Skóflustunga í lok árs

Nýtt fjölnota íþróttahús KR

KR svæðið eins og það mun líta út eftir uppbyggingu.

Áætlað er að fyrsta skóflu­stungan að nýju fjölnota íþróttahúsi KR verði tekin í lok þessa árs. Byggingar­nefnd hefur verið sett á laggirnar vegna uppbyggingar á húsinu á lóð KR í Vesturbæ Reykjavíkur.

Fjölnota íþróttahús er fyrsti áfangi í framtíðar­uppbyggingu fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf í Vesturbæ. Þarfagreining vegna verkefnisins unnin út frá þörfum allra deilda félagsins. Samhliða þessu vinnur byggingarnefnd á vegum KR að heildaruppbyggingu svæðis. Í húsinu verður íþróttasalur, hálfur knattspyrnuvöllur með tveggja hæða hliðarbyggingu meðfram langhlið salar. Í hliðarbyggingu er gert ráð fyrir búningsaðstöðu, taekwondo-íþróttasal, fjölnota íþróttasal sem þjónustar deildir félagsins svo sem glímu, pílu og fleiri, skáksal, aðstöðu fyrir tónmenntaskóla með sex til átta skólastofum og önnur stoðrými.

Hið fjölnota íþróttahús á að rísa á miðju KR-svæðinu og verður hluti af miklum uppbyggingaráformum þar. Þau fela meðal annars í sér byggingu 100 íbúða sem standa munu straum af kostnaði að hluta. Íþróttahúsinu svipar nokkuð til fjölnota húss sem byggt var nýverið á ÍR-svæðinu í Mjódd. ÍR húsið er 5.465 fermetrar en hús KR-inga verður öllu stærra, eða 6.772 fermetrar. Heildarkostnaður við bygginguna er áætlaður um 2.430 milljónir króna á verðlagi í febrúar 2023, að því er kemur fram í gögnum sem lögð voru fram í borgarráði.

Fyrirhugað íþróttahús mun nýtast eftirfarandi deildum félagsins með beinum hætti: Knattspyrnudeild, glímudeild, skákdeild, píludeild taekwondodeild, rafíþróttadeild, starfsemi fyrir eldri borgarar, hlaupahóp og tónmenntaskóla. Húsið mun einnig nýtist fleiri deildum með óbeinum hætti. Má  þar nefna: körfu­knattleiksdeild, handbolta­deild, borðtennisdeild, skíðadeild, frjálsíþróttadeild, sunddeild, badmintondeild og keiludeild.

You may also like...