Gangbrautarverðir eru tímabundin lausn

– allar breytingar á Hringbraut háðar samþykki Vegagerðarinnar –

Á þessari loftmynd sjást gatnamót Meistaravalla og Hringbrautar greinilega þar sem ekið var á barn á dögunum. Meistaravellir eru aðalaðkomuleið úr byggðinni vestan Hofsvallagötu inn á Hringbraut en áratugir eru síða Kaplaskjólsvegi var lokað til norðurs.

Gangbrautarverðir hafa tekið til starfa við gatnamót Hringbrautar og Meistaravalla þar sem ekið var á barn nýlega. Um tímabundna lausn er að ræða vegna þess að margar gönguleiðir liggja yfir Hringbrautina. Þær fjölförnustu eru við Meistaravelli, við Hofsvallagötu og við Birkimel. Fjöldi barna og ungmenna fer daglega yfir Hringbraut á leið í skóla, til frístunda eða á íþróttaæfingar. Íbúar hafa bent á að hraðakstur sé allt of algengur á Hringbraut og að ökumenn aki gjarnan yfir gatnamót á rauðu ljósi. 

Hringbrautin er stofnbraut og þjóðvegur í þéttbýli og því í eigu og umsjón Vegagerðarinnar. Af þeim sökum getur Reykjavíkurborg ekki gert breytingar á götunni nema í samráði við Vegagerðina. Ýmsum möguleikum hefur verið velt upp á undanförnum árum. Þar á meðal gerð undirganga, bygging göngubrúa auk betri merkinga. Þá hefur verið rætt um hvort lækka eigi hámarkshraða á Hringbraut úr 50 kílómetrum í 30 kílómetra sem er sambærilegur við hámarkshraða á íbúðagötum. Allar þessar hugmyndir sem og aðrar eru þó háðar samþykki Vegagerðarinnar. Einnig er ljóst að alvöru lausnir útheimta háar fjárhæðir en lengi hefur strandað á vilja hennar til að gera úrbætur. Umferðaröryggi Hringbrautar var til umræðu á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis sl. föstudag. Boðaða var til fundarins m.a. til þess að fá fram hugmyndir Vegagerðarinnar um hvað hægt sé gera til þess að bæta umferðaröryggi þar sem börn sem búsett eru báðum megin við götuna þurfa að sækja skóla sem er öðrum megin við hana.

You may also like...