Leysa þarf vandamál á Breiðholtsbraut
Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi segir að ástandið á Breiðholtsbrautinni sé verulega slæmt. Spottinn á milli Jafnasels og Suðurlandsvegar ætti að sjálfsögðu að vera tvöfaldur eins og Breiðholtsbrautin neðar. „Þegar brautin verður einbreið stöðvast öll umferð því þá þarf sífellt verið að hleypa inn bílum af endaðri akrein. Þessi stífla kemur niður á öllum bílum sem staddir eru á brautinni alveg niður að Mjódd. Tvöföldun á Breiðholtsbrautinni ætti að vera í algjörum forgangi. Ástandið þarna bitnar á mörgum íbúum Breiðholts,“ segir Kolbrún.
Kolbrún hefur lagt til í umhverfis- og skipulagsráði að tafarlaust verði leyst úr umferðarvandamáli á Breiðholtsbraut. Skoða þurfi ljósastýringu og losa um þá hindrun sem veldur því að bílar sitja fastir í brautinni meira og minna. Hún segir einu eðlilegu framkvæmdina á þessu svæði sé að tvöfalda Breiðholtsbrautina frá Jafnaseli að Rauðavatni en það gerist ekki á einni nóttu. Leysa þurfi þetta mál nú þegar. Um hálftíma taki fyrir bíl að fara upp brautina á annatíma og er ekki við það unað. „Í ljósi þessa ástands er rangt að leggja áherslu á að greiða leið inn á einfalda Breiðholtsbrautina frá Kópavogi, með Arnarnesvegi. Áhersluna á að leggja á tvöföldun Breiðholtsbrautar,“ segir Kolbrún.