Þetta er allt að koma

— segir Lúðvík S. Georgsson fráfarandi formaður KR —

Fjölskyldan við Gardavatn á Ítalíu fyrir tveimur árum. Efri röð frá vinstri:  Ellert Kristján, Georg, Ari Lúðvík, Valur Einar og Lúðvík. Neðri röð: Magnús, Kristrún Gunnarsdóttir, Ása og Sonja.

Lúðvík S. Georgsson hefur verið tengdur KR svo lengi sem hann man. Hann lék bæði fótbolta og körfubolta með félaginu en hefur einnig tekið mikinn þátt í öðru starfi þess. Hann tók við formennsku KR fyrir tveimur árum. Segir að það hafi verið tímabundin ráðstöfun, enda ekkert unglamb lengur, og ákvað hann að láta af formennsku á aðalfundi félagsins nú á dögunum. Lúðvík sat einnig í stjórn KSÍ frá árinu 1995 til 2014, var meðal annars ritari stjórnar og síðar varaformaður, en hætti í stjórn að loknu ársþingi KSÍ 2014. Hann var þá sæmdur gullmerki KSÍ og heiðurskrossi ÍSÍ. Vesturbæjarblaðið settist niður með Lúðvík í heiðursherbergi í höfuðstöðvum KR á dögunum. Eftir að Lúðvík hafði sýnt komumanni myndir af fyrrum formönnum KR og kynnt þá lítillega fyrir honum snerist spjallið að honum sjálfum.

Líf Lúðvíks hefur snúist um fleira en KR. Hinn hlutinn snýr að verkfræði og einkum jarðhitamálum sem segja má að orðið hafi ævistarf hans. „Ég fór að loknu stúdentsprófi til Svíþjóðar árið 1970, þar sem ég lærði eðlisverkfræði. Að námi loknu kom ég til starfa hjá Orkustofnun sem jarðeðlisfræðingur. Þetta er á þeim  tíma þegar fyrsta orkukreppan hafði rétt gengið yfir og hitaveituvæðingin var komin á fullt. Þetta var því áhugaverður tími fyrir jarðeðlisfræðing. Ég vann við rannsóknir út um allt land til þess að finna og virkja heitt vatn sérstaklega til húsahitunar og einnig,  einkum síðar, til framleiðslu á rafmagni. Þetta voru fyrstu orkuskiptin sem fóru fram hér á landi. Þegar rætt er um að við höfum ekki staðið okkur nægilega vel í orkumálum má ekki gleyma þessu upphafi. Þetta fyrsta skref hitaveituvæðingarinnar er oft ekki talið með. Stóra skrefið sem kom okkur raunverulega af stað. Þær breytingar sem urðu þarna var stórkostlegt ævintýri. Þetta byrjaði í Reykjavík og á sér þar sögu nokkru lengra aftur en svo þróaðist þetta út um landið. Sagan um Hitaveitu Akureyrar er frábært dæmi, þegar heitt vatn fannst við Hjalteyri við Eyjafjörð. Hitaveitan var komin en ljóst var orðið að ekki var til nægjanlegt vatn fyrir hana. Menn voru farnir að velta ýmsu fyrir sér hvernig mætti leysa þetta án þess að bærinn yrði aftur kaldur. Þar á meðal hvort hægt væri að sækja heitt vatn yfir í Fnjóskadal handan Vaðlaheiðarinnar. En svo kom lausnin upp í hendurnar á mönnum rétt við túnfótinn sem var ótrúleg heppni.“

Við jarðhita leit í 15 ár

„Ég starfaði við jarðhitaleit í 15 ár. Frá 1975 til 1989 að ég fór til vinnu við Jarðhitaskólann og var aðstoðarskólastjóri þar næstu árin. Þetta var mjög ólíkt því sem ég hafði verið að fást við áður. Ég hafði einkum verið að horfa niður í jörðina en nú var ég farinn að vinna með fólk og kenna því. Flestir af þeim nemendum sem komu til okkar í Jarðhitaskólann voru frá þróunarlöndunum. Þeir komu víða að, einkum frá Afríkulöndum en einnig frá Mið Ameríku og Asíu. Þeir voru yfirleitt mjög áhugasamir og því var unun að kenna þeim. Síðustu sex árin mín í starfi áður en ég fór á eftirlaun var ég skólastjóri Jarðhitaskólans, frá 2013 til 2019.“

Jarðhitaskólinn var gefandi viðfangsefni

Lúðvík segir að starf sitt við jarðhitaskólann hafi verið gefandi viðfangsefni og veitt sér tækifæri til þess að ferðast og sjá ýmislegt af veröldinni sem hann hefði annars trúlega ekki augum litið. „Nemendur koma úr ýmsum hópum en allir eru  á endanum valdir með viðtali. Hluti af starfinu var að heimsækja löndin og skoða aðstæður og möguleika og ræða við fólk sem tilnefnt hafði verið til náms. Þá var reynt að velja fólk sem líklegast væri til þess að spjara sig vel. Ég verð að segja það að aðlögun þessa fólks gekk vel og lang flest stóðu undir þeim væntingum sem til þess voru gerðar. Þetta veitti  mér jafnframt góða innsýn í stöðu ríkja og þarfir við uppbyggingu og virkjun jarðhitans.“

Fæddur inn í KR  

En hvenær kom KR inn í líf Lúðvíks. Hann var snöggur til svars. „Við fæðingu. Ég er fæddur inn í KR þótt ég sé ekki alveg innfæddur Vesturbæingur. Í eitt ár átti ég heima handan við læk. Faðir minn og bróðir hans voru þá að byggja við Kvisthaga og þangað var flutt í ársbyrjun 1951. Ég var 13 mánaða og síðan hef ég verið í Vesturbænum og meira að segja í sama húsinu fyrir utan námsárin í Svíþjóð. Í dag bý ég á efri hæðinni með fjölskyldu minni  en yngri systir mín býr á neðri hæðinni. Þetta er gott sambýli hjá okkur. Faðir okkar Georg Lúðvíksson, sem var forstjóri ríkisspítalanna, var mikill KR-ingur. Hann var einn af forystumönnum í skíðadeild KR sem var sett á laggirnar fyrir réttum 100 árum. Hann var þar í forystu fram undir 1960. Á þeim tíma stjórnaði hans m.a. byggingu á skíðaskála félagsins í Skálafelli“ Lúðvík kveðst hafa spilað fótbolta og körfubolta sem strákur og alveg fram á fullorðins ár án þess þó að hafa nokkru sinni verið það sem kallað er afreksmaður. „Ég var lengur í körfunni en í fótboltanum þótt ég væri kallaður til starfa í fótboltanum í kringum 1980. Síðan hefur fótboltinn og málefni tengd honum átt ótrúlega stóran hlut í lífi mínu. Ég átti sæti í stjórn knattspyrnudeildar KR í 15 ár og þar af formaður síðustu fjögur árin. Ég var líka í stjórn KSÍ í 19 ár og var varaformaður þar í tvö ár. En þegar formaðurinn er KR-ingur er erfitt að vera með varaformann sem einnig er í KR.“

Íþróttamenn KR 2023 sem voru krýndir á aðalfundi KR í byrjun maí. 
Frá vinstri: Þórhildur Garðarsdóttir, sem er nýr formaður KR. Perla Jóhannsdóttir fyrirliði meistaraflokks kvenna í körfu, Gauti Guðmundsson skíðamaður og Lúðvík.

Var sestur í helgan stein

Lúðvík kveðst hafa verið sestur í helgan stein eins og það er kallað þegar leitað var til hans fyrir tveimur árum að gefa kost á sér til formennsku í KR til skemmri tíma. Þetta var þegar Gylfi Dalmann Aðalsteinsson lét af formennsku. Gylfi hafði sinnt stjórnarstörfum hjá knattspyrnunni í KR um og upp úr síðustu aldamótum, og sat meðal annars í stjórn rekstrarfélagsins KR og í stjórn KR-sport í nokkur ár. Árið 2013 var Gylfi kjörinn formaður KR og gegndi því embætti til 2021 að Lúðvík tók við. „Skyldan kallaði á mig. Í mínum orðaforða þekkist ekki  að segja nei við KR. Það var ekki hluti af mínu uppeldi. Ég lét því til leiðast og var kjörinn fyrir tveimur árum.“ Lúðvík segir þetta hafa verið eftir erfiða tíma hjá KR. Kórónuveirufaraldurinn hafi sett sín strik í starfsemi þess eins og annarra félaga. Vegna samkomutakmarkana hafi mikið af starfi innan félagsins legið niðri um tíma og fjárhagurinn hafi verið erfiður. „En nú eru stór mál fram undan. Nú er búið að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir svæðið okkar. Fyrst á dagskrá er að byggja fjölnota íþróttahús sem við erum búin að semja um við Reykjavíkurborg. Það liggja nú fyrir gögn um alútboð á þessu verkefni, sem hafa verið samþykkt af byggingarnefnd Reykjavíkurborgar og KR. Þau þurfa að fara fyrir borgarráð til endanlegrar afgreiðslu, en það verður vonandi ekki mikill þröskuldur.  Ef allt gengur að óskum gætu framkvæmdir hafist í haust. Vandamálið er auðvitað að fjárhagsstaða borgarinnar er erfið. En við verðum þó að vona það besta því aðstöðuleysi félagsins er orðið með ólíkindum og ég trúi ekki öðru en að borgin taki jákvætt á þessu nú á næstu vikum.“

Íþróttahúsið er stórt skref

Lúðvík segir að þetta fyrsta skref með byggingu íþróttahússins sé stórt og muni breyta miklu. Þarna sé um að ræða knattspyrnuvöll af hálfri stærð, ásamt  tengibyggingu þar sem gert er ráð fyrir aðstöðu fyrir margar af minni deildum félagsins sem verið hafi  dreifðar um Vesturbæinn. Þá segir Lúðvík að leikvangur KR sé orðinn úreltur. „Miðað við þær kröfur sem gerðar eru í dag til Bestu Deildarinnar í fótbolta er ljóst að við verðum að endurbyggja leikvanginn og leggja gervigras á hann. Við verðum að átta okkur á því að ekki er hægt að reikna með jákvæðum áhrifum loftslagsbreytinga á hverju vori. Við erum að koma undan kaldasta vetri í heila öld að viðbættu  köldu vori þannig við höfum ekki enn getað spilað heimaleikina okkar á KR-vellinum. Við höfum þurft að víxla heimaleikjarétti eða spila úti á Seltjarnarnesi hjá Gróttu, og slíkt er ekki vænlegt til árangurs. Á Íslandi er ekki hægt að ganga út frá alvöru hlýindum fyrr en í maí mánuði. Nú hafa 8 af 12 leikvöngum í Bestu Deildinni verið lagðir gervigrasi.“

Spennandi dæmi

Lúðvík snýr sér að öðrum framkvæmdum á KR svæðinu en þeim sem snúa að íþrótta­mann­virkjum og aðstöðu fyrir félagsstarf KR. Hann segir að til þess að nýta svæðið almennilega og til að skapa sterkari fjárhagsgrundvöll fyrir félagið sé meiningin að byggja fjölbýlishús með fram Kapla­skjólsveginum og Flyðru­grandanum. Þar verði um það bil 10 til 12 þúsund fermetra byggingar eða 100 til 120 íbúðir auk atvinnu­húsnæðis á jarðhæð vegna þjónustu við hverfið. Lúðvík segir engin vandamál séu við fjármagna þær framkvæmdir í gegnum bankakerfið. Síðan verði þetta húsnæði selt. Hins vegar sé enn eftir að ganga frá fjármögnunar­samningum við borgina um leikvanginn hvernig staðið verði að þeim framkvæmdum. „Hvernig sem á þetta er litið er um feiknalega spennandi dæmi að ræða.“ 

Allt verður að fylgjast að

Þarna er fjöregg félagsins. En þarna verða líka allar bygginga­framkvæmdir að fylgjast að. Í hverfi eins og Vesturbænum og þeirri þéttu byggð sem þar er, gengur ekki að vinna við framkvæmdir sem valda miklu raski í lengri tíma. Það er ekki hægt að bjóða íbúunum upp á það. Við þurfum að vera í eins góðu samráði við þá og hægt er. Við höfum ekki orðið vör við miklar deilur aðrar en þær sem snúa að bílastæðum. Fólk er viðkvæmt fyrir þeim. En það er erfitt að fórna byggingarlandi fyrir bílastæði. KR-svæðið er í hjarta Vesturbæjarins og fólk er aðeins farið að læra á þetta. Ég bý við Kvisthaga og ég labba gjarnan hingað. Fyrir mig er það ekki stórt mál að labba út í KR til að horfa á leiki eða til annarra erinda. En bílastæði  eru nokkuð sem snýr að borginni og hún stýrir þar. Við verðum því að vona að þetta taki ekki mörg ár.“

Gullaldir KR

Lúðvík hendir gaman af því að bílaöldin og gullaldir KR hafi farið nokkuð saman. Á tímum fyrstu gullaldarinnar, um 1930, þegar KR vann það afrek að vinna á sama ári öll knattspyrnumót sem haldin voru á landinu sex talsins í þremur flokkum, þá hafi bílar verið að koma til sögunnar sem samgöngutæki. Á næstu gullöld sem hann kallar svo fyrir og eftir 1960 þegar Skagamenn og KR-ingar voru ríkjandi í fótboltanum hafi bílaöldin runnið yfir á fullum þunga. Síðan kom langa hléið. Á tíunda áratugnum hafi enn ein gullöldin runnið upp og Íslandsmeistaratitlar og bikarar unnust bæði í karla- og kvennaflokki og Íslandsmeistaratitill í öðrum flokki að auki, allt á sama ári, nokkuð sem erfitt verður að endurtaka. Hann segir þetta tímabil minnisstæðustu árin sín frá störfum fyrir KR.  

Vantar ekki fólk heldur aðstöðu

Talið berst að aldri Vesturbæinga. Hvort vanti ungt fólk í borgarhlutann til að standa vel undir öflugu íþróttafélagi. Lúðvík telur svo ekki vera. „Vesturbæingum var farið að fækka nokkuð á tímabili en dæmið hefur snúist við. Nú erum við með fullt af ungu og kraftmiklu fólki. Okkur vantar ekki fólk sem vill stunda íþróttir. Okkur vantar hins vegar meira pláss og húsnæði til þess að geta sinnt þessu fólki almennilega og það kallar eftir að framkvæmdir hefjist við nýja og betri aðstöðu KR.“

Þetta er allt að koma

„Ég hef verið giftur sömu konunni í hálfa öld og við höfum búið á Kvisthaganum í því sem ég get kallað í fjölskylduhúsi frá því við komum heim frá námi,“ heldur Lúðvík áfram. „Konan mín heitir Sonja Garðarsdóttir og kemur úr Hafnarfirði. Við gengum í hjónaband 1971 áður en við fórum saman til Svíþjóðar. Hún lærði félagsráðgjöf þar ytra á meðan ég var í verkfræðinni. Ég er af síðasta árganginum þar sem fyrri hluti í verkfræði var kenndur hér heima en svo urðu menn að fara erlendis og þá fóru margir til Norðurlandanna. Ég fór hins vegar í eðlisverkfræði sem var ekki kennd hér heima og fór því beint til Svíþjóðar þar sem námsárin okkar liðu.“ Börnin hafa fetað um margt í slóð foreldranna. „Eldri börnin eru verkfræðingar. Georg sonur minn stofnaði fjártæknifyrirtækið Meniga, sem býður upp á tölvukerfi í gegnum bankana, sem hjálpar fólki til þess að fara vel með fjármuni sína. Hann á þrjá syni. Sá elsti, Ellert, er einn af bestu borðtennisspilurum KR og í landsliðinu í borðtennis. Ása Guðlaug dóttir mín er ári yngri. Hún starfaði lengi hjá Össuri. Það var stutt á milli þeirra. Við vorum búin að bíða svolítið eftir fyrsta barninu en svo kom hún beint í kjölfarið. Við tókum okkur síðan dálitla hvíld frá barneignum. Ellefu ár liðu þar til yngri sonurinn Magnús Þorlákur kom í heiminn. Hann er hagfræðingur og starfar hjá Icelandair. Ef ég lít til baka get ég ekki annað sagt en ég hafi verið heppinn í lífinu. Hvort sem það tengist einkalífinu, lífsstarfi mínu að jarðhitamálum eða áhugamálinu sem er KR. En þetta er allt að koma.“ segir Vesturbæingurinn og KR-ingurinn Lúðvík S. Georgsson og á þar augljóslega við framkvæmdir á KR svæðinu.

Um 100 fyrrum nemendur Jarðhitaskólans sóttu Alþjóðajarðhitaþingið í Ástralíu 2015. Hér sjást þau ásamt nokkrum kennurum Jarðhitaskólans og þáverandi iðnaðarráðherra, Ragnheiði Elínu Árnadóttur.
Borað eftir jarðhita í Ekvador – með fyrrverandi nemendum Jarðhitaskólans.
Í Ekvador.

You may also like...