Innblásturinn er hér við ströndina
Tíminn er eins og vatnið,
og vatnið er kalt og djúpt
eins og vitund mín sjálfs.
Og tíminn er eins og mynd,
sem er máluð af vatninu
og mér til hálfs.
Og tíminn og vatnið
renna veglaust til þurrðar
inn í vitund mín sjálfs.
Þessar upphafsljóðlínur eins þekktasta kvæðis íslenskra bókmennta Tíminn og vatnið eftir Stein Steinarr komu í hugann við göngu um Hverfisgallerí á dögunum. Hvað vakti þess hugsun? Sýningin allt er nálægt – sýning á verkum Kristins E. Hrafnssonar myndlistarmanns, en þar gat að líta margbreytileg verk þar sem víða var komið við og hugsanatengslin við ljóð Steins vöknuðu aftur og aftur. Þegar tíðindamaður heimsótti Kristin í Bollagarða á Seltjarnarnesi skömmu síðar ympraði hann á þessari tilfinningu sinni. Kristinn tók þessum tengslum ekki fjarri, án þess þó að leggja beinan dóm á samlíkinguna, en kvaðst alls ekki hafa unnið með þetta magnaða verk Steins í huga, þó margt á sýningunni ætti sínar rætur í skáldskap.
Kristinn hefur stundað list sína í áratugi, en hann hóf myndlistarnám á Akureyri og stundaði síðan nám við Myndlista- og handíðaskólann og síðar við Akademie der Bildenden Künste í München í Þýskalandi þaðan sem hann útskrifaðist árið 1990. Hann bjó um langt skeið í Grjótaþorpinu í Reykjavík og flutti þaðan ásamt þáverandi konu sinni í Bollagarðana fyrir nokkrum árum. Bollagarðahúsin tvö, íbúðarhúsið og fjósið/hlöðuna, tók Kristinn í gegn og nánast endurbyggði þau og byggði á milli þeirra tengibyggingu. Þetta nær því aldar gamla hús er nú íbúðarhús og vinnustofa á stórri lóð gamla Bollagarðabýlisins.
Kristinn er borinn og barnfæddur Ólafsfirðingur, en hvað kom til að Nesið heillaði hann? Hann segir það hafa verið þetta gamla býli sem heillaði og þeir möguleikar sem hann sá í húsunum, fremur en Seltjarnarnesið sem slíkt. „Við hjónin þurftum að skipta um húsnæði og hér var hægt að leysa allar okkar praktísku þarfir. Hér var hægt að slá tvær flugur í einu höggi – skapa heimili og vinnustofu á sama stað.“ Kristinn segir húsin hafa verið illa farin þegar hann festi kaup á þeim, enda byggð af vankunnáttu og eflaust vanefnum á sínum tíma og annað þeirra hafi aldrei verið kynnt og þar var ennþá moldargólf að hluta. Sparlega hafi verið farið með steypustyrktarjárn og annað var bara komið að endurnýjun.
„Þetta voru tvö stakstæð hús sem átti að rífa samkvæmt gildandi skipulagi og í þeirra stað átti að byggja tvö hús í samræmi við yngri húsin í götunni. Reyndar var komin á húsin svokölluð hverfisvernd skv. ákvörðun Minjastofnunar og það var lykilatriði við kaupin á húsunum frá okkar sjónarhóli. Sú friðum hafði meira gildi en áformin um niðurrifið og því töldum við þetta ekki svo flókið mál. Þá hinsvegar tók við löng og ströng þrautaganga og pappírsflækja. Bæjarstjórinn þáverandi gerði við okkur samkomulag um framgang málsins sem hún síðan stóð ekki við, nágrannar snérust gegn þessum áformum, sem er líklega skýringin á sinnaskiptum bæjarstjórans, og skipulagsyfirvöld hjá ríki og bæ reyndust mjög erfið í úrvinnslu málsins. Þetta stóð allt mjög tæpt. Tíminn líður hægt í kerfi sem étur upp allan okkar hraðlíðandi tíma. Lókalpólitíkin, regluverkið og flækjustigið var gjörsamlega að ganga frá okkur. Ég held að vel hafi til tekist í uppgerð húsanna og hef ekki heyrt annað en ánægjuraddir varðandi fráganginn á þessu öllu saman.“
Erfitt að draga úr hraðanum
Ég hef miklar efasemdir um rekstur svona bæjarfélags eins og orðið hefur til hér á Nesinu og hef aldrei og hvergi heyrt sannfærandi og góð rök fyrir því að þessi litla eining sé rekin sem sjálfstætt samfélag. Þessi byggingarsaga er einfalt dæmi, en ég get tekið annað dæmi um getuleysið til að leysa einföldustu mál, segir hann: Ég þurfti nokkra mánuði til að koma því inn hjá nefndum og ráðum bæjarins að samkvæmt eigin skipulagsskilmálum væri umferðarhraðinn á Norðurströnd of hár. Það rétt svo hafðist að skipta út tveimur eða þremur umferðarskiltum til að koma þessu til skila, en hraðinn hjá Seltirningum hefur lítið lækkað. Hér virðist ekki vera hægt að draga úr hraðanum, en það er hægt að hafa sterkar skoðanir á því ef borgin gerir ráðstafanir til að draga úr honum á Hringbrautinni eða annars staðar. Þá láta menn í sér heyra. Og hér hafa orðið alvarleg umferðarslys, en þau virðast heldur ekki hreyfa við neinum. Ég hef þurft að draga slasað fólk hér inn af götunni og hlúa að því, en fyrir nokkrum árum var ekið framan á kennslubíl beint fyrir utan húsið hjá mér. Bílarnir báðir voru dregnir ónýtir í burtu. Hér hefur ekkert breyst þrátt fyrir fleiri svona uppákomur.“
Innblásturinn er hér við ströndina
Um þetta má auðvitað hafa mörg orð, en ég held að menn verði bara að fara að kyngja stoltinu og horfast í augu við veruleikann. Þetta er kreddupólitík, en að mínu viti þarf að reka samfélag af reisn og umhyggju fyrir borgurunum og af menningarlegum metnaði og sjálfbærni. Það virðist ekki ganga hér sem stendur. Ég bind vonir við yngra fólkið – það reddar þessu. Þó Nesið renni saman við borgina, þá hverfur ekki fólkið eða náttúran. Það eru þau verðmæti sem hér er raunverulega að finna og ég sæki orðið mjög mikið í. Strandlengjan norðan, vestan og sunnan á Nesinu er einstök og fjaran og sjóndeildarhringurinn – þetta er bara magnað. Ég hef nú þegar gert nokkur verk sem koma héðan beint úr fjörunni sem hugmyndir og eitt þeirra er á þessari sýningu minni í Hverfisgalleríinu. Innblásturinn er hér við ströndina eða að minnsta kosti blásturinn.“
Af sjónum í myndlistina.
Kristinn horfir um stund til baka. Hugurinn leitaði til heimahaga hans norður í landi. Til Ólafsfjarðar. Hann segir Ólafsfjörð hafa verið einangrað samfélag á þeim tíma og í lélegu vegasambandi utan hásumars og sjórinn oft eina samgönguleiðin. Þetta var gott samfélag, en því hefur hnignað, því miður. Kristinn kveðst vera af sjómannsfjölskyldu og beint hafi legið við að hann yrði sjómaður, en stefnan hafi þó orðið önnur. „Ég fór að hugsa um myndlist um eða upp úr fermingaraldri, en það var annars fátt í samfélaginu sem dró mig í þá áttina. Tveir vinir hans hafi farið inn á listrænar brautir, en þeir voru og eru músíkantar. Við leitum allir norður að einhverju marki og ég veit að þeir hafa stutt undir tónlistarlífið og sjálfur hef ég sýnt mín verk á Ólafsfirði.“
Að staðsetja sig
Nálægðin við sjóinn hefur sett mörk á hugmyndir og störf Kristins sem ekki tengjast myndlist með augljósum hætti. Í bókinni Á veglausu hafi sem gefin var út í tilefni af samnefndri innsetningu á listaverkum hans ásamt gripum úr Þjóðminjasafni Íslands er meðal annars velt upp hugmyndum um það hvernig maðurinn hefur í gegnum aldirnar reynt að staðsetja sig í veröldinni. Kristinn segir þetta grúsk sitt eiga rætur í æsku hans og uppeldi, en hann nýti þessa þekkingu ekki síður sem myndlíkingu fyrir þekkingarleit og ímyndunarafl sem sé nauðsynlegt til að skilja okkar flóknu tilvist. Fortíðin er lykill að samtímanum og ímyndunaraflið er það sem kemur okkur úr sporunum. Það er mikilvægara en öll heimsins þekking ef nánar er skoðað. Hvar værum við án þess? Ég hef í þessum pælingum skoðað mæli- og siglingatæki og ekki síður hvernig þetta birtist allt saman í tungumálinu. Íslendingar voru siglingaþjóð og sá strengur má ekki slitna, en hann er ekki eins áþreifanlegur í dag og hann var. Í alþjóðarótinu er mikilvægt að þekkja sína þræði og spinna þá saman við annað í heiminum. Það að ná áttum er eitt, en það er ekki síður mikilvægt að villast, fara vegleysur – út úr því geta komið skemmtilegar hugmyndir. Það er annars merkilegt að siglingafræði og stjörnufræði voru sama fyrirbærið og ég hef á undanförnum árum gramsað enn frekar í þessu og á sýningunni er ég að fjalla um rýmið og tímann. Það eru ekki bara meginhugtök í listinni, sérstaklega skúlptúrnum, heldur líka í lífinu. Þetta á sér rætur í þessum pælingum, en í mínum huga getur ímyndunaraflið yfirunnið allar stærðir og fjarlægðir. Það er ekki lítið!
Í sýningarskrá segir Sigmundur Ernir Rúnarsson, gamall vinur Kristins og blaðamaður og rithöfundur meðal annars. ”En þarna er listin komin, Kristins sjálfs, en líka bara afstaða hans og viðhorf, því einhvern veginn vaknar maður – og á aðra vegu sofnar maður. Það er ramminn. Allt gerist þar, utan og innan, í misjafnlega skrifuðum strikum og sveigjum.”
Bollagarðar 100 ára.
Kristinn er farinn að huga að annarri sýningu. Bollagarðahúsin verða 100 ára á næsta ári og kveðst hann vera að huga að því að efna til lítillar útisýningar í tilefni þess, en meira viti hann ekki á þessari stundu. Ef til vill samsýning á lóðinni eða í fjörunni, en þetta þarf bara að fá að verða til eins og annað. Hafa sinn tíma.
En erfitt er að horfa á verk Kristins á sýningunni í Hverfisgalleríi án þess að ljóð Steins komi aftur í hugann. Við ljúkum þessu spjalli með því að grípa niður í eitt af erindunum í Tímanum og vatninu.
Alda, sem brotnar
á eirlitum sandi.
Blær, sem þýtur
í bláu grasi.
Blóm, sem dó.
Ég henti steini
í hvítan múrvegg,
og steinninn hló.