Þegar fordómar hverfa verður eitthvað skemmtilegt til

– segir Ásmundur Jónsson, betur þekktur sem Ási í Gramminu –

Ásmundur Jónsson.

Ásmundur Jónsson, betur þekktur sem Ási í Gramminu og síðar Smekkleysu spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni. Ásmundur hefur starfað innan íslensks tónlistarlífs og er varla til sá flötur þess sem hann hefur ekki snert. Hann hefur staðið að útgáfu á íslenskri tónlist á vegum útgáfufyrirtækisins Smekkleysu, en Smekkleysa hefur um langt árabil verið helsta útgáfufyrirtæki á sviði sígildrar og samtímatónlistar á Íslandi auk þess sem fyrirtækið hefur sinnt útgáfu á íslenskum þjóðlögum og tónlistararfi.

Áður vann Ásmundur að útgáfu­málum hjá Japís, Gramminu og Fálkanum. Hann hefur einnig fjölbreytta reynslu af tónleikahaldi og skipulagi listviðburða, og má þar nefna viðburði fyrir Listahátíð í Reykjavík, Reykjavík — menningarborg Evrópu 2000, Jazzvakningu auk hljómleikahalds með Múm, Sigur Rós og Björk, svo einhverjir séu nefndir. Hann hefur sinnt fjölmiðlamálum Bjarkar á Íslandi og einnig unnið við tónlistar blaða­mennsku og dagskrárgerð fyrir útvarp. Þá hefur hann verið virkur í félags­málum tónlistargeirans og m.a. setið í stjórnum Félags hljómplötuframleiðenda, Sam­taka flytjenda og hljóm­plötufram­leiðenda, Samtóns og Kraums auk þess að hafa gegnt formennsku í Listráði Hörpu.

Varð til í kringum Purk Pilnikk

Eftir kaffibolla á Kaffi Tári í Borgartúni var fyrsta spurningin borin upp. Hvernig byrjaði þetta. Hann kveðst búinn að vera að fást við við útgáfu á tónlist frá um 1970. Þá byrjaði hann að vinna með Guðna Rúnari félaga sínum að þáttagerð fyrir Ríkisútvarpið eða RÚV sem þá var á Skúlagötu 4. “Þá vorum við í menntaskóla. Samhliða því unnum við í afleysingum einkum um jól og einnig á sumrin hjá Fálkanum. Þar kynntist maður útgáfu- og sölustarfseminni í kringum hana. EFtir menntaskólann fór ég til starfa hjá FACO sem þá var á Laugavegi 89 og einnig í Hafnarstræti þar sem ég var einkum viðloðandi. FACO var þá einum í innflutningi á tónlist og sinnti dreifingu að einhverju leyti. Ef ég man rétt þá gáfu þeir út eina plötu. FACO var þó þekktast fyrir innflutning og sölu á fatnaði fyrir yngra fólk. Þeir voru með sjóntækjadeild sem þróaðist í að vera með sölu á hljómplötum. Þar var Steinar Berg að störum á þeim tíma og þegar hann var að hætta þá gaf hann út fyrstu plötu Stuðmanna.” Ásmundur fór á seinni hluta áttunda áratugarins til Fálkans þar sem hann starfaði síðan í nokkur ár þar til útgáfustarfsemi í Gramminu hófst. “Grammið var stofnað um vorið 1981 í kringum hljóm­sveit sem Einar Örn Benedikts­son, Bragi Ólafsson og fleiri stofnuðu og hét Purkur Pilnikk. Þá var pönkhreyfingin komin í ákveðið hámæli hér á landi þótt aðdragandinn hafi verið í nokkur ár. Ásmundur segir að á þessum tíma hafi ýmsir tónlistarmenn varið farnir að þreifa sig í þessa átt og nefndi Fræblana sérstaklega í því sambandi. “Einar Örn hafi líka verið mikið í Bretlandi þar sem faðir hans hafi búið um tíma með breskri eiginkonu og kynnst þessari tónlistarstefnu. Ég kynntist Einari Erni fyrst þegar ég var að vinna í Fálkanum þangað sem hann kom með boðskapinn beint frá London. Við nutum góðs af því að kynna þetta og koma því inn í útvarpsþætti hjá okkur.” Ásmundur segir að á þessum tíma hafði stefnan í útvarpsþætti sem hann við viðloðandi á árunum 1973 til 1983. Ný tónlist var farið að ryðja sér til rúms.

Í samstarfi við Sveinbjörn allsherjargoða

“Grammið var svo starfandi til 1988 og það gaf út einhverja tugi af plötum á þeim tíma. Við fórum nokkuð víða. Vorum í samstarfi við Áskel Másson. Sveinbjörn Beinteinsson allsherjargoði kom við sögu og við gáfum út plötu sem hét Eddukvæði. Það voru upptökur sem áttu upphaflega að koma á á ellefuhundruð ára afmæli Íslandsbyggðar 1974. Það var verkefni sem Gunnar Reynir Sveinsson tónskáld hafði með höndum. Hann hafði hljóðritað Sveinbjörn við að kveða. Sveinbjörn var stundum þátttakandi i verkefnum okkar. Við voru að setja saman tónlist, ljóðlist og fleira þar sem innkoma hans féll vel að því sem við vorum að gera. Eitt af því var að við gáfum þessa plötu út.“

Sambland af tónlist, ljóðalestri og bókmennta tengdu efni

Grammið byrjaði á Vestur­götunni. Í litlu rauðu timburhúsi við 53b sem nú er horfið. Í kjallaranum og viðbyggingu austan við húsið. „Við vorum þar fyrsta árið. Þaðan fluttum við niður á Hverfisgötu í kjallarann hjá Báru. Þaðan færðu við okkur í bakhús við Laugaveg 17. Þar hafði Jósafat Arngrímsson úr Keflavík áður verið með hljómplötuverslun. Þar vorum við síðan þangað til að fyrirtækið hætti störfum.“ Svo sprettur Smekkleysa upp. „Já hún varð til aðeins áður en að Gramið hætti. Hún var upphaflega sett af stað af meðlimum Sykurmolanna árið 1986 og var síðan formlega skrásett 1988. Hugmyndafræðin að baki Smekkleysu var í byrjun að gefa út það sem Sykurmolarnir voru að skapa á sínum tíma. Þessu tengdist fólk sem hafði áður verið að starfa saman í Medúsu og víðar. Þetta var útgáfustarfsemi sem var sambland af tónlist, ljóðalestri og bókmennta tengdu efni. Þessu fylgdu oft viðburðir á borð við upplestrarkvöld, tónlistarkvöld og fleira. Ég man að oft voru eftirminnilegar kvöldstundir í Djúpinu.“ Ásmundur segir að Smekkleysa sé enn til þótt farið hafi í gegnum margar sveiflur. Hann segir að útgáfubransinn hafi breyst mikið sérstaklega í þessu stafræna umhverfið sem orðið sé ráðandi í þessum málum. „Markaðurinn hér heima er lítill og ákveðin áskorun fellst í því að starfa á honum.“  

Smekkleysa er við Hjartartorgið. Ásmundur telur að svæði sé að lifna við. Í því sambandi skipti viðburðir miklu máli.

Hjartartorgið er að lifna við

Ásmundur og félagar hafa haldið sig við Miðborgina. Hvernig líst honum á þróun hennar á undanförnum árum. “Þótt Smekk­leysa sé skrásett á Hverfisgötu þá er aðgengi að starfsstöð henna og verslun á Hjararorginu. Þetta er nánast sami staðurinn og Grammið var á þann tíma sem það starfaði. Þannig má segja að hringurinn sé að lokast. Við höfum verið að þróa starfsemina við Hjartartorgið og þá starfsemi sem tengist versluninni og dreifingunni. Maður sér ágætis tækifæri í þessari staðsetningu.” Ásmundur kveðst telja að torgið sé að lifna við sem samkomustaður fólks. Ágætis líf hafi verið þar í ágúst þegar viðburðir voru í gangi. “Þetta er að lifna og ég held að það ætti að blása til og reyna að taka það alla leið. Einhvers staðar heyrði ég að hugmyndir væru uppi um að setja gosbrunn á torgið sem ég held að gæti orðið skemmtilegt. Torgið er svolítið lokað og ég heyrði á tal einhverra arkitekta í útvarpi fyrir nokkru þar sem þeir voru að velta fyrir sér að línulega sé gæti orðið erfitt að opna það meira. Það getur engu að síður verið sólríkt á Hjartatorginu á góðviðrisdögum.” Ásmundur endir á að undanförnu hafi verið viðleitni til að hækka hús. Byggja hærri hús en verið hafi og þá vakni spurningin um hvert hugað sé nægilega vel að skilyrðum fyrir birtu. “En það er alveg ótrúlegt að sjá alla þessa uppbyggingu sem hefur átt sér stað í Miðbænum á undanförnum árum. Þetta er að mörgu leyti önnur borg en maður man eftir úr æsku. Ferðamennskan á sinn þátt í þessu og hefur breytt mörgu. Það er að skapast meira og nýtt líf inn í bænum með tilkomu ferða fólksins.”

Þegar fordómar hverfa verður eitthvað skemmtilegt til

Ásmundur sendir út mikið af frétta­tilkynningum vegna útgáfu­mála og viðburðarhalds sem hann hefur á sinni könnu. Þar á meðal fréttir sem við fyrsta lestur virðast vera of börnum hans. Því liggur beint við að lokum að spyrja hann hvort afkomendur hans hafi ekki fetað inn á tónlistar- og viðburða brautina. “Já krakkarnir mínir hafa verið mjög virk í tónlist. Þau hafa lengi verið við tónlistarnám og hafa verið að koma fram á undanförnum árum. Ég held að þetta tónlistarnám sem hefur verið að eflast og vaxa hér á landi hafi verið vel heppnað og sé farið að skila sér í ákveðinni tónlistarmenningu á öllum sviðum. Þessi tónlistarmenning er á háu plani í alþjóðlegum samanburði. Sambland af klassík, jassi og fleiri tónlistarstefnum hafa blandast saman samlegð þeirra gera þetta áhugaverðara og öflugra. Þetta hefur sýnt að þegar fordómar hverfa verður eitthvað skemmtilegt til.” 

You may also like...