Unnið af krafti að endurbótum

— Mygla í grunnskólanum —

Mýrarhúsaskóli eða Mýró eins og hann er oft nefndur.

Mygla hefur fundist í húsnæði Grunnskóla Sel­tjarnarness. Grunur hefur verið um að mygla væri í skólanum og því var verkfræðistofan Efla fengin til að gera úttekt á húsnæðinu. Einstakir starfsmenn fundu fyrir einkennum og því var óskað eftir athugun. Sérfræðingar Eflu hafa skilað skýrslu um stöðu mála í Mýrarhúsaskóla en rannsókn á rakaástandi þar og innivist var framkvæmd í sumar líkt og í Valhúsaskóla. Unnið er hörðum höndum að fyrsta viðbragði fyrir báðar byggingarnar svo að skólastarf geti hafist á réttum tíma.

Niðurstöður Eflu hafa leitt í ljós að aðgerða er þörf í húsnæði beggja skólahúsanna þó mismikil séu. Ástandið er verra í Valhúsaskóla þar sem umtalsverður raki fannst víðs vegar um bygginguna og mygla í einhverjum tilvikum. Ljóst er að þrjár stofur verða ónothæfar þar til að þær hafa verið lagfærðar að fullu. Í Mýrarhúsaskóla mældist raki og mygla á einhverjum stöðum, aðallega í heimilisfræðistofu í kjallaranum og verður henni lokað þar til viðeigandi úrbætur hafa verið gerðar. Ekki verður unað við þær aðstæður sem niðurstaða rannsóknanna gaf til kynna. Strax var brugðist við og eru bæjarstjóri, starfsmenn Seltjarnarnesbæjar og skólastjórnendur í stöðugu sambandi við Eflu um réttu viðbrögðin og ráðleggingar um aðgerðaáætlun og framkvæmdir. Aðgerðaráætlun úrbótavinnunnar er og verður unnin til skemmri og lengri tíma eftir því sem þörf krefur og við á. Ýmsar aðgerðir hafa þegar verið framkvæmdar eða unnið að þeim.

You may also like...