Metnaðarfullt íþróttastarf í Bakkaborg
Rimvydas Sukliauskas íþróttakennari eða Rímas eins og hann er gjarnan kallaður stýrir metnaðarfullu íþróttastarfi í leikskólanum Bakkaborg. Markmiðið með starfinu er að skapa jákvætt viðhorf til hreyfingar. Öll börn leikskólans fá íþróttatíma með Rímasi einu sinni í viku, að undanskildum elsta árganginum sem fer í íþróttatíma í Breiðholtsskóla í undirbúningi fyrir grunnskólabyrjun.
Börnunum er skipt niður í minni hópa og fyrsti hópurinn fer inn. Tíminn byrjar á léttri upphitun, til dæmis með því að klappa og veifa höndunum. Næst tekur við leikur að læra þar sem börnin læra litina í gegnum hreyfingu, þrautabraut og leiki. Íþróttatímanum er svo lokað með „bátsferð“ þar sem Rímas dregur börnin á dýnu um rýmið og fram og þá má næsti hópur koma inn. Tíminn er aðlagaður hverjum aldurshóp og hjá eldri börnunum bætast við útiíþróttir og fimleikaæfingar á borð við kollhnís og að klifra í rimlum. Fylgst er með framförum yfir árið en markmið íþrótta í Bakkaborg er umfram allt að hreyfing sé skemmtileg og að börnin fari með jákvætt viðhorf til hreyfingar út í lífið. Á fimmtudagsmorgni í Bakkaborg hefja börnin í næstyngstu deild með morgunmat og byrja síðan í frjálsum leik. Skyndilega stökkva þau öll á fætur, hlaupa að dyrunum og kalla: „Rímas er kominn“. Rímas er mættur með vikulega íþróttatímann og börnin eru spennt að byrja.