Fjárhagsáætlunin er krefjandi

– segir Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri –

Þór Sigurgeirsson.

Nesfréttir höfðu samband við Þór Sigurgeirsson bæjarstjóra og inntu hann eftir því hvað væri að gerast hjá bæjarfélaginu um þessar mundir. Hann segir stóra málið þessa dagana vera gerð fjárhagsáætlunar. Allar aðstæður séu mjög krefjandi. Verðbólgan sé á sveimi og ýmis óvissa sem þurfi að takast á við.

Hann segir að mikið sé spurt eftir því að bæjaryfirvöld setji fjármagn í að koma endurbyggingu Félagsheimilisins af stað. Nú sé verið að leita leiða til að svo megi verða. Ánægjulegt sé að sjá að fyrsta fjölbýlishúsið í Gróttubyggð sé að rísa upp úr jörðinni og gera verði ráð fyrir við hafist verði handa við fleiri á næstunni. Þór segir að enn sé unnið við viðgerðir á malbiki þar sem skemmdir eru mestar. “Við verðum að nota góðu tíðina á meðan hún endist,” segir hann, Þá megi einnig nefna jólaskreytingarnar. Áætlað sé að reyna að bæta við fleiri stöðum þar sem skreytt verður en í því efni er hlustað á ábendingar frá bæjarbúum. “Svo má ég ekki gleyma einu sem skipta mun okkur máli til frambúðar. Ný heimasíða bæjarfélagsins verður opnuð með pompi og prakt 1. desember næst komandi.”

You may also like...