Þessi saga á erindi út um allt
– segir Magdalena Mejia sem hefur skráð baráttusögu Minervu Mirabal –
Magdalena Mejia kemur frá Dóminíska lýðveldinu en hefur búið hér á landi í 27 ár. Hún kemur úr stórri fjölskyldu í heimalandinu þar sem hún var alin upp í dreifbýli. Hún sótti sér menntun og nám lögfræði sem hún starfaði nokkuð við ásamt blaðamennsku áður en leið hennar lá hingað á norrænni og kaldari slóðir. Hún segir ástina hafa dregið sig hingað til lands en sambýlismaður hennar í um tvo áratugi og barnsfaðir er íslenskur. Dóttir hennar er hjúkrunarfræðingur og starfar á hjartadeild en sonurinn er enn í framhaldsskóla. Hún hvarf ekki af landi brott eftir sambandsslit við eiginmann og hefur fengist við eitt og annað hér á landi. Breiðholtblaðið settist með henni hjá samlanda hennar Evelin Rodrigues á Cosina Rodrigues eða Kaffi 111 í Gerðubergi þar sem hún aðstoðar vinkonu sína við reksturinn öðru hvoru.
Magdalena hefur ekki getað starfað sem lögfræðingur hér á landi. Til þess hefði hún þurft að fara í gegnum hluta lögnáms að nýju. Umtalsverður munur er á lögum og lagaumhverfi í Dóminíska lýðveldinu og hér á landi. Hún átti ekki greiðan aðgang að laganámi við Háskóla Íslands en segir að tilkoma Háskólans í Reykjavík hafi breytt miklu fyrir útlendinga sem vilja hefja eða framhalda háskólanámi hér á landi. Hún ákvað að skrá sig í íslensku í Háskóla Íslands til að læra annað tungumál en fór síðan í BA nám og síðar MA nám í spænsku. Afrakstur spænskunámsins er nú að líta dagsins ljós. Þessa dagana er að koma út bók eftir hana sem byggir á lokaritgerð hennar. Það leitar hún í sjóði sögu heimalands síns. Bókin heitir “Entre Minerva Mirabal, Tú y Yo …lecciones de una heroína dominicana para la mujer de hoy”.
Hún fjallar sérstaklega um líf Minervu Mirabal, einnar af Mirabal systranna. Mirabal systurnar “Las Hermanas Mirabal” sem voru þekktar andófsmanneskjur í Dóminíska lýðveldinu um miðbik síðustu aldar þar sem einræðisstjórn Rafael Leónidas Trujillo Molina var við völd og beitti pólitíska andstæðinga og aðra ofbeldi. Mirabal systurnar gengu á sjötta áratugnum til liðs við andspyrnuhreyfingar gegn stjórn Trujillos og mynduðu eigin hóp. Leynihreyfingin eða hópurinn sem þær voru hluti af, var kölluð “Movimiento 14 de Junio eða Hreyfingin 14. júní. Innan þessarar stofnunar voru þær þekktar sem Las Mariposas eða fiðrildin þar sem enginn var kallaður sínu rétta nafni til af tryggja sér persónulegt öryggi.
Alþjóðlegur dagur gegn kynbundnu ofbeldi
Þær tóku þátt í áróðri. Meðal annars með útgáfu dreifirita um fórnarlömb Trujillos og söfnuðu einnig hráefnum í vopn og sprengiefni. Systurnar voru oft handteknar fyrir aðgerðir sínar en tóku baráttu sína upp eftir að þeim var sleppt úr haldi. Þann 25. nóvember 1960 voru þrjár þeirra myrtar af útsendurum Trujillo stjórnarinnar. Það varð til þess þær urðu táknmynd hetjulegrar baráttu kvenna og fórnarlamba ofbeldis í heimalandinu. Árið 1999 ákvað allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að lýsa dauðadag þeirra 25. nóvember, alþjóðlegan baráttudag gegn kynbundnu ofbeldi þeim til heiðurs. Magdalena segir að þótt hún sæki í þessa sögu heimalands síns þá eigi barátta á borð við þá sem Mirabal systurnar unnu að erindi til allra. Átök séu víða um lönd og hugmyndir og tilhneigingar um einræði séu alltaf að koma frama. Einræði eigi ekkert skylt við mannréttindi. Heiti bókarinnar Á milli Minerval Mirabal og mín og þín segir flest sem segja þarf um efni hennar og sögu sem sífellt er að endurtaka sig með einhverjum hætti á hinum ýmsu stöðum. Magdalena kvaðst segja þessa sögu í tengslum við sína eigin sögu og kanna hvað hún og nútíminn eigi sameiginlegt með þeim. Þarna er á ferðinni forvitnilega nálgun. Bók Magdalenu var kynnt í Gerðubergi 17. þessa mánaðar. Bókin kemur út á spænsku en Magdalena kveðst vonast til að hún geti einnig komið út á íslensku. Sagan eigi erindi langt út fyrir hinn spænskumælandi heim. Það ofbeldi sem Mirabal systurnar urðu fyrir eigi sér stað út um allt. Í mörgum heimshornum. Því sé nauðsynlegt að halda henni á lofti. Magdalena er baráttukona. Hún er með rás á YouTube síðu og á Instagram. Þar vinnur hún að því að varpa ljósi á þá vinnu sem spænskumælandi búsettir á Íslandi vinna. Nafnið sem hún notar á samfélagsmiðlum er Magdalena Mejía P eða @magdalenamejiap