Nóg að gera og er að vanda mig

— segir Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri —

Þór sitjandi á fundarborði. Lýsir persónuleika hans vel. Ekki vera of stífur.

Í mörg horn var að líta hjá bæjar­­­stjóranum þegar Nes­fréttir litu við á dögunum. Verk­fall yfirvofandi sem mun hugsanlega hafa víðtæk áhrif á bæjarlífið svo sem skólastarf, skóla­mat, félagsþjónustu, sorphirðu svo eitthvað sé talið skelli það á af fullum þunga. „Já, það vantar ekki verkefnin hingað. Við erum með litla yfirbyggingu á bæjarfélaginu sem sinnir öllum lögbundnum verk­efnum og yfirgripsmikilli þjónustu af fagmennsku og alúð. Stjórn­­kerfið hér er þannig sett upp að mjög mörg verkefni hvíla á fáum herðum. Á bæjar­skrifstofunni er t.a.m. ekkert aðstoðar­fólk svo sem bæjarritari eða skrifstofustjóri. Starfsmenn eru miklir sérfræðingar í sínum störfum og í raun einyrkjar, sumir með mjög marga hatta saman­borið við það sem gengur og gerist í nágranna­sveitar­félögunum. Þetta reynist ágætlega en álagið er hins vegar oft mikið og lítið má út af bregða því verkefnum fjölgar stöðugt og þjónustu­kröfur aukast. Við gerum þetta eins vel og með eins hag­kvæmum hætti og frekast er unnt,“ segir Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri sem tók til starfa 8. júní síðastliðinn fyrir rúmlega átta mánuðum síðan.

„Þetta hefur verið virkilega við­burða­ríkur tími og bæjar­stjóra­starfið er óneitanlega viðamikið. Ég er í raun alltaf í vinnunni og veit eiginlega aldrei alveg hvað dagurinn ber í skauti sér. Það eru eðlilega fjöldi ólíkra viðfangsefna tengt bæjarmálunum sem þarf að sinna alla daga, verkefnin eru mis viðamikil og sum tímafrekari en önnur. Ég get nefnt sem dæmi að fundahöld með SSH (Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu) eru vikuleg og taka upp mikinn tíma. Um er að ræða fundi með borgar- og bæjarstjórum okkar nágrannasveitarfélaganna og snúa að sameiginlegum verkefnum okkar og samstarfi. Í þessu felast miklir hagsmunir svo sem þátttaka og eign í Samgöngusáttmálanum, byggðasam­lögunum Sorpu, Slökkvi­liðinu og Strætó, og tekur oft hvað mestan tíma þessa daganna.“

Þakklátur fyrir góðar móttökur 

„Ég hef upplifað mikla jákvæðni frá því að ég hóf störf og er bæjarbúum afar þakklátur fyrir góðar móttökur við mér og hópnum mínum, mál­flutningi okkar og verkum. Ég er ein­staklega ánægður með teymið í meiri­hlutanum sem hefur á að skipa góðri blöndu af reynslu héðan og þaðan, kynja- og aldurssamsetningin er góð og andinn jákvæður. Við erum í þessu starfi af heilum hug til að láta gott af okkur leiða. Við njótum auðvitað góðra starfa forvera okkar í bæjarstjórn sem við kunnum vel að meta og horfum bjartsýn til framtíðar. Já, bjartsýnn segi ég því það er ekkert sérstaklega bjart yfir verðbólgu og almennt efnahagsmálum landsins og heimsins um þessar mundir. Við hjá Seltjarnarnesbæ förum sannarlega ekki varhluta af því og fjármagnsliðir eru okkur þungir. En við erum samt sem áður bjartsýn og ég vil miklu frekar tala hlutina upp og sjá tækifærin í stað þess að leggja árar í bát. Samstarf flokkanna í bæjarstjórn er ennfremur að mínu mati með miklum ágætum, gott samtal og samvinna. Mér finnst það persónulega bæði mikilvægt og jákvætt því síst af öllu þurfum við átakastjórnmál á Nesinu um þessar mundir.“

Margt spennandi í gangi

„Það er verulega ánægjulegt að segja frá því að ég hef, fyrir hönd Seltjarnarnes­­bæjar, ritað undir hönnun­ar­­­samning að nýrri leik­skóla­­byggingu eins og sjá má í frétt hér í blaðinu. Það eru svo sannarlega kaflaskil og ég er mjög stoltur af þessum áfanga. Nú er verkið formlega hafið eftir langan aðdraganda, endan­leg hönnun í sam­starfi við fagfólk leikskólans verður kláruð og áformað að ný bygging verði tekin í notkun fyrir árslok 2025.

Í lok árs 2022 tókum við í notkun nýja heimasíðu bæjarins sem hafði verið í þróun í nokkurn tíma. Skemmtilegt verkefni sem bætir ásýnd og þjónustu okkar til mikilla muna og leggur grunn að endur­nýjun á vefsvæðum fyrir skólana og bókasafnið. Á nýju heima­síðunni er gátt fyrir íbúa til að koma til okkar hvers kyns ábendingum um bæjarmálin í víðum skilningi. Vil hvetja íbúa að notfæra sér þennan aðgang að bæjarkerfinu en öllum ábendingum er vísað áfram í viðeigandi farveg.

Við ákváðum við gerð fjárhags­áætlunar ársins 2023 að setja um­talsvert fjármagn í áframhaldandi endur­bætur á Félagsheimilinu. Þegar er búið að leggja mikla vinnu í endurbæturnar sem hófust á covid tímanum. Þær eru afar umfangsmiklar enda 50 ára gamalt hús, flest allt upprunalegt og löngu kominn tími á allar lagnir og almennt viðhald. Auk þess sem margt í húsinu stóðst lengur nútímakröfur varðandi brunavarnir ofl. Nú þegar liggur nær öll hönnun fyrir og hefur þegar verið greidd auk þess sem búið er að vinna mikla lagna- og undirbúningsvinnu. Fljótlega munu framkvæmdir halda áfram en það hefur hefur verið mikill söknuður allra að hafa ekki aðgang að Félagsheimilinu enda eina húsnæði okkar bæjarbúa af þessum toga. Ég er mjög spenntur fyrir endurbótunum sem mér finnst afar mikilvægt er að verði til fyrirmyndar og gert af sama metnaði og þegar að Félagsheimilið var reist á sínum tíma. Markmiðið nú er að öll hönnun, útlit og ásýnd taki mið af upphaflegri hönnun en uppfylli þarfir og kröfur nútímans.“

Fer mikið í stofnanir bæjarins

„Margir hafa tekið eftir því að ég legg mig fram um að vera bæði sýnilegur og aðgengilegur í bæjarfélaginu eins og ég hafði boðað.  Ég fer mikið í stofnanir bæjarins og reyni að fylgjast með okkar frábæra fólki við störf – kíkja við í leikskólana, skólana og íbúðir aldraðra o.s.frv. Ég fer í laugina okkar á hverjum morgni og mæti á eins marga Gróttuleiki og ég get. Grilla bæjarstjóraborgara fyrir Gróttuleikina sem er skemmtilegt sjálfboðaliðaverkefni og hef nýtt grillkunnáttuna á bæjarhátíðinni. Hef svo mætt mun oftar í kirkju en undanfarin ár og finnst það gott. Ég finn og fæ að heyra að þessi sýnileiki minn hefur jákvæð áhrif og er mjög ánægður með það. 

Þór í heimsókn hjá ungum Seltirningum á degi leikskólans.

Að svara ekki getur skapað óþarfa óánægju

„Ég hef alltaf unnið þannig að ég sé ávallt innan seilingar ef fólk þarf að ná í mig, er markaðs og sölumaður sem drífur mig áfram. Að setja sig í spor viðskiptavinarins er lykilatriði að mínu mati og ég vil að við hjá bænum veitum alltaf úrvalsþjónustu. Ég er oft til svara inn á íbúasíðunni ef ég veit eitthvað um það sem er þar til málefnalegrar umfjöllunar og varðar bæjarmálin. Ég óska þó ekkert endilega eftir því að vera „taggaður“ í allt sem þar er til umfjöllunar og bendi aftur á ábendingagáttina á heimasíðunni sem rétta og besta farveginn. 

Margir hafa sagt mér að slaka aðeins á varðandi að svara þessu öllu og að vera út um allt, að ég muni einfaldlega brenna fljótt upp. Ég lít þannig á að ég sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins svari því sem spurt er um, hafi ég þær upplýsingar á takteinum þ.e.a.s. Samanber það sem ég sagði rétt áðan um þjónustu og að setja sig í spor viðskiptavinarins. Að svara ekki getur stuðlað að óþarfa óánægju en auðvitað þurfa að vera mörk á þessu sem og öðru. Heilt yfir hef ég bara gaman af þessu öllu saman og er sko ekkert að brenna upp enda bara nýbyrjaður. Mér finnst áhugavert að þróa starf bæjarstjórans með nýjum og allt öðrum hætti en gert er annars staðar og feta nýjar brautir. Nesfréttir hafa meira að segja birt gsm númerið mitt þannig að nú vita það allir. “

Að gera eins vel og mér og okkur er unnt

„Verkefnin sem snúa að sam­félaginu okkar hér eru svo mörg og margar spennandi hugmyndir á lofti. Mér finnst t.d. ekki galin hugmynd að færa bæjarskrifstofuna á Eiðistorg eins og ég hef áður nefnt og sé fyrir mér fleiri kosti en galla. Nú er verið að grófteikna upp húsnæðið á þessum 260 fermetrum og þegar við sjáum útkomuna getum við betur metið hvort starfsemi bæjar­skrifstofunnar muni rúmast þar eða ekki. Reynist það of lítið þá fer þessi hugmynd mín bara ofan í skúffu. 

Svo er þetta allt spurning um forgangsröðun því það er svo margt sem kemur óvænt upp og þarfnast tafarlausra viðbragða en hefur ekki verið gert ráð fyrir í fjárhagsáætlunum. Oftar en ekki tengist það viðhaldi fasteigna, gatna­kerfis og leiksvæða. Mér finnst mikilvægt að við sameinumst öll um að gera bæinn okkar enn fallegri og snyrtilegri með sameiginlegu átaki bæjarstarfsmanna og íbúa. Það eru svo alltaf einhver stór verkefni sem ekki hafa verið á dagskrá bæjarins en kominn er tími á. Get nefnt sem dæmi tímabær útskipti á gatnalýsingu bæjarins yfir í hagkvæmara LED kerfi en við erum tengd áratugagömlu kerfi ásamt póstnúmeri 107. Það er afar mikilvægt fyrir okkur að nýta stærðarhagkvæmni innkaupa og ná að fylgja nágrönnum okkar í Reykjavík, Kópavogi og Mosfellsbæ sem stefna á að taka þetta saman. 

Fyrr en síðar mun byggð rísa og von á fjölgun íbúa sem ég hlakka til að taka vel á móti og verkefnum því tengt. Sem sagt bara virkilega spennandi tímar framundan og ég hef gaman í vinnunni, finnst það sannur heiður að fá að gegna þessu virðulega embætti. Ég hef þó ekkert sérstaklega breytt mér heldur kem bara til dyranna eins og ég er klæddur. Mitt markmið er að gera þetta eins vel og mér og okkur sem störfum fyrir bæjarbúa er unnt. Almenn vellíðan og ánægja íbúa er alltaf markmið mitt. Af því verður enginn afsláttur gefinn.“

You may also like...