Ég hef alltaf þurft að hafa mikið að gera

Arnhildur Valgarðsdóttir píanóleikari og organisti við píanóið í Fella- og Hólakirkju.

Arnhildur Valgarðsdóttir kórstjóri, píanóleikari og organisti í Fella- og Hólakirkju spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni. Arnhildur á langa ferð að baki í tónlistarlífi. Sjö ára hóf hún píanó­nám við Tónlistarskólann í Kópa­vogi en tveimur árum síðar við Tónlistarskólann á Akureyri. Þaðan lauk hún áttunda stigi og starfaði um skeið við píanóleik, meðal annars hjá Leikfélagi Akureyrar. Þá lá leiðin til Royal Scottish Academy of Music and Drama þaðan sem hún útskrifaðist árið 1995 með BA-gráðu og CPGS-diplómu í píanóleik með söng sem auka­­grein. Arnhildur er mjög virk í íslensku tónlistarlífi og starfar bæði sjálfstætt sem píanóleikari og í samstarfi við hina ýmsu tónlistar­menn. Hún hefur komið fram á fjöldamörgum tónleikum innan­­lands og utan. Arnhildur lauk kirkju­organistaprófi frá Tón­skóla Þjóðkirkjunnar árið 2010 og starfaði um tíma sem organisti og kórstjóri við Lága­fellssókn í Mosfells­bæ. Nú er hún húsbóndi tónlistarinnar í Fella- og Hólakirkju.  

Hvaðan kemur þessi kjarnakona. „Ég er Þingeyingur að ætt og uppruna. Móðir mín Dómhildur Jónsdóttir er frá Draflastöðum í Fnjóskadal. Þar var ættarsamfélag því afi minn kom fyrstur af því fólki í Draflastaði. Sigurður Sigurðarson búnaðarmálastjóri var náskyldur fjölskyldunni sem varð til þess að hún fékk aðgang að ýmsum nýjungum í búnaðarmálum á þeim tíma. Þetta var gróið bændafólk. Þegar ég var að alast upp þá var stórt kúabú á Draflastöðum og einnig sauðfé.“ Arnhildur minnist á föðurfjölskylduna. „Faðir minn var Valgarður Egilsson læknir frá Hléskógum í Höfðahverfi. Foreldrar mínir bjuggu aldrei saman og ég kynntist Hléskógafólkinu ekki að ráði fyrr en síðar. Hvorki afa mínum eða ömmu eða neinu af því fólki. Ég er hins vegar í góðu sambandi við þetta skyldfólk mitt í dag en það gerðist ekki fyrr en upp úr síðustu aldamótum. Ég flutti með móður minni til Reykjavíkur en þegar ég var níu ára fluttumst við til Akureyrar þar sem við vorum fram yfir að ég varð tvítug. Þetta varð til þess að tengslin við Draflastaði urðu meiri. Við fórum oft þangað og skipti ekki máli hvort Vaðlaheiðin var fær því hægt var að aka inn í Fnjóskadalinn norðan frá um svokallað Dalsmynni sem var eina færa leiðin á veturna á milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslu þar til að vegurinn um Víkurskarð var byggður.“

Frelsi og prakkaraskapur á Akureyri

„Ég gekk í Lundaskóla og síðar Gagnfræðaskólann á Akureyri. Þetta voru góð ár og það sem mér er minnisstæðast frá bernsku- og unglingsárum á Akureyri er þetta frelsi sem við bjuggum við. Við vorum oft um 20 saman í hóp að leika okkur. Þegar ekki var skóli fórum við bara út á morgnana og vorum úti allan daginn. Maður var píndur til þess að koma heim í kvöldmat. Maður hlýddi og rauk svo út aftur. Einkum á sumrin. Sundlaugin var skemmtileg og hafði mikið aðdráttarafl. Við gátum verið fjóra eða fimm klukkutíma í sundlauginni. Svo vorum við að hjóla. Aðal sportið var að hjóla upp á ruslahauga bæjarins sem þá voru á Glerárdal. Okkur fannst gaman að snuðra þar og rannsaka allt sem þar lá. Og helst að koma með eitthvað heim. Svo var hjólað inn í Innbæ og fram í Eyjafjörð. Við vorum stundum með prakkaraskap og ég man að við kveiktum stundum í sinu. Svo biðum við eftir að löggan kæmi og það fannst okkur mest gaman. Og rauðu bílarnir til þess að slökkva. Við höfðum líka gaman af að angra eldra fólk sem átti til að koma út rautt af reiði. Auðvitað var þetta prakkaraskapur en var bara svo gaman.“ 

Viddi sem seldi skíði

Arnhildur kveðst hafa verið mikið á skíðum sem unglingur á Akureyri. „Hlíðarfjallið dróg okkur krakkana til sín. Til að fara á skíði. Við höfðum ekki mikla peninga og ég man að ég keypti skíði hjá manni sem alltaf var kallaður Viddi. Hann seldi skíði á viðráðanlegu verði og þeir sem voru ekki moldríkir keyptu skíði hjá honum. Hann bjargaði mörgum sem þurftu að eignast ódýr skíði. Hann sagði stundum borgaðu helminginn núna og helminginn seinna. Hann bjó við Grundargerði og var með þetta heima hjá sér. Ég man að það vantaði fingur á hann. Hefur trúlega lent í einhverju slysi. Veit ekki af hverju. Ef til vill var hann smiður. En þetta var afskaplega góður karl. Við vorum heldur ekki í rándýrum skíðagöllum. Ef kaupa þurfti íþróttaföt var það gert í sportvörubúðinni eða Amaró. Engir sérstakir æfingagallar. Við komum okkur sjálf í rútuna og fórum beint upp í fjall. Síðasta ferðin endaði oft niður brekkurnar og alla leið heim að dyrum. Það var ekkert um skutl. Maður labbaði bara en ef veðrið var alveg kolbrjálað sótti mamma mig stundum í skólann.“

Einstæð móðir með tvö börn

„Stjúpfaðir minn hét Axel Axelsson. Hann var á margan hatt mjög klár. Hann var endurskoðandi og sonur Axels Sigurgeirssonar sem rak meðal annars Bananasöluna. Þetta var efnað fólk sem skorti fátt. Hann var á margan hátt góður maður en átti við andleg veikindi að stríða og alkóhólisma. Hann fékk aldrei þá hjálp sem sem hann hefði þurft. Þótt ekki sé lengra liðið var ekki fari að sinna vandamálum af þessari gerð á sama hátt og nú er farið að gera. Hann var engu að síður alltaf góður við mig og hálfbróður minn Axel Axelsson yngri. Þetta var erfitt og ástand hans versnaði síðustu árin þar til hann lést í eldsvoða. Móðir mín skildi við hann 1975. Þá gekk þetta ekki lengur. Axel bróðir minn er fæddur 1972 og við ólumst upp saman á Akureyri með móður okkar. Mamma var orðin einstæð móðir með tvö börn og starfaði sem kennari. Við höfðum ekki mikið á milli handa. Ég man að ef keyptur var ostur var okkur sagt að ekki mætti spæna hann niður. Ég var dálítið erfið með þetta og dugleg að spæna ostinn niður. Og þá var enginn ostur í nokkurn tíma á eftir. Allt var svo dýrt. Það var matvöruverslun í Byggðavegi. Hagkaup var komið en Bónus kom ekki fyrr en löngu síðar.“

Spilaði í Búlgaríu 14 ára

Hvenær kom tónlistin inn í líf Arnhildar. „Fyrsta tónlistarnámið var í Tónlistarskóla Emils í Reykjavík. Þá var ég sex ára. Við bjuggum við Selvogsgrunn 25 um tíma og tvö ár í Kópavogi. Ég fór í Tónlistarskóla Kópavogs og svo fórum við til Akureyrar. Ég var send til Búlgaríu þegar ég var 14 ára. Þar var alþjóða friðarmót á vegum Unesco. Héðan voru valdir tveir unglingar. Ég og Níels Gústafsson sem er ættaður úr Mývatnssveit. Þetta var algert ævintýri. Alveg geggjað eins og sagt er í dag. Ég hafði aldrei séð fólk frá löndum eins og Indlandi og Pakistan eða bara frá Afríku. Við spiluðum í leikhúsi í Sofia sem er höfuðborg Búlgaríu í beinni útsendingu. Henni var sjónvarpað beint um allan Balkanskagann. Ég spilaði meðal annars og söng Móðir mín í kví kví.“

Arnhildur hefur staðið fyrir flutningi á Stabad Mater Dolorosa ásamt söngkonunum Kristínu Ragnhildi Sigurðardóttur og Svövu Ingólfsdóttur í Fella- og Hólakirkju á föstudaginn langa. Stabad Mater Dolorosa er latneskt trúarljóð og fjallar um tilfinningar Maríu móður Jesú þegar hún situr við fót krossins eftir að sonur hennar var krossfestur.

Ekkert popp

Arnhildur segir að allt hafi snúist um klassíska tónist en dægurlög og pop ekki á dagskrá. Enginn möguleiki hafi verið til að spila popp á þessum tíma. „Ég hlustaði oft á poppmúsík í útvarpinu en að ég fengi að spila popp hvarflaði ekki að mér. Þetta snerist allt um klassík. Ég hélt að ég mætti bara spila það sem píanókennarinn setti mér fyrir og þorði ekki að prufa neitt annað. Bróðir minn fór aðeins í tónlistarskóla en hann var flogaveikur og þurfti að hætta. Mamma fann fyrir flogaveiki þegar hún var ung. Ég var á Akureyri og lærði og lærði. Ég fór svo að spila í leikhúsinu. Spilaði í sýningunni Fiðlaranum á þakinu og aðeins í Sjallanum og á veitingahúsum. Ég spilaði aldrei fyrir dansi. Þetta voru meira einstök atriði og dinnermúsík á veitingahúsum. Ég vann líka með Leikfélagi Menntaskólans á Akureyri sem setti meðal annars upp leikritið Gretti. Ég var á Akureyri eftir að ég lauk áttund stiginu og var að spila á hinum og þessum stöðum. Var um tíma föst að spila dinnermúsik í Smiðjunni sem var veitingastaður til hliðar við Bautann sem flestir sem komið hafa til Akureyrar þekkja.“

Framhaldsnám í Glasgow

Næsta skerf í lífi mínu var að ég fór til náms til Skotlands þar sem ég var í fimm ár. Ég var búin með áttunda stigið í píanóleik á Akureyri og fór þá í Tónlistarakademíuna í Glasgow. Ég komst ekki inn í fyrstu tilraun en ég þekkti Philip Jenkins sem hafði búið og starfað á Akureyri um árabil en var fluttur til Glasgow. Ég hringdi í hans og hann sagði mér að koma. Ég gæti lært hjá honum einn vetur og sótt svo aftur um inngöngu í akademíuna. Ég myndi örugglega komast inn. Þetta gekk eftir en var erfiður skóli. Maður þurfti að gangast undir ströng próf og halda tónleika. Ég reyndi alltaf að koma mér í gegnum prófin því annars myndi ég missa námslánin. Nei – ég bjó aldrei með Skota en ég bjó reyndar með Englendingi í eitt ár. En svo var ég bara með krökkunum – nemendum sem ég var með. Ég var svona hálfgerður hippi. Ég man þegar ég flaug utan frá Íslandi fyrir síðasta árið mitt ytra þá var ég ekki búin að ákveða hvar ég ætlaði að búa þann vetur. Þegar út var komið rakst ég á auglýsingu um húsnæði. Hringdi í einhverja krakka og við leigðum okkur. Þetta varð samfélag og ég hef verið að skipuleggja að við hittumst. Við gamlir skólafélagar hittumst til dæmis fyrir nokkrum árum. Hópurinn er annars nokkuð dreyfður. Fólk hefur farið á eftir verkefnum. Sumir eru til dæmis að syngja í óperuhúsum víðs vegar.“

Ég hef alltaf þurft að hafa mikið að gera

Ég kom heim 2007. Svo eignaðist ég dóttur mína. Hún er alíslensk. Faðir hennar heitir Karl Smári og er leiðsögumaður og rithöfundur. Um svipað leyti hitti ég Margréti Pálmadóttur kórstjóra. Þá upphófst samstarf okkar em hefur staðið síðan. Margrét hefur verið mikill áhrifavaldur í mínu lífi. Ég held að við munum vinna saman þar til önnur okkar fellur frá. Ég er alveg viss um það. Mér finnst hún einn mestu tónlistarmaður sem uppi hefur verið hér á landi og stend alveg við það. Hún hefur kennt mér margt.“ Arnhildur er ekki hætt að læra. Nú er ég komin í Listaháskóla Íslands og verð þar í vetur. Ég er að fara í masternám en fer í hálft masternám nú í haust. Ég er að gera þetta með fullri vinnu. Ég er ekki að hverfa frá Fella- og Hólakirkju. Ég verð alveg hér eins og ég hef verið og vinn og vinn út um allt. Ég hef alltaf þurft að hafa mikið að gera. Þegar ég fór í organistanámið árið 2008 var ég í meira en fullri vinnu með því. Ég fór að gamni mínu. Þetta er mjög tengt píanóleiknum. Sama nótnaborð og fingrasetning. Ég kunni hins vegar ekkert á fótspilið og var svolítinn tíma að læra á það. Þá þurfti ég að prógrammera heilann aðeins upp á nýtt. Heilinn þarf að núllastilla sig og byrja upp á nýtt. Þetta er eins og ef langstökkvari fer allt í einu að æfa hástökk. Eða fara úr fótbolta yfir í körfubolta.“        

Er að fara með kórinn til Skotlands 

„Ég á marga góða vini í Skotlandi en missti aðeins sambandið þegar ég fór í móðurhlutverkið. Ég var með sýningu í Glasgow árið 2017. Ég bjó til sýningu sem átti meðal annars rætur í Þrymskviðu og Njálu. Ég spilaði og söng og sagði frá. Var með fimm sýningar. Nú er ég að fara með Kór Fella- og Hólakirkju til Skotlands í haust. Ég er að vinna með ferðanefndinni en hef verið að skipuleggja ferðina í smærri atriðum. Ég er með kontakta og vinir mínir og vinkonur benda mér á þetta og hitt sem hægt er að gera. Við förum meðal annars í hálöndin og ætlum að syngja í fimm kirkjum.“

You may also like...