísindunum, Ayurveda, er kitserí í miklum metum og gjarnan borðað meðfram andlegri iðkun eða þegar fólk vill draga sig í hlé um stund og hvíla meltinguna,” upplýsir Guðrún sem skoðað hefur indversku lífsvísindin í mörg ár og telur þau ein merkustu fyrirbyggjandi heilsufræði veraldarsögunnar. Enda hafi þau svo margt gott fram að færa sem staðist hafi tímans tönn. “Að mínu viti vinna þau vel með þeim vestrænu. Þau byggja raunar á fjölmörgu sem vestrænu vísindin hafa verið að sanna á síðustu árum. Þar langar mig t.d. að nefna að það eru innan við 10 ár sem sú stóra uppgötvun var gerð meðal vestrænna vísindamanna að sogæðakerfið væri einnig að finna í höfðinu. Þessi vitneskja hefur verið innan indversku lífsvísindanna í þúsundir ára.”
En aftur að hreinsuninni. “Það er býsna algengt að fólk fari á 3ja daga svokallaðar kitcherí hreinsanir. Þessi ljúfa endurræsing er iðkuð víða um heim þar sem jóga- og ayurvedafræðin hafa náð vinsældum, sem er í flestum fjölmenningarsamfélögum. Margir fara 1 x í mánuði í slíka endurræsingu yfir vetrartímann en sundum fer fólk í lengri hreinsanir, sérstaklega á vorin og haustin, eða þegar árstíðaskipti eiga sér stað.”
Að sögn systranna er kitsterí hin sanna töfrafæða, ekki síst yfir vetrartímann enda bæði vermandi, þægileg, bragðgóð og auðmelt. “Mörgum þykir kitserí eiga betur við en kaldir safakúrar að hausti og vetri. Það frábæra við kitsérí er að þetta er einfaldur réttur en um leið grunnur sem hægt er að framreiða á fjölmarga vegu. Hafa sem heitan rétt eða þynnri, næstum eins og súpu. Svo má leika sér með allskyns krydd og lækningajurtir sem eru bragðgóðar og líka góðar fyrir meltinguna og við ýmsu öðru.” Guðrún segir góða 3ja daga kitserí hreinsun sem innihaldi lífræn gæðahráefni ekki bara bæta meltinguna heldur auki jafnan orku, skerpi á bragðlaukum, jafni blóðsykur og jafnvel bæti geð.
Þegar er hægt að velja um 3 x þriggja daga endurræsingar í september og 1x í október hjá systrunum í Systrasamlaginu.
Þið getið fylgst nánar með á www.systrasamlagid.is