Gísli Örn Garðarsson – bæjarlistamaður Seltjarnarness 2023

Gísli Örn Garðarson leikari og leikstjóri og Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2023.

Gísli Örn Garðarsson leikari og leikstjóri var útnefndur bæjar­listamaður Seltjarnarness 2023 við hátíðlega athöfn á Bókasafni Seltjarnarness föstudaginn 17. mars. Þetta er í 27. sinn sem bæjarlistamaður Seltjarnarness er útnefndur en Menningarnefnd Seltjarnarness sér um val bæjarlistamanns ár hvert. Í heiðursathöfninni veitti Þórdís Sigurðardóttir formaður menningarnefndar Gísla Erni viðurkenningarskjal ásamt starfsstyrk að upphæð 1.000.000 kr. sem fylgir nafnbótinni.

Gísli Örn er fæddur í Reykjavík en flutti ungur að árum til Noregs þar sem hann bjó í nokkur ár. Gísli hefur búið á Seltjarnarnesi frá árinu 2014 ásamt eiginkonu sinni, Nínu Dögg Filippusdóttur leikkonu og börnum þeirra tveimur. 

Gísli Örn útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ árið 2001. Hann hefur sett upp fjölda leiksýninga á Íslandi og erlendis, sem höfundur og leikstjóri, og hefur leikið á sviði, í kvikmyndum og sjónvarpi. Hann hefur starfað við fjölda virtra leikhúsa á Íslandi, í Noregi, Bretlandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi og víðar. Meðal leikstjórnarverkefna hans eru Jólaboðið, Ellý, Fólk, Staðir og hlutir, Í hjarta Hróa hattar, Hamskiptin, Faust, Woyzeck og Rómeó og Júlía. Hann er einn af stofnendum Vesturports. 

Gísli Örn hefur tvívegis hlotið Edduverðlaunin sem leikari og hefur unnið til alþjóðlegra leiklistarverðlauna fyrir leikstjórn. Hann er einn af leikstjórum sjónvarpsþáttaraðarinnar Verbúðarinnar, auk þess sem hann er einn af leikurum, handritshöfundum og framleiðendum þáttanna. Hann leikstýrði tveimur þáttum í þriðju þáttaröðinni af sjónvarpsþáttunum Exit. Hann leikur um þessar mundir í Ex í Þjóðleikhúsinu.

Gísla Erni eru færðar innilegar hamingjuóskir með heiðursnafnbótina, Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2023 og munu Seltirningar að sjálfsögðu fá að njóta hæfileika hans á árinu.

Þórdís Sigurðardóttir formaður Menningarnefndar Seltjarnarness, Gísli Örn Garðarsson bæjarlistamaður Seltjarnarness 2023 og Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri.
Á Bókasafni Seltjarnarness hefur verið sett upp örsýning til heiðurs Gísla Erni Garðarssyni.
Selma Björnsdóttir, Jógvan Hansen sungu á athöfninni við undirleik Pálmi Sigurhjartarson.

You may also like...