Deilt um uppbyggingu í Skerjafirði

Á kortinu má sjá ýmis hugsanleg flugvallarstæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

Umræðum og deilum um Reykja­­víkurflugvöll virðist hvergi nær lokið. Sigurður Ingi Jóhanns­son innviðaráðherra segir að hann muni ekki fallast á að farið verði í uppbyggingu á næstum sjö hundruð íbúða hverfi í Nýja-Skerjafirði án þess að það verði tryggð að hún hafi ekki neikvæð áhrif á rekstrar­öryggi. Ekki verði unnt að fallast á áætlanir Reykja­víkur­borgar um fyrirhugaða byggð í Skerjafirði að óbreyttu. Óásættanlegt sé að farið verði í slíkar framkvæmdir án þess að fullkannað sé hvort og þá með hvaða hætti verði tryggt að þær hafi ekki neikvæð áhrif á rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar.

Á sama tíma heldur Reykja­víkurborg áfram með áætlanir sínar um byggðina í Skerjafirði. Hið nýja í málinu er að nú er samflokksfólk Sigurðar Inga komið í meirihluta í borgarstjórn og þar kveður við annan tón. Bæði Einar Þorsteinsson formaður borgarráðs og verðandi borgar­stjóri og Árelía Eydís Guðmunds­dóttir formaður skóla- og frísundasviðs hafa gefið í skin að flugvallarsvæðið í Vatnsmýrinni verði framtíðar byggingarland í Reykjavík. Í frétt RÚV frá því fyrr í sumar kvaðst Einar vonast til þess að framkvæmdir við uppbyggingu Skerjafjarðar verði ekki blásnar af. „Ég vona þar verði hægt að byggja fallegt hverfi, sem þjónar þessum hópum sem eru í sárri neyð eftir húsnæði og um leið að tryggja rekstraröryggi flugvallarins. Árelía Eydís lét sömu sjónarmið í ljósi í viðtali við Vesturbæjarblaðið í júní sl.

Jarðhræringar valda heilabrotum

Fram til þessa hefur einkum verði horft til flugvallargerðar í Hvassahrauni sunnan Hafnar­fjarðar. Staðsetningin hentar bæði þeirri flugstarfsemi sem er á Reykjavíkurflugvelli og einnig því að verða varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll og jafnvel taka hluta af því álagi sem er á honum og fer vaxandi. Með jarðhræringum og eldsumbrotum á Reykjanesi vöknuðu á hinn bóginn spurningar og heilabrot hófust um hvot heppilegt væri að hafa tvo alþjóðaflugvelli með svo skömmu millibili á Reykjanesskaganum. Ljóst er þó að Reykjavíkurflugvöllur getur ekki gegnt hlutverki varaflugvallar fyrir millilandaflug til frambúðar sökum þess hversu lítill hann er og stækkunarmöguleikar ekki fyrir hendi. Einnig er ljóst að Reykjavíkurborg mun sækja fast á um að fá það land sem flugvöllurinn stendur á sem byggingarland.

Umræða um Lönguskerja­flugvöll lagðist af

Í skýrslu Rögnunefndarinnar var fjallað um nokkra staði sem gætu komið til greina til flugvallagerðar. Var þar beint á Bessastaðanes, Hólmsheiði, Löngusker og útfærslu á flugvellinum í Vatnsmýri í breyttri mynd. Í Rögnunefndinni var ekki fjallað um aðra staði sem fjær eru höfuðborgarsvæðinu. Þó hafa fleiri staðir verið nefndir. Einkum hefur verið bent á Ölfusið og Mýrar í Borgarfirði. Einnig hefur verið rætt um Akureyrarflugvöll, Egilsstaðaflugvöll og jafnvel Alexandersflugvöll við Sauðárkrók sem æskilega staði fyrir varaflugvelli. Tveir þeir fyrr nefndu gegna því hlutverki nú þegar en eru báðir í mikilli fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Fyrir nokkrum árum kom flugvallar gerð á Lönguskerjum í Skerjafirði nokkuð til umræðu en hún lognaðist út af.

Aldrei byggt alþjóðaflugvöll

Bygging alþjóðaflugvallar er stórt mál á íslenskan mælikvarða. Minnast má þess að Íslendingar hafa aldrei sjálfir byggt slíkan flugvöll. Bæði Keflavíkurflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur eru herflugvellir frá tímum heim­styrjaldarinnar frá 1939 til 1945 byggðir af Bandaríkjamönnum og Bretum. Í ljósi vaxandi byggðar í Reykjavík og ekki síður mikilli fjölgun flugferða með auknum flutningi ferðamanna til landsins þolir þetta mál litla bið. En sem stendur virðist málið einkum snúast um nýja byggð í Skerjafirði og mismunandi afstöðu framsóknarfólks í ríkisstjórn og borgarstjórn Reykjavíkur. 

You may also like...