Færri krakkar í Efra- Breiðholti stunda íþróttir

Stelpur sem stunda fótbolta hjá Leikni í Efra-Breiðholti.

Mun færri börn og ungmenni í Efra-Breiðholti stunda skipulagðar íþróttir heldur en íbúar annarra hverfa Reykjavíkurborgar og einnig þegar samanburðar er leitað utan borgarinnar. Á bilinu 11 til 12% stúlkna eru á meðal þátttakenda. Einnig nýta færri börn á aldrinum sex til átján ára í Efra Breiðholti frístundakort Reykjavíkurborgar en í öðrum borgarhlutum. 

Ástæður þessa kunna að vera nokkrar en ein helsta er talin sú að erfiðlega hefur gengið að fá krakka af erlendum uppruna til íþróttastarfs. Þar getur komið til sögu menningarleg arfleifð. Að fjölskyldur barna hafi ekki alist upp við íþróttir og þekki jafnvel ekki til þeirra. Tungumálakunnátta foreldra og efnahagur getur einnig skipt máli. Foreldrar sem ekki hafa náð góðum tökum á Íslensku geta verið tregari til þess að ýta börnum sínum í íþróttastarf jafnvel þótt börnin hafi þegar góð tök á málinu. Þá getur efnahagur og einnig menntun ráðið nokkru um. Tölur sýna að fleiri hafa þegið fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg í Efra Breiðholti en í öðrum hverfum og borgarhlutum á undanförnum árum. Þá eiga fleiri íbúar í Efra-Breiðholti minni skólagöngu að baki en gengur og gerist. Þegar upplýsingar voru teknar saman í tengslum við átaksverkefnið Menntun núna árið 2013 voru um 40% íbúa á aldrinum 25 til 54 ára aðeins með grunnskólapróf. Sambærileg hlutfallstala í öðrum hverfum Reykjavíkur var tæp 23%. Allar þessar ástæðu geta dregið úr því að börn stundi íþróttir. Forráðamenn íþróttafélaganna segja almennt erfitt að fá börn af erlendum uppruna til þátttöku þótt nokkur slík hafi náð langt í íþróttastarfi. 

Fólk nýtir frítundakortið til að greiða fyrir frístundaheimili í stað íþrótta

Leiknir í Efra-Breiðholti býður upp á æfingar í knattspyrnu og í karate. Íþróttafélag Reykjavíkur ÍR er staðsett í útjaðri Neðra-Breiðholts og býður upp á æfingar í fjölda greina. Knattspyrna er sú íþrótt sem mest er stunduð bæði af konum og körlum í Efra-Breiðholti og karate er í fjórða sæti hjá körlum en fimmta sæti hjá konum. Ef til vill finnst fólki í Efra Breiðholtið of langt að senda börn til æfinga hjá ÍR eða í Seljaskóla þar sem ÍR hefur haft aðstöðu. Leiða má líkum að því að efnaminni fjölskyldur nýti frístundakortið frekar en aðrar til þess að greiða fyrir vist barna á frístundaheimilum. Í þessu sambandi má benda á að frístundaheimilin skipta miklu máli í lífi fólks sem er undir miklu vinnuálagi. Er til dæmis í tveimur störfum. En jafnframt því vaknar spurning um hvort rétt sé að leyfa foreldrum að nýta frístundakort barna sinna til þess að greiða vist á frístundaheimilum en ekki til íþróttaiðkana. 

You may also like...