Starfsnámsaðstaðan stækkuð í FB

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari og Ásmundur Einar Daðason.
Mynd: Þórdís Erla Ágústsdóttir.

Stór viðburður varð í sögu Fjölbrauta­skólans í Breiðholti í janúar sl. Þá undirrituðu Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgar­stjóri viðauka við samning um stækkun á starfsnámsaðstöðu við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Stækkunin nemur alls um 2.400 fermetrum og er fyrir nám í húsasmíði, rafvirkjun og listgreinum. Hin nýja verknámsbygging mun rísa á byggingarreit skólans við Hraunberg sem viðbót við Smiðjuna þar sem nú er kennd húsasmíði og myndlist.

Þessi uppbygging á húsakosti skólans er brýn og afar kærkomin sem viðbragð við aukinni aðsókn nemenda í verk- og listgreinar. Fjölbrautaskólinn í Breiðholti er einn stærsti starfs- og listnámsskóli landsins og hafa umsóknir um skólavist aldrei verið fleiri. Búist er við frekari fjölgun á næstu misserum og mun þessi stækkun gera skólanum kleift að veita nemendum sem í skólann sækja fyrirtaks aðstöðu og þjónustu.

Húsið verður byggt samkvæmt stöðlum um sjálfbærni, enda mikilvæg fyrirmynd fyrir þá kennslu sem þar skal fara fram. Við hönnun byggingarinnar verður gert ráð fyrir að hún uppfylli skilyrði um BREEAM vottun í samræmi við Loftslagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021 til 2025. Kostnaðarskipting milli ríkis og borgar er 60% og 40% eins og kveðið er á um í lögum um framhaldsskóla. Að undirritun lokinni var ráðherra og borgarstjóra boðið til hádegisverðar í mötuneyti nemenda ásamt yfirstjórn skólans, formanni og varaformanni nemendafélagsins, sviðstjórum rafmagns, húsasmíði og listgreina ásamt fulltrúum nemenda af þessum brautum.

You may also like...