Smíðin er skemmtileg og ég geri ráð fyrir að fara í verkfræði
— segir Kjartan Helgi Guðmundsson dúx FB —
Kjartan Helgi Guðmundsson útskrifaðist af húsasmíðabraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti og lauk einnig stúdentsprófi á liðnu voru. Kjartan er Breiðhyltingur en segir flesta félaga sína hafa farið í Versló eftir lok grunnskólans. Ástæða þess að hann valdi aðra leið segir hann að eftir að hafa kynnt sér námsframboð og möguleika hafi hann séð að hann myndi geta lokið námi í húsasmíði og einnig stúdentsprófi á þremur árum. „Húsasmíðin dró mig í aðra átt en félagar mínir fóru þótt ég hefði getað hugsað er að vera í skóla með bekkjakerfi. Maður hefði kynnst fleirum þar. Maður hittir fólk um tíma og tíma í áfangakerfinu en svo kemur nýr áfangi og nýir krakkar. Áfangakerfið útheimtir einnig meiri sjálfsaga.“ segir Kjartan sem settist niður með Breiðholsblaðinu á Cocina Rodríquez í Gerðubergi á dögunum.
Að ljúka námi í húsasmíði og stúdentsprófi á þremur árum. Var það ekki mikil vinna. „Jú, það var talsvert að gera en þó aldrei mikið hark. Ég hafði metnaðinn með mér og hafði alltaf verið með góðar einkunnir. Þetta bitnaði helst á félagslífinu. Ég hafði minni tíma fyrir það. Ég var í kórnum og kom aðeins við hjá leikfélaginu. En vegna Kovit var minna um starfsemi þar. Hafði heldur engan tíma fyrir það.”
Ætla að smíða í eitt ár
Kjartan segist alltaf hafa verið með marga áfanga í takinu og stundum farið svo að þeir sköruðust. „Ég varð stundum að velja hvar ég gat mætt og hvað ég yrði að læra heima. Þetta hafðist allt en ég hef alltaf haft mikinn áhuga á smíðum. Mér finnst gaman að smíða.“ Kjartan hugsar að taka sér árs hlé frá námi. Slaka aðeins á eftir törnina og varla þarf að koma á óvart hvað hann ætlar að gera. Hann er þegar farinn að vinna við smíðar sem hann segir verða viðfangsefni sitt næst árið. „Ég sótti um nám í verkfræði en hugsaði mig svo aðeins um að ef til vill ætti ég að bíða í eitt ár.“
Seljahverfi og Bakkarnir
Kjartan fæddist í Danmörku en hefur annars búið í Breiðholti utan eins árs sem hann var í Danmörku. „Ég var þar í fjórða bekk og lærði smávegis í dönsku. Hún fylgdi mér lítið heim en síðar fór ég aftur með pabba og rifjaðist hún dálítið upp. Hún gæti komið mér að gagni ef ég fer til Danmerkur til náms. Ég er ekki kominn svo langt að íhuga hvort ég fari erlendis en ef svo færi kemur Danmörk vel til greina. Kjartan er yngstur þriggja systkina. Hann bjó um árabil í Seljahverfi en eftir að leiðir foreldra hans skildu flutti hann í Bakkana með föður sínum. Hann var í Ölduselsskóla og segist hafa þekkt Seljahverfið mun betur. Bakkarnir hafi þó ýmsa kosti. Hverfið sé skemmtilega hannað og svo sé stutt í Mjóddina þar sem flesta þjónustu sé að finna.
Stefni á byggingaverkfræði
En þú stefnir á verkfræði. „Ég geri það. Hún er tengd húsasmíðina. Ég gæti líka unnið við hana með námi. Ég er alinn upp í þessum geira. Faðir minn er rafvirki og móðir mín vinnur við upplýsingatækni. Þau eru bæði á tölvu- og tæknisviði. Ég sé fyrir mér að ég verði byggingarverkfræðingur og þá er húsasmíðin góður grunnur. Ég ætla að vinna næsta árið og kannski breytast áætlanirnar eitthvað.“