Nýr búsetukjarni við Kirkjubraut

—  bjartar og glæsilegar íbúðir fyrir sex einstaklinga —

Emilía Gylfadóttir nýr forstöðumaður búsetukjarnans að Kirkjubraut, Jóhanna Ósk Ásgerðardóttir umsjónarmaður í málefnum fatlaðs fólks hjá Seltjarnarnesbæ, Þóra Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri Áss styrktarfélags, Ásgerður Halldórsdóttir fyrrum bæjarstjóri og ábyrgðarmaður í aðdraganda og upphafi framkvæmdanna og svo Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar.

Nýr búsetukjarni hefur tekið til starfa á Seltjarnarnesi. Búsetu­kjarninn er við Kirkjubraut 20 og var opnaður með formlegum hætti 3. apríl sl. þegar Þór Sigur­geirsson bæjarstjóri afhenti Þóru Þórarinsdóttur fram­kvæmda­stjóra Áss styrktarfélags lyklana að húsinu.

Um er að ræða 553 fermetra hús­næði sem er í eigu Seltjarnarnes­­bæjar með sex einstaklings­­íbúðum fyrir fatlað fólk ásamt starfs­manna­­­rými og sam­eigin­legri, bjartri sól­stofu með fallegu útsýni. Hús­næðið er mjög um­hverfis­vænt og rekstrar­lega hagkvæmt auk þess sem það fellur vel inn í lóðina og nýtur sín í náttúrulegu umhverfi Valhúsa­hæðar. Staðsetning þess er mið­svæðis, stutt í alla þjónustu og fallega náttúru. Íbúðirnar eru mjög bjartar og vel hljóð­einangraðar. Þær henta vel fyrir hreyfihamlað fólk auk þess sem þær hafa allar sér verönd.

Að veita bestu mögulega þjónustu 

Fyrsta skóflustungan að búsetu­kjarnanum var tekin þann 8. desember 2021 og nú 15 mánuðum síðar er húsið tilbúið til notkunar. Ás styrktarfélag mun annast rekstur starfseminnar og þjónustu við íbúa Kirkjubrautar samkvæmt þjónustu­samningi sem Seltjarnarnesbær og Ás styrktarfélag gerðu nýverið með sér. Markmið samningsins er meðal annars að veita fötluðu fólki sem samningurinn nær til, bestu mögulegu þjónustu í sértækri búsetu sem tök eru á að veita hverju sinni. 

Mikil ánægja ríkti þegar að lyklarnir höfðu farið manna á milli enda aðdragandinn langur, margir hafa komið að verk­efninu og afraksturinn góður. Búsetu­kjarninn er allur hinn glæsilegasti. Húsnæðið er hannað af þeim Önnu Margréti Hauks­dóttur arkitekt og Pétri Jónssyni hjá AVH samkvæmt hugmynda­fræði­legum áherslum Áss styrktarfélags. AVH sá ennfremur um burðarþol og lagnir, Lúmex sá um ljósa­hönnun, Myrra hönnunarstofa um hljóðráðgjöf og Brunahönnun slf. um brunahönnun. Húsasmíði ehf. byggði húsnæðið en byggingarstjóri og eftirlitsaðili með verkefninu fyrir hönd Seltjarnarnesbæjar var Jóhann Kristinsson hjá Strendingi ehf. 

Þóra Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri Ás styrktarfélag tekur við lyklunum að búsetukjarnanum úr hendi Þórs Sigurgeirssonar bæjarstjóra.
Búsetukjarninn er við Kirkjubraut 20.
Frá afhendingu búsetukjarnans í byrjun apríl.

You may also like...