Breiðholt „express“
— frumhönnun er hafin á hjóla- og göngustíg —
Verið er að frumhanna nýjan tvöfaldan hjóla- og göngustígur frá Árbæ yfir í Breiðholt. Um er að ræða stíg sem verður í tveimur áföngum og er hluti af stofnleið hjólreiða í borginni. Stígurinn fengið vinnuheitið Breiðholt „express“. Nær fyrri hluti verkefnisins frá Bæjarhálsi, austan megin við Höfðabakka, niður að Rafstöðvarvegi, en þar eru nú þegar undirgöng sem notuð eru fyrir gangandi og hjólandi.
Síðari áfanginn er svo frá því vestan megin við Höfðabakka á Rafstöðvarvegi og yfir Elliðaárnar á nýrri brú og upp dalinn og að stórum hluta eftir núverandi göngustígsstæði og um undirgöngin efst á Stekkjarbakka og svo fyrir ofan Stekkina og með fram Bökkunum. Fyrir utan stígalögn eru stærstu atriðin í þessu verkefni ný brú yfir Elliðaárnar, rétt neðan Höfðabakkabrúarinnar núverandi, og svo lagfæringar sem gera þarf í kringum undirgöngin undir Stekkjabakka.
Höfðabakkabrúin annar illa gangandi umferð og hvað þá til viðbótar hjólandi. Önnur tenging fyrir gangandi og hjólandi er til staðar litlu ofar, sjálf Elliðaárstíflan en hún rúmar einnig illa umferð hjólandi, þeirra sem eru í hjólastól eða þeirra sem eiga erfitt með gang og fólks með barnavagn. Talsverðar framkvæmdir hafa átt sér stað við Elliðaárdalinn síðustu ár og munu þær halda áfram í efri hluta dalsins þar sem sérstakur hjólastígur mun þá liggja upp allan dalinn. Seinni hluti leiðarinnar á að liggja frá Rafstöðvarvegi, vestan við núverandi Höfðabakkabrú, og tengjast við Stekkina um undirgöng undir Stekkjabakka og fara svo með fram þeim Bökkum. Verkefnið er en í frumhönnun og hugmyndavinna stendur yfir. Ekki er komin fjármögnun fyrir verkefnið.