Verður Árbæjarstífla tekin niður
Mögulega verður Árbæjarstífla tekin niður á næstu árum. Málið tengist endurheimt náttúrugæða eftir að orkuframleiðslu var hætt í Elliðaárstöð. Á síðasta fundi umhverfis og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar var lagt fram bréf frá Orkuveitu Reykjavíkur frá 31. janúar sl. um samstarf um endurheimt náttúrugæða í Elliðaraárdal vegna niðurlagningaráætlunar Elliðaárvirkjunar og endurskoðunar á gildandi deiliskipulagi svæðisins.
Eftir að ljóst varð að raforkuvinnslu í Elliðaárvirkjun væri hætt um fyrirsjáanlega framtíð, hvílir sú skylda á Orkuveitu Reykjavíkur, skv. 79. gr. vatnalaga, að skila niðurlagningaráætlun til Orkustofnunar. Áætlunin skal m.a. greina frá því hvernig umhverfi virkjunarinnar verður fært til fyrra horfs eins og kostur er. Í þessu ljósi samþykkti stjórn Orkuveitu Reykjavíkur á fundi sínum 28. nóvember sl. að settur yrði á fót sameiginlegur stýrihópur Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar um endurheimt náttúrugæða í Elliðaárdal eftir að raforkuvinnsla í Elliðaárvirkjun er lögð af, með fulltrúum Orkuveitu Reykjavíkur, umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar og íbúaráða Árbæjar og Norðlingaholts og Breiðholts. Eins og skipan stýrihópsins ber með sér lítur Orkuveita Reykjavíkur svo á að mikilvægt sé að framkvæmdir samkvæmt niðurlagningaráætlun fái stoð í skipulagsáætlunum Reykjavíkurborgar. Ljóst er að Sjónarsviptir verður af ef Árbæjarstíflan verður tekinn niður en sú gæti orðið niðurstaðan árið 2025. Kostnaður við það er talin verða um 156 milljónir.