Fluglest gæti farið af stað árið 2024
Vonast er til að lokið verði við gerð samstarfssamnings vegna byggingu fluglestar fyrir lok janúar og að verkefnið komist af stað í febrúar. Fyrsta árið sem hraðlest gæti gengi milli Keflavíkur og Reykjavíkur er gert ráð fyrir að seldir verði allt að 4,5 milljónir farmiða, sem skila myndu 13,5 milljörðum króna í tekjum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ráðgjafar og verkefnastjórnunar um verkefnið. Vesturbæjarblaðið hitti Runólf Ágústsson að máli á dögunum sem hefur að undanförnu stýrt undirbúningsvinnu við þetta verkefni. Fyrstu spurningarnar sem lagðar voru fyrir Runólf voru hvað sé nýtt á döfinni og hvort hraðlestin sé að færast nær.
„Já – hún er að færast nær því ljóst er að um arðsamt verkefni er að ræða sem einkaframkvæmd. Innri vextir eigin fjár eru um 15% sem þurfa að vera til þess að fá fjárfesta til þess að leggja fé í svona áhættusamt verkefni. Þetta verkefni er einnig samfélagslega hagkvæmt.“ Runólfur vitnar í sjálfstæða úttekt sem Reykjavíkurborg lét gera á síðasta ári. „Út úr þeirri úttekt kom að samfélagslegur ávinningur af fluglest yrði á bilinu 40 til 60 milljarðar króna ofan á þann fjárhagslega ávinning sem af henni myndi hljótast. Þessi samfélagslegi ávinningur felst fyrst og fremst í tímasparnaði. Þessi lest mun verða um 18 mínútur frá Leifsstöð niður á endastöð á BSÍ reitnum í Vatnsmýrinni með einu stoppi í suðurhluta höfuðborgarsvæðisins sem ekki hefur enn verið skoðað hvar hentugast gæti verið. Þetta er mikil breyting frá því að vera á bilinu 45 til 60 mínútur að fara þessa leið í bíl. Í öðru lagi felst umtalsverður umhverfissparnaður í rekstri lestarinnar vegna þess að draga mun verulega úr losun kolefnis auk þess sem lestar eru mun öruggari fararmáti en bílar og því myndi mikill sparnaður verða til í öryggismálum. Ofan á þetta leggst síðan ávinningur í því að færa vinnumarkaðinn á Suðurnesjum saman við vinnumarkaðinn á Höfuðborgarsvæðinu með breyttum og bættum samgöngum.“
Ekkert opinbert fjármagn – fargjöld greiða kostnaðinn
Runólfur segir að fargjöld eiga að standa undir þessu og það verði ekki farið fram á að nota opinbert fjármagn í þetta verkefni. „Þótt Íslendingar komi til með að nota þennan samgöngumöguleika þá verða það fyrst og fremst erlendir ferðamann sem standa undir framkvæmdinni. Við erum með um 1,3 milljónir ferðamanna á þessu ári og gert ráð fyrir að árið 2024 þegar lestin gæti farið af stað verði fjöldi ferðamanna kominn í um 2,5 milljónir á ári og þá erum við að miða við frekar varfærnar spár.“
Fjórtán kílómetra jarðgöng
„Næstu skref sem stíga þarf á árinu 2016 er að ná samkomulagi við sveitarfélögin og um leið og það er fengið er hægt að fara í að ljúka fjármögnum verkefnisins – þessum fyrsta hluta þess sem verði unnin á næstu þremur árum,“ segir Runólfur. „Þar er á ferðinni kostnaður upp á um 1,5 milljarð sem lýtur að vinnu við skipulagsmál, mat á umhverfisáhrifum og rannsóknir sem verður dýrasti þáttur þessara þriggja. Ætlunin er að gera 14 kílómetra löng jarðgöng undir Höfuðborgarsvæðið. Því þarf að bora tilraunaboranir á allri þeirri leið til þess að hægt sé að lesa jarðlögin algerlega í gegn og lágmarka alla jarðfræðilega áhættu. Þetta kallar á mjög dýrar rannsóknir en ég held að reynslan segi mönnum að í sambærilegum gangaframkvæmdum hér á landi þá borgi sig ekki að vanrækja þann þátt. Reykjavík stendur að miklu leyti á grágrýti sem þykir henta vel til gangagerðar og að því leyti er þessi gangagerð sambærileg við Hvalfjarðargöngin. Aðaláhættan liggur þó í jarðfræðinni og nauðsynlegt er að eyða henni út og það sem við erum að vinna að núna er að fá heimildir hjá sveitarfélögunum til þess að lágmarka jarðfræðilega og skipulagslega áhættu sem verkefninu er samfara.“
Stærsta einkaverkefni sögunnar
Runólfur segir eitt af því sem geri þetta verkefni áhugavert sé hversu allt er opið og margir ólíkir og fjölbreytilegir þættir komi saman. „Við þurfum að ná inn allri þeirri þekkingu sem við þurfum í verkefnið. Því hafa mjög margir komið að þessu. Við fengum fjárhagsstuðning bæði frá Reykjavíkurborg og Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og einnig Ísavia sem hefur látið okkur ýmis gögn í hendur. Aðrir sem lagt hafa verkefninu til fjármagn og vinnuframlag eru Landsbankinn þar sem fyrirtækjaráðgjöf bankans hefur sé um viðskiptagreininguna í verkefninu. Efla og Ístak hafa séð um hinn verkfræðilega þátt og hvernig eigi að ná utan um framkvæmdina. Kadeco þróunarfélag Keflavíkurflugvallar hefur komið þarna inn og átti strax mikinn þátt í að þetta verkefni fór af stað. Þá má einnig nefna Reiti fasteiganfélag ásamt Deloitte. Við höfum einnig átt gott samstarf við ýmsa erlenda aðila. Við höfum í tvígang sótt ársfundi samtaka fluglesta og komist þar í samband við eigendur og rekstraraðila sambærilegra lesta. Fyrir okkur sem höfum unnið að þessu hefur þetta ferli verið mikið lærdómsferli vegna þess að hér var mjög takmarkaða þekkingu að finna á þessum málum. Annað sem gerir þetta verkefni sérstakt er að það er hugsað sem hrein einkaframkvæmd en fólk virðist ekki vera vant þeirri hugsun. Kosturinn er að við erum að búa til mjög stórt innviðaverkefni upp á um 105 milljarða sem er stærsta einkarekstrarverkefni sögunnar – verkefni sem ríkið kemur hvergi að málum með öðrum hætti en að veita almennar heimildir. Framtíð þess veltur því á tvennu: Að sveitarfélögin og hið opinbera heimili framkvæmdina og síðan fyrst og fremst tiltrú fjárfesta.“