Sköpunarþörfin er mikil
Elsa Nielsen er bæjarlistamaður Seltjarnarness í ár og er tuttugasti Seltirningurinn til að hljóta þessa nafnbót. Elsa er þó ekki Seltirningur í húð og hár. Hún er að hluta alin upp austur í bæ og um tíma í Danmörku. Elsa hefur frá blautu barnsbeini fengist við að teikna og mála og segir það hafa legið beint við þegar kom að því að velja námsbraut að fara í Myndlistar- og handíðaskólann. En Elsa er ekki eingöngu myndlistarmaður og hönnuður. Hún hefur einnig spilað badminton frá unga aldri og var um tíma ein af fremstu badmintonkonum landsins og hampaði Íslandsmeistaratitli nokkrum sinnum og keppti fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í tvígang. Hún segir að dvölin í Danmörku hafi ýtt undir badmintonáhugann. Badminton er hátt skrifað á meðal Dana og aðstaða til iðkunar þess mjög góð.
Í ýtarlegri umsögn menningarmálanefndar Seltjarnarness segir meðal annars að Elsa hafi sýnt og sannað með verkum sínum að hún er meðal okkar fremstu hönnuða. Viðfangsefni hennar séu fjölbreytt og hafi hlotið verðskuldaða athygli hvort sem er á sviði grafískrar hönnunar, merkjahönnunar, auglýsingaherferða, málaralistar, stafrænnar myndvinnslu, teikninga, myndskreytinga, frímerkjahönnunar eða bókaútgáfu. Litabók hennar Íslensk litadýrð var í einu af efstu sætum á bóksölulista undir lok síðasta árs. Mörg hundruð manns fylgdust einnig af áhuga með dagbókarfærslum hennar á Instagram og Facebook undir yfirskriftinni „einádag“, þar sem hún skrásetti líf sitt með því að teikna eina mynd á dag allt árið um kring. Elsa útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Listaháskóla Íslands árið 1999. Frá útskrift starfaði hún lengst af sem hönnunarstjóri á auglýsingastofu ENNEMM en frá september 2013 hefur hún rekið sitt eigið hönnunarfyrirtæki, Nielsen hönnunarstofu.
Var alltaf með blýantinn á lofti
„Það lá beint fyrir að ég færi út á þessa braut. Sem barn var ég alltaf með blýantinn á lofti – að skyssa og teikna. Glósubæknurar mínar voru jafnan litríkar. Hver spássía var notuð til að huga að þessu áhugamáli. Teikniáhugi minn varð til þess að foreldrar mínir sendu mig í Myndlistarskóla Reykjavíkur þar sem ég var frá sex til níu ára aldurs eða þar til að við fluttum til Danmerkur og bjuggum þar í fimm ár. Pabbi fékk starf ytra og mamma nýtti tækifærið, fór í nám og útskrifaðist sem leikskólakennari. Við systkinin kunnum eiginlega enga dönsku þegar við fórum út en vorum fljót að ná henni og áður en langt leið vorum við systkinin farin að tala saman á dönsku heima, foreldrum okkar til lítillar ánægju. Ég man að þegar við komum heim og ég fór í níunda bekk í íslenskum skóla kunni ég ekki einu sinni að fallbeygja þó svo að foreldrar mínir hafi lagt áherslu á íslenska tungu heimavið. En ég var nú fljót að ná íslenskunni aftur.“
Ánetjaðist badmintoninu í Danmörku
„Já – það er rétt ég fékk badmintonáhugann í Danmörku enda er badmintonið ein af þjóðaríþróttum Dana. Ég ánetjaðist badmintoninu Danmerkurárum og æfingar og ástundun tóku sinn tíma. Við bjuggum í Albertslund og þar var mjög góð aðstaða til þess að stunda þessa íþrótt. Ég fór fljótlega að keppa og tók þátt í deildarkeppnum fyrir hönd Albertslund.“
Heimilið skólinn og TBR
Elsa er innt eftir því hvort henni hafi fundist viðbrigði að koma heim. Hún hugsar sig um. „Nei – það voru engin viðbrigði. Ég man þó að við fórum heim með Norrænu og mér fannst ömurlegt að verða viðskila við alla vini mína. En ég hef alltaf verið fljót að aðlagast því sem mér er næst og það gekk ágætlega þegar heim var komið. Við fluttum í Sundahverfið og ég byrjaði í Langholtsskóla haustið eftir. Það var skammt í TBR húsið við Álfheimana og því auðvelt fyrir mig að halda áfram að stunda badmintonið. Þetta var svona þríhyrningur sem lífið snerist um. Heimilið, skólinn og TBR og ég gat labbað þarna á milli rétt eins og ég var vön að gera í Danmörku. Eftir Langholtsskólann fór ég í MS. Það lá beinast við því þá þurfti ég ekki að stækka þríhyrninginn mikið. Auðvitað fór mikill tími í badmintonið. Æfingar og keppnisferðir og ég held að ég hafi aðeins náð tveimur árshátíðum á menntaskólaárunum. Ég hef svo sannarlega þurft að velja og hafna – en sé ekki eftir neinum ákvörðunum.“ Fjölgun í fjölskyldunni En hvenær lá leið Elsu á Seltjarnarnes. „Það var ekki alveg strax. Ég kom ekki vestur eftir fyrr en að ég stofnaði fjölskyldu og fór að búa sjálf. Þá hafði ég viðdvöl í Vesturbænum – við bjuggum á Ásvallagötunni um tíma. En þegar þriðja barnið kom í heimin sprakk allt og við urðum að finna okkur rúmbetra húsnæði og leitin að því endaði út á Nesi. Við erum á Skólabrautinni og erum ekki að fara þaðan. Ég segi stundum í gamni að við eigum trúlega eftir að rölta yfir götuna í Íbúðir aldraðra þegar við hjónin erum komin á besta aldur.“
Ég hef mikla þörf fyrir að skapa
En sá Elsa aldrei neitt fyrir sér annað en myndlistina fyrir utan badmintonið. „Jú ég horfði aðeins í aðra átt en það var ekki lengi. Ég fékk þá flugu í höfuðið í miðjum stúdentsprófum að læra iðjuþjálfun. Ég og vinkona mín vorum búnar að senda öll gögn til Danmerkur og á leiðinni að sækja um styrk þegar mamma kom að máli við mig og stakk upp á að ég myndi einnig sækja um í Listaháskólanum. Ég komst í inntökupróf og síðan fékk ég inngöngu. Stundum getur verið gott að hlusta á mömmu sína. Vinkona mín fór hins vegar til Danmerkur í iðjuþjálfun og hún býr enn í Danmörku. Það er eins víst að ég hefði sest þar að hefði ég farið með henni en ég snéri mér að hönnuninni og myndlistinni í staðinn. Fór í grafíska hönnun í Listaháskóla Íslands. Auðvitað heillaði sá heimur mig meira. Ég lærði einnig fatasaum í menntaskóla og notfærði mér þá kunnáttu og saumaði t.d. brúðarkjólinn minn sjálf. Kannski er það hluti af sköpunarþörfinni. Mér finnst ég alltaf þurfa að vera að búa eitthvað til.“
Kennileiti sett í ævintýralegan búning
Í umsögn Seltjarnarnesbæjar vegna tilnefningar Elsu til bæjarlistamanns segir m.a. að á námsárunum hafi hún farið að sýna verk sín og eigi nú að baki fjölda sam- og einkasýninga á sviði málaralistar. Á tveimur einkasýningum sínum í Gallerí Gróttu og Mokka-Kaffi sýndi hún ljósmyndir unnar með stafrænni tækni. „Þar vann ég með mörg helstu kennileiti Seltjarnarness og Reykjavíkurborgar og setti í nýjan og ævintýralegan búning sem vakið hafa athygli. Ég hef einnig unnið við að mála uppstækkaðan grafískan myndflöt á striga með akrýllitum.“ Í umsögninni kemur einnig fram að Elsa skapi verkum sínum dýpt með því að byggja flötinn upp með sparsli og sandi. Þó að málverk Elsu standi sjálfstæð sýna þau glöggt hvernig henni tekst að færa margra ára reynslu og kunnáttu með grafíska miðlun yfir á annað stig. „Þetta blandast saman hjá mér, tölvuvinna og handavinna, einkum í myndlistinni en nánast öll auglýsingagerð fer nú fram á tölvuformi. Ég náði þó aðeins í endann á handavinnunni. Ég lærði að klippa, líma og ljósrita í tímum hjá Gísla B. Björnssyni. Mér finnst því að ég hafi ákveðinn grunn frá þeim tíma til þess að byggja á.“ Elsa segist hafa starfað við grafíska hönnun alla tíð síðan, ásamt myndlistinni. „Ég vann um árabil á auglýsingastofunni ENNEMM en stofnaði mitt eigið hönnunarstúdíó árið 2013. Núna starfa ég þar á daginn en er einnig með aðstöðu heima fyrir til þess að mála og vinna að fleiri verkefnum – er með opið rými þar sem eru bæði trönur og tvær saumavélar.“
Nýti kvöldin vel
„Já – ég er að mestu hætt í badmintoninu. Gríp þó í það öðru hvoru og spila með gamla genginu mínu tvisvar í viku. Við fórum saman á Heimsmeistaramót 35 ára og eldri í fyrra og ég nældi mér í brons í einliðaleik í mínum flokki. Þetta hverfur aldrei úr blóðinu. Eftir að ég hætti að stunda badminton að staðaldri eða sem keppnisíþrótt hafði ég allt í einu mikinn tíma til aflögu á kvöldin. Og þá tók myndlistin við! Nú nýti ég vinnuaðstöðu heima fyrir eins vel og ég get. Stundum þarf ég að hemja hugann því hugmyndirnar eru svo margar og tíminn svo lítill.“ Sýnileg á HönnunarMars HönnunarMars stendur núna yfir, frá 9. – 13. mars, og verða verk Elsu sýnd víða. Sjálf verður hún ásamt kunnugum hönnuðum í Epal þar sem hún sýnir hönnun út frá litlu 365 trélitamyndunum hennar sem hún teiknaði í fyrra, #einádag. Elsa er einnig með hópnum sínum, Tákn og teikn, með sýningu á Mokka-kaffi sem nefnist Leturverk. Hún fékk tvær tilnefningar til FÍT (Félag íslenskra teiknara) verðlaunanna á dögunum og eru verðlaunaverkin sýnd í Sjávarklasanum, Granda-garði. Það er því mikið að gera hjá Bæjarlistamanni Seltjarnarness 2106 þessa dagana.
Eins og ein stór þjónustumiðstöð
Og þér finnst gott að vera á Seltjarnarnesi. „Það er alveg frábært. Svo stutt í alla þjónustu og náttúrufegurðin hér er dásamleg. Þetta er næstum eins og gamli þríhyrningurinn minn úr Sundunum. Eins og ein stór barnvæn þjónustumiðstöð. Krakkarnir hafa þó ekki farið í badmintonið eins og mamma þeirra. Strákurinn þó aðeins og skipti yfir í fótboltann þegar við fluttum á Nesið. Eldri stelpan fór bæði í fót- og handbolta og sú yngsta er byrjuð í handboltanum. Það er því ekkert óeðlilegt að ég hafi sótt mér innblástur í helstu kennileiti Seltjarnarness í sumum af verkum mínum – þessa einstaka búsvæði náttúru og mannlífs.“