Vantaði skilti á sumarbústaðinn
„Mig vantaði skilti á sumarbústaðinn og þá var um að gera að vinna það sjálf,“ sagði Unnur A. Jónsdóttir þegar tíðindamaður Vesturbæjarblaðsins staldraði við hjá hóp sem stundar útskurð í félagsmiðstöðinni á Aflagranda á mánudögum. Hann er annar hópurinn af tveimur sem fást við listsköpun og handverk af því tagi í félagsstarfinu. Hinn hópurinn kemur saman á miðvikudögum.
Það er Lúðvík Einarsson sem hefur umsjón með hópunum og aðstoðar og kennir þeim sem vilja leggja fyrir sig að skapa myndir í tré. Lúðvík kveðst hafa byrjað á að stunda útskurð fyrir um áratug og svo hafið leiðin legið til þess að gerast leiðbeinandi. „Þau eru að vinna allskonar hluti. Skera út bretti og hillur, gafla og lok á kassa, gestabækur og jafnvel umgjarðir um klukkur. Það væri jafnvel auðveldara að nefna það sem ekki er tekið fyrir hendur hér á útskurðarboðinu,“ segir Lúðvík. Áhuginn fer vaxandi á útskurðinum og nú eru á bilinu átta til tíu manns í hvorum hóp. Konur eru farnar að sinna þessu talsvert til jafns við karlana eins og þátttaka Unnar A. Jónsdóttur og Sólveigar Jónsdóttur sem sitja með útskurðarhnífa í hönd við borðið hjá Lúðvík. Hóparnir hittast upp úr hádeginu og starfa og skrafa saman fram um klukkna fjögur. Skrafa vegna þess að þau segja að þótt gaman sé að sinna þessu áhugamáli þá sé ekki síður ánægjulegt að koma saman og ræða málin en að vinna í höndunum. „Já – það geta skapast fjörugar umræður hér sérstaklega yfir kaffinu,“ segir Lúðvík og bætir við að félagsskapurinn skipti miklu máli. „Þetta getur verið eins og í heita pottinum,“ bætir Unnur við. Flestir þeirra sem eru að sinna þessu í dag er fólk sem komið á það sem kallað er eftirlaunaaldur en útskurðurinn er eins og allt annað í félagsstarfinu á Aflagranda opið öllu fólki og á öllum aldri. Þær Unnur og Sólveig segjast aðspurðar tæpast þurfa að kaupa gjafir. Þær geti allt eins búið þær til sjálfar og skemmta sér greininga yfir þessari athugasemd eða spurningu aðkomumanns. Þau segja að áhuginn á tréskurðinum smiti svolítið út frá sér. Fólk frétti af þessu hjá öðrum sem búnir séu að vera með og hafi áhuga á að reyna. En geta allir skorið út. „Ég held að flestir geti tileinkað sér handabrögðin við þetta. Fyrst þarf að að læra og nota verkfærin og hvernig best er að beita þeim. Við byrjum oftast á einföldum hlutum en förum svo yfir í flóknari smíði og því æfingin kemur í framhaldinu,“ segir Lúðvík. „Fólk hefur auðvitað ýmis áhugamál og tilfinningar fyrir því hvað það langar að gera og þá er bara að láta reyna á það.“ Ástæða er til þess að brýna fyrir fólki að í útskurðinum geti falist bæði skemmtilegt og listrænt viðfangsefni og að félagsskapurinn skemmi ekki fyrir. Ekki þurfi að óttast að smiðir skyggi á aðra þátttakendur. Í dag eru engir smiðir að fást við útskurðinn á Aflagrandi en auðvitað eru þeir velkomnir ekkert síður en aðrir enda eigi vinnubrögð við útskurðinn fátt eitt sameiginlegt með hefðbundnum smíðum nema ef til vill að halda á hamri. Aldrei verður brýnt um of fyrir fólki að nýta sér félagsstarfið og minna á að það stendur öllum opið og er alls ekki sniðið sérstaklega að óskum eða þörfum þeirra sem geta talið sig heldri borgara með réttu.