Fjárhagsáætlun 2023 samþykkt

Rekstrarniðurstaða verður neikvæð um tæpar fimmtíu milljónir

Fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2023 var samþykkt í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar við síðari umræðu miðvikudaginn 14. desember 2022. Þriggja ára áætlun 2024-2026 var einnig samþykkt.

Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðu Seltjarnarnesbæjar verði neikvæð um 49.880.251 kr. Niðurstaða A – hluta verði neikvæð um 168.068.000 kr. Niðurstaða B – hluta verði jákvæð um 118.183.000 kr. Veltufé frá rekstri er áætlað 475.864.000 kr. á samstæðuna.

Höfuðáhersla lögð á að verja grunnþjónustu bæjarfélagsins í þungu rekstrarumhverfi.

Fjárhagsáætlun ársins 2023 mótast einna helst af afar krefjandi og erfiðu efnahagsumhverfi sem ljóst er að mun lita rekstur bæjarfélagsins á komandi ári auk töluverðrar óvissu vegna þróunar kjara- og efnahagsmála í landinu. Hagræðingaraðgerðir eru nauðsynlegar á öllum sviðum en þó framkvæmdar með þeim hætti að staðinn verður vörður um grunnþjónustu bæjarfélagsins og áherslan verður sem fyrr á menntun og velferð.

Unnið verður að hagræðingu innan samstæðunnar á komandi ári. Til að sýna ábyrgð og gott fordæmi í rekstri bæjarins á erfiðum tímum óskaði bæjarstjóri að eigin frumkvæði eftir því að föst laun hans sem bæjarstjóri verði lækkuð um 200.000 krónur á mánuði á árinu 2023. Bæjarfulltrúar ætla enn fremur að taka á sig 5% launalækkun fyrir setu í bæjarstjórn á árinu 2023. Þessar hagræðingaaðgerðir voru samþykktar samhljóða í bæjarstjórn í gær og sýnir að við erum öll samstíga um að ná árangri með aðgerðum okkar.

Í áætlun ársins 2023 er gert ráð fyrir lækkun álagningar fasteignagjalda bæði á íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði. Þetta er gert til að koma til móts við gríðarlega mikla hækkun fasteignamats. Fasteignagjöld munu fylgja verðlagsþróun ársins 2023 og hækka því ekki til jafns við stórfellda hækkun fasteignamats.

Hækkanir á gjaldskrám bæjarfélagsins munu taka mið af verðlagsþróun og hækka þannig ekki til jafns við miklar kostnaðarverðshækkanir. Undantekning frá þessu er gjaldskrá leikskóla sem hækkar minna eða um 7,7% sem er undir verðbólgu.

Helstu framkvæmdir Seltjarnarnesbæjar sem fyrirhugaðar eru á árinu 2023 er að hefja byggingu nýrrar leikskólabyggingar en það er lang stærsta verkefnið sem þegar liggur fyrir. Þá er áformað að betrumbæta skólalóðirnar, gert ráð fyrir viðhaldi fasteigna og gatna auk áframhaldandi framkvæmda vegna endurnýjunar á félagsheimili bæjarins. Ljóst má vera að sýna þarf mikla útsjónarsemi í útgjöldum vegna verðlagshækkana á aðföngum og þjónustu.

Ekki er gert ráð fyrir teljandi fjölgun íbúa á árinu 2023 en á árunum 2024 – 2026 er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi um 500.

You may also like...