Enn reynt að selja Alliance húsið

Alliance húsið og veitingastaðurinn Matur og drykkur. 

Erfiðlega hefur gengið að selja Alliance húsið á Grandagarði 2. Tilraunir borgarinnar til sölu þess hafa ekki lukkast. Nú hefur borgarráð samþykkt að hefja enn á ný söluferli á húsinu og byggingarrétti á lóð þess.

Í greinargerð fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar til borgarráðs kemur fram að Reykjavíkurborg festi kaup á Grandagarði 2 árið 2012. Ytra byrði hússins er friðað og hóf borgin framkvæmdir fljótlega eftir kaupin. Var ytra byrðið gert upp í anda fyrri tíma en húsið er frá miðjum fimmta áratug liðinnar aldar. Í dag er starfrækt í húsinu Sögusafnið og veitingastaðurinn Matur og drykkur eru í húsnæðinu auk þess að nokkrir listamenn hafa aðstöðu á efri hæðum.

Á fundi borgarráðs 28. júní 2018 var samþykkt að hefja söluferli á fasteigninni og meðfylgjandi byggingarrétti með samkeppnisfyrirkomulagi. Með hliðsjón af sögulegu mikilvægi hússins og staðsetningu þess var lagt til að í stað beinnar sölu væri haldin samkeppni þar sem kaupverð myndi hafa 50% vægi en mat á umsóknum eftir hugmyndafræði, hönnun og samráði við nærumhverfi myndi hafa 50% vægi. Tilboð áttu að innihalda greinargerð þar sem umsækjandi gerði grein fyrir hugmyndum sínum um uppbyggingu á reitnum ásamt uppdráttum. Þrjú tilboð bárust í eignina, það lægsta 300 milljónir, það næsta 650 milljónir og það hæsta 900 milljónir. Öllum tilboðunum var hafnað. Nú verður ráðist í þriðja söluferlið á eigninni, sem Reykjavíkurborg keypti árið 2012 á um 340 milljónir króna. Á lóðinni má byggja 4.193 nýja fermetra ofanjarðar, undir verslun, þjónustu, íbúðir og hótelstarfsemi samkvæmt skipulagi.

You may also like...