Dómkirkjan er kirkja allra landsmanna
– segir Einar S. Gottskálksson formaður sóknarnefndar
Einar S. Gottskálksson tók við formennsku í sóknarnefnd formaður sóknarnefndar Dómkirkjunnar á linu sumri. Einar er Seltirningur og ólst upp á Seltjarnarnesi þar til hann flutti að heiman. Einar hefur starfað fyrir Neskirkju um nokkurn tíma og verið varaformaður sóknarnefndarinnar þar til hann tók við formennskunni af Marinó Þorsteinssyni. Einar hefur starfað við timbur eiginlega allt sitt líf. Fjölskylda hann stofnaði Harðviðarval á sínum tíma og þar starfaði Einar við föður síns Gottskálks Eggertssonar og fjölskyldunnar þar til hann festi ásamt sinu fólki kaup á fyrirtækinu Agli Árnasyni. Í dag rekur fjölskyldan Harðviðarval og Egil Árnason sem bæði fást við umsýslu með timbur. Einar settist niður með Vesturbæjarblaðinu í Sigríðarstofu í safnanaðheimili Dómkirkjunnar.
„Ég er Seltirningur en fer af Nesinu um tvítugt þegar ég var kominn með heimili og við höfðum eignast okkar fyrstu íbúð. En það höfðu myndast tengsl við Seltjarnarnes sem eru gríðarlega sterk. Þarna lágu fyrstu skrefin. Eftir að skólagöngunni á Nesinu lauk fór ég fyrst í Lindargötuskólann og þaðan í Verslunarskólann. Ég vissi ekki alveg hvað ég vildi eins og gerist stundum á þeim árum. Ég lauk verslunarprófi 1974. Strax eftir það fór ég að vinna með föður mínum Gottskálk Eggertssyni sem þá rak fyrirtæki í timburinnflutning ásamt öðrum manni. Fjórum árum síðar 1978 stofnuðum við feðgarnir fyrirtækið Harðviðarval. Okkur gekk strax vel og fyrirtækið óx og dafnaði og þar vann ég með föður mínum í 30 ár. Í hruninu 2008 festum við, ég og mín fjölskylda kaup á fyrirtæki sem heitir Egill Árnason og hafði verið stofnað á fjórða áratug liðinnar aldar. Faðir minn var þá kominn á aldur eins og sagt er og hættur að vinna og ég hef verið að reka þessi fyrirtæki með fjölskyldunni síðan. Ég á tvo syni og eina dóttur og þau eru öll að vinna með okkur í þessum fyrirtækjum.
Saga á bak við starfið við Dómkirkjuna
Hvenær fór Einar að starfa fyrir Dómkirkjuna. Að baki því er saga. „Föðuramma mín Ragnhildur Gottskálksdóttir sem bjó í Tjarnargötunni var trúð kona. Hún var lækningamiðill, hjálpaði mörgum með sínum krafti. Mér er hvað minnisstæðast varðandi hana að þangað heim var stríður straumur af fólki. Síminn stoppaði oft ekki. Eggert afi minn starfaði sem lýsismatsmaður. Var eini konunglegi lýsismatsmaðurinn hér á landi. Hann hafi ærinn starfa en tók líka að sér að aðstoða ömmu. Hann var að svara í símann og taka niður skilaboð og beðnir um fyrirbænir frá allskonar fólki. Hann hefur áttað sig á hvað þetta var mikilvægt. Þetta mótaði vissulega viðhorf mín til trúarinnar. En lífið heldur áfram og árið 2005 fer ég að venja komur mínar í Dómkirkjuna. Ég fór að fara í messur hjá séra Hjálmari Jónssyni sem þá var dómkirkjuprestur og líka séra Jakobi Ágúst Hjálmarssyni. Þetta eru miklir prýðismenn. Eitthvað dró mig að Dómkirkjunni sem ég kann ekki að skýra. Ég finn að það er eitthvað sem kallar. Ég hef verið í sóknarnefnd Dómkirkjunnar síða 2006. Ég hef verið með mörgu góðu fólki. Lengst hef ég verið með Marinó Þorsteinssyni vini mínum í sóknarnefnd sem var búinn að vera formaður í næstum tvo áratugi. Við Marinó höfum átt mikið og farsælt samstarf. Mér finnst hafa verið mjög gefandi að hafa fengið tækifæri til að vinna með öllu þessu góða fólki sem hér hefur verið við störf. Prestum, kirkjuhöldurum og öðrum sem komið hafa við sögu. Hér er fyrst og fremst gott fólk sem vill vel. Ágætlega hefur farið á með fólki og okkur hefur tekist að láta það jákvæða og góða vera í farrúmi. Láta kærleikann njóta sín. Ég tók við sem formaður í september á þessu ári eftir að hafa verið varaformaður í nokkuð mörg ár.“
Helgidómur Íslendinga
Einar bendir á að Dómkirkjan í Reykjavík sé ekki stærsta kirkja landsins. „En hún er höfuðvettvangur og safngler helstu atburða íslenskrar kirkjusögu síðustu tvær aldirnar sem spannar fimmtung af heildarsögu kristni í landinu. Hún ein er kirkja allra landsmanna. Helgidómur Íslendinga. Þar minnast með þjóðhátíðardagsins. Þar eru sungnar messur áður þingsetning fer fram og fleira mætti telja. Þetta er svolítið þungur texti en það sem ég vil segja með þessu er að við áttum okkur á því að í þessari fallegu einstöku gersemi okkar hafa fjölmargar gleði- og sorgarstundir Reykvíkinga og fleiri farið fram. Þetta er ekki lítið hlutverk og ábyrgð okkar sem hér höldum um stjórn og störf í dag er mikil að varðveita þetta.“
Nótt við dag að jarða
Einar minnist frásagna af tíma Spönsku veikinnar 1918 sem geisaði hér á sama tíma einir misstu frostkuldar sögunnar hrjáðu landsmenn. „Dómkirkjuprestarnir séra Bjarni Jónsson og séra Jóhann Þorkelsson stóðu þá nótt og dag við að jarða. Þeir höfðu ekki undan og líkkistusmiðir ekki heldur. Móðurafi minn var Einar Sigurðsson á Aðalbjörgu sem var eins mikill Vesturbæingur og hægt var. Hann sagði mér frá því að þegar hann var 12 ára veturinn 1918 og var sendur af Bráðræðisholtinu þar sem hann átti heima og niður í apótek til þess að ná í lyf. Allir voru veikir heima nema hann. Og hann mætti heldur engum á leiðinni fram og til baka. Engin var á ferli.“
Veigamikið hlutverk á jólum
Einar snýr sér að komandi jólahátíð. Hann segir Dómkirkjuna gegna veigamiklu hlutverki á jólunum. „Klukknahljómur kirkjuklukkna Dómkirkjunnar kl. 18 á aðfangadagskvöld er stór stund í lífi flestra okkar. Þá hringja klukkur hennar inn jólin, sem er ein helsta hátíð okkar kristinna manna. Kærleikshátíð sem opnar hjörtu okkar fyrir því að láta gott af okkur leiða í samskiptum við aðra menn. Það er gott að geta hjálpað öðrum. Okkur líður vel þegar við sjáum að öðrum líður vel. Það er gullna reglan. Þá eru jólin tími hefða þar sem við viljum halda í ákveðna hluti í matargerð og minningar frá barnæsku koma upp í hugann. Jólaskrautið er tekið fram. Ilmur af greni berst að vitum okkar. Þetta er allt hluti af því að fanga jólastemninguna. Á jólahátíðinni finnum við að við viljum hjálpa þeim sem hjálpar eru þurfandi. Við heimsækjum fólk sem er á hjúkrunarheimilum, spítölum, öldrunarheimilum. Við gefum til hjálparstarfs. Jólin opna hjörtu okkar með kærleikann að verki Jólin eru kærleikans hátíð. Jólasálmarnir góðu, Heims um ból, Nóttin var sú ágæt ein, Í dag er glatt í döprum hjörtum, og fleiri vekja upp góðar og kærar minningar.“ Við endum spjallið á þessum lokaorðum formanns sóknarnefndar Dómkirkjunnar.