Ég hef alltaf verið að fást við tónlist

Örn Magnússon í geislum kvöldsólar heima í stofu þar sem hann leikur á hin ótrúlegustu hljóðfæri.

Örn Magnússon organisti og píanóleikari spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni. Örn býr í Sörlaskjóli 4 ásamt eiginkonu sinni Mörtu Guðrúnu Halldórsdóttur sópransöngkonu. Þetta er sannanlega tónlistarheimili. Örn hefur fengist við tónlist frá unga aldri og Marta hefur komið víða við á ferli sínum. Þau hafa bæði unnið við þjóðlega tónlist og menningararf ásamt öðrum tónlistarverkefnum. Þau eiga mörg hljóðfæri sem þau hafa safnað saman í gegnum tíðina. Sum þeirra virka framandi en eiga flest rætur í tónsmíðum og tónlistarflutning fyrri tíma. Börn þeirra hafa tekið þennan áhuga frá foreldrunum og saman reka þau hljómsveitina Spilmenn Ríkínís sem hefur einbeitt sér að tónlist fyrri tíma.

 En hvaðan kemur þessi áhugamaður um tónlist, gömul hljóðfæri fyrri tíma og er í raun fjöllistamaður þegar að hljóðfæraleik kemur. „Ég er fæddur og uppalinn í Ólafsfirði. Þessum litla og snjóþunga kaupstað. Þar sem oft sá varla handa á milli vegna snjókomu á vetrum. Þarna gekk ég í barna- og gagnfræðaskóla og átti þar lögheimili allt fram fyrir framhaldsnám eða allt til 1986 að ég sagði skilið við Ólafsfjörð og flutti lögheimilið til Reykjavíkur.

Strákarnir hans Kristins

En hvernig var að ánetjast tónlist og menningararfi í bæ sem var næstum lokaður á þeim tíma og flest snerist um sjó og fisk. „Ég hef haft áhuga á tónlist allt frá því að ég man eftir mér. Á þessum tíma var Kristinn G. Jóhannsson kennari og myndlistarmaður skólastjóri Gagnfræðaskólans í Ólafsfirði. Við vorum nokkrir strákar sem höfðu annan áhuga en þann sem sveif yfir plássinu. Áhuga á menningu og listum fremur en fiski og flökun. Einkum tón- og myndlist. Ég get nefnt fyrir utan mig, þá Kristinn Hrafnsson myndhöggvara og Gunnar Randversson tónlistarkennara. Við Gunnar erum reyndar náfrændur enda margir skildir í Ólafsfirði. Fólk fór oft ekki langt til að finna sér lífsförunaut. Þetta var nánast eins og í dölum til sveita fyrri tíðar. Fólk fór ekki yfir bæjarlækinn. Kristinn fann þennan áhuga hjá okkur og studdi okkur. Við eigum þeim stuðningi mikið að þakka og þar liggur ef til vill grunnurinn að við fórum allir í listnám. Við Gunnar í tónlistina og Kristinn í myndlist.“

Frá Akureyri til Manchester, Berlín og London

Að loknu námi hjá Kristni og fleirum í Gagnfræðaskólanum í Ólafsfirði lá leiðin til Akureyrar. „Ég fór í Menntaskólann á Akureyri og Tónlistarskólann þar sem ég lauk burtfararprófi 1979. Þaðan lá leiðin til útlanda. Til Bretlands þar sem ég stundaði framhaldsnám í Manchester og síðar í Berlín og London. Eftir námið hef ég starfað eingöngu við tónlist.“ Örn hefur leikið á alþjóðlegum tónlistarhátíðum. Í Japan, Noregi, Finnlandi, Ungverjalandi og víðar. Hann hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2001 ásamt Finni Bjarnasyni söngvara fyrir hljómdiskinn með Söngvum Jóns Leifs. 

Sannkallað tónlistarheimili

Örn býr í Sörlaskjóli 4 ásamt Mörtu Guðrúnu Halldórsdóttur eiginkonu sinni og sópransöngkonu. „Ég kynntist konunni minni 1990. Við höfðum kynnst í gegnum tónlist. Ég var dálítið skotinn í henni. Tók samt ekki mikið mark á því í fyrstu en það rann ekki af mér og þetta lenti með því að við urðum hjón.“ Þau hafa bæði fengist við þjóðlega tónlist og menningararf ásamt öðrum tónlistarverkefnum. Þau eiga mörg hljóðfæri sem þau hafa safnað saman í gegnum tíðina. Flest eiga þau rætur í tónsmíðum og tónlistarflutning fyrri tíma. Þau gera líka fleira en að safna hljóðfærum. Þau leika á flest þeirra.

Snéri sér að orgelinu

Örn starfar í dag meðal annars sem organisti við Breiðholtskirkju. Hvað kom til að hann snéri sér að orgelinu og kirkjutónlistinni. „Eitt haustið var fremur lítið fram undan hjá mér. Ekki nægilega mörg verkefni í dagbókinni að mér fannst. Ég hafði lengi hugsað um orgelleik og ákvað þarna að nú skildi ég láta gamlan draum rætast. Nú kæmi orgelið inn í myndina. Ég hringdi í Björn Steinar Sólbergsson organista í Hallgrímskirkju og innritaði mig í nám í orgelleik. Og eftir það varð ekki aftur snúið. Ég tók bæði kantórs- og einleikarpróf og fór fljótlega að starfa sem organisti ásamt fleiru. Ég byrjaði í Saurbæjarprestakalli þar sem ég sinnti starfi organista í fjögur ár og fór síðan í Breiðholtskirkju.“ Örn segir gaman hafi verið að leika á litlu orgelin í sveitakirkjunum. „Það voru mis góð en höfðu öll sinn sjarma. Á þessum sama tíma fengum við Marta áhuga á þessum gamla þjóðararfi sem við höfðum verið að fást við undanfarin ár. Við fórum að skoða ljóðasöng en Engel Lund eða Gagga eins og hún var oft kölluð hafði fengist við hann.“ Fyrir þá sem ekki vita var Engel Lund söngkona af dönskum ættum. Hún var einkum þekkt sem þjóðlagasöngkona og fór víða um heim. Hún starfaði einnig sem tónlistarkennari í Reykjavík eftir 1960.

Örn Magnússon og Marta G. Halldórsdóttir leika á langspil. Að baki er semball sem er í eigu þeirra.

Fengum áhuga á langspilinu

Svo tók eitt við af öðru. „Það má segja,“ segir Örn. Þarna fæddist okkur áhugi á að fara að skoða gömul hljóðfæri. Einkum fengum við áhuga á langspilinu og sögu þess en fórum líka að skoða heimildir um gömul hljóðfæri sem spilað var á hér á landi fyrr á öldum.“ Víkjum aðeins að langspilinu. Þótt það sé ekki mjög þekkt í dag er það með þekktari hljóðfærum frá fyrri tíma. „Það er rétt,“ segir Örn og bendir á að íslenska langspilið er samtvinnað baðstofumenningu gamla bændasamfélagsins. En þegar torfhúsum tók að fækka og lífhættir breyttust hafi áhugi fólks á hljóðfærinu farið að dvína. „Blómaskeiði langspilsins lauk upp úr miðri 19. öld þegar nútímalegri hljóðfæri eins og harmóníum og harmónikkur urðu algengari almenningseign. Í byrjun 20. aldar tilheyrði langspilið að mestu liðnum tímum.“ Örn segir að ekki séu margar heimildir til um langspilið og langspilsleik en þó séu nokkrar gamlar heimildir þar sem finna megi forvitnilegar lýsingar á fyrirbærinu. Ein þeirra er ritgerð eftir Ara Sæmundsen nítjándualdarmann sem heitir „Leiðarvísir til að spila á langspil og til að læra sálmalög eptir nótum.“ Þar var að finna leiðbeiningar um smíði hljóðfærisins, spilamáta og undirstöðuþekkingu í tónfræði. Af umfjöllun í Norðanfara frá 1877 virðist sem að leiðarvísi Ara hafi verið vel tekið og að hann hafi verið hið prýðilegasta hjálpartæki við að læra hin nýju sálmalög. Þó svo að gamaldags hljóðfæri hafi ekki átt upp á pallborðið hjá sigldum menntamönnum voru aðrir sem sáu sig knúna til að finna þeim nýtt notagildi í breyttu tónlistarumhverfi. Einn þeirra nútímamanna sem rannsakað hafa langspilið er Eyjólfur Eyjólfsson óperusöngvari sem tók það fyrir í meistaraverkefninu sínu í Þjóðfræði í Háskóla Íslands. Hann lagði síðan fram hugmynd að langspil yrðu notuð í grunnskólakennslu, börn læri að smíða og spila á þau og væri það aðferð að sameina nokkrar kennslugreinar. Eyjólfur kynnti þessa hugmynd fyrir Guðlaugu Hartmannsdóttur í Flóaskóla og nú hafa grunnskólakrakkar smíðað nokkuð mörg langspil. Framtak hans hefur vakið áhuga á þessu aldna hljóðfæri.

Spilmenn Ríkínís verða til

Svo verða Spilmenn Ríkínís til. „Já, Spilmenn Ríkínís verða nánast til heima í stofu. Nafnið Ríkínís er komið frá frönskum múnki að nafni Richini sem kom hingað til lands á vegum Ögmundar biskups á 12. öld. Hann kenndi söngfræði og söng á Hólum í Hjaltadal og eru það taldar elstu heimildir um söngkennslu hér á landi. Okkur fannst tilvalið að endurvekja nafn hans með tónlistinni. Krakkarnir okkar þau Ásta Sigríður og Halldór erfðu bæði tónlistaráhugann frá foreldrum sínum. Þau voru farin að spila á hljóðfæri og þessi áhugi okkar á eldri og þjóðlegri tónlist smitaðist til þeirra. Við fórum að spila og syngja saman. Ég get nefnt sem dæmi lag sem við fengum úr þjóðlagasafni séra Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði. Lag sem er einnig til í Melodiu í íslensku handriti frá sautjándu öld og hefur að geyma nótur að 223 lögum. Mörg þessara laga eiga sér erlendar fyrirmyndir sem sýnir að alþjóðlegir straumar hafa leikið um tónlistarmenningu hér á landi á sautjándu öld. Það er misskilningur sem stundum hefur heyrst að hér hafi engin tónlist verið til fyrr en á 19 og jafnvel 20. öld. Spilmenn Ríkínís hefur ein-beitt sér að tónlist fyrri tíma og þau leika á hljóðfæri sem vitað er að hafi verið notuð á Íslandi fyrr á öldum. Má þar nefna langspil og symphon sem getið er um víða í heimildum, þeirri elstu frá 13. öld og einnig hörpur og gígjur sem leikið var á fram að siðbótartímanum. Spilmenn Ríkínís hafa komið fram á tónleikum og einnig gefið tónlist út á hljómdiskum. „Á Gullhettu sem er ein af útgáfum okkar má finna tónlist og skáldskap sem tengist vorkomu og sumartíð og þeim létti sem við öll finnum fyrir í brjóstinu þegar vetur er á enda, lífið kviknar í moldinni og náttúran vaknar hið innra og hið ytra. Það er ekki óeðlilegt að í landi sem oft er barið af myrkri og illveðrum hafi sumarkoman boðað létti.“

Vesturbærinn er frábær bæjarhluti

Þið eruð búin að vera lengi í Vesturbænum. Var tilviljun að þið völduð að búa í vestrinu. „Við höfum verið hér allt frá 1992. Þá keyptum við Sörlaskjólið. Það var ekki tilviljun sem réð því þetta er eins konar ættarhús í fjölskyldu Mörtu. Hildigunnur Halldórsdóttir amma hennar átti þetta hús áður en það komst í okkar eigu. Ég hafði verið búinn að ganga fram hjá því mörgum sinnum. Ég hugsaði að þar gæti ég vel hugsað mér að eiga heima. Bróðir minn býr á Seltjarnarnesi og ég labbaði stundum út á Nes eins og það er kallað og þá lá gönguleiðin þar um. Við erum búinn að vera mjög ánægð með þessa staðsetningu. Vesturbærinn er frábær bæjarhluti. Nágrannar þekkjast og tengjast. Eiga meira að segja með sér golffélag. Við Vesturbæingar eigum okkar miðbæ eða kjarna. Hann er við Hofsvallagötuna og Hagamelinn. Melabúðin er samkomustaður margra. Hverfisbúð sem hefur staðið af sér alla stórmarkaðsstrauma í áranna rás. Vesturbæjarlaugin er líka góður viðkomustaður. Svo kom Kaffi Vest. Notalegt kaffihús þar sem gott er að tilla sér. Oft hittir maður einhverja ef maður kemur og skemmtilegar umræður geta spunnist þar við langborðið. Vestar við Hagamelinn er svo þjónustumiðstöð með nokkrum verslunum. Við höfum allt sem við þurfum í þessum bæjarhluta og svo erum við nánast í göngufæri bæði við háskólasvæðið og Miðborgina.“

Vildi skila einhverju til Ólafsfjarðar

Áður en við skiljum við Örn er rétt að minnast á menningarfyrirbæri sem þau hjónin hafa staðið fyrir. Berjadaga í Ólafsfirði. Toguðu heimkynnin þar í Vesturbæinginn og heimsmanninn Örn Magnússon. „Eigum við ekki að segja að Ólafsfirðingurinn hafi togaði í. Mér fannst að ég yrði að skila einhverju til baka til byggðarlagsins sem ól mig upp. Því kom upp hugmynd um að efna til þriggja daga tónlistarhátíðar blandaða af kammermúsík og öðrum listviðburðum. Við stóðum fyrir þessu í áratug en nú hafa aðrir tekið við og þessi hátíð blómstrar í dag.“

You may also like...