Bæjarframkvæmdir 2016

Nesid-3

Gísli Hermannsson

Gísli Hermannsson sviðsstjóri umhverfissviðs Seltjarnarnesbæjar.

„Í sumar ætlum við að leggja hjólastíg allt frá bæjarmörkunum við Reykjavík út á Snoppu. Þetta er bæði góð og þörf framkvæmd. Hjólreiðar eru alltaf að aukast og þær eiga ekki nægilega góða samleið með göngufólki. Því er mikil þörf á því að byggja bæði göngu- og hjólastíga jafnvel þótt að þeir liggi samhliða,“ segir Gísli Hermannsson sviðsstjóri umhverfissviðs Seltjarnarnesbæjar í spjalli við Nesfréttir um framkvæmdir á vegum bæjarfélagsins á komandi sumri.

Af öðrum framkvæmdum sem áformað er að ráðast í á komandi sumri nefnir Gísli að búið sé að hanna lagfæringar umhverfis Valhúsaskóla. Byrjað verði á að malbika körfuboltavöllinn en síðan verði að sjá til með hvort ráðist verði í meira í sumar en áformað sé að bæta aðkomuna að skólanum með ýmsum lagfæringum meðal annars hellulagningu og fleiri aðgerðum. Ekki sé enn búið að ákveða nákvæmlega hversu mikið verður unnið í sumar en það ætti að liggja fyrir bráðlega. Einnig sé ætlunin að lagfæra aðkomuna að stjörnuskoðunarstöðinni. Meðal annars að byggja hringstiga til þess að auðvelda aðkomu að stjörnukíkinum.

Langt komið að hanna lagnir á Bygggarðasvæðinu

„Nú er unnið að endurhönnuð allra lagna á Bygggarðasvæðinu og er sú vinna að nálgast lokastig. Allar lagnir á þessu svæði eru gamlar og miðaðar við þá starfsemi sem hefur verið þar. Til þess að Bygggarðarnir verði nýtanlegir fyrir íbúðabyggð eins og áformað er þarf að endurnýja allar lagnir bæði vatnslagnir, hitalagnir og skolplagnir. Þetta kallar á mikla jarðvinnu og er í rauninni mikið verk sem verður að vinna áður en hægt er að hefja byggingaframkvæmdir. Einnig þarf að ganga frá stofnlögnum vegna blokkanna á Hrólfsskálamelnum. Svo er stórt verk að fara af stað en skipta á um gervigras á íþróttasvæðinu og fjarlæga allt yfirborð þar sem dekkjakurl er að finna. Ætlunin er að ljúka þessu sem allra fyrst en þetta er framkvæmd upp á um 75 milljónir króna.“ Gísli segir um aðrar framkvæmdir að þær megi teljast til viðhaldsframkvæmda. „Við erum að lagfæra malbik á ýmsum stöðum og einnig stéttina upp að horninu á sundlauginni sem verður að teljast ónýt. Einnig þarf að huga að merkingum og upphækkunum á götum og lagfæra það sem þarf vegna umferðaröryggisáætlunarinnar sérstaklega að svæðum sem tengjast leik- og grunnskólum.

Mikilvægt að ljúka dælustöðinni

Og þá er komið að dælustöðinni við Elliða en með henni mun fráveituframkvæmdum ljúka og fjörur Seltjarnarness verða lausar við skolpmengun. Gísli segir að þetta hafi tekið lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir meðal annars af tæknilegum örðugleikum en nú sé búið að finna lausn á þeim. „Við skulum vona að byggingu hennar, sem er á lokastigi, verði lokið fyrir haustið svo Seltirningar geti séð fram á langþráðar hreinar fjörur. Í mínum huga er mikilvægt að geta lokið þessu verki fyrir veturinn.“

Nefnd í áhaldahússmálið

Áhaldahús fyrir Seltjarnarnesbæ hefur verið nokkuð í umræðunni og sitt sýnist hverjum um staðsetningu þess og byggingu. Gísli segir að núverandi staðsetning þess við Norðurströndina sé ekki heppileg vegna nágrennis við íbúðabyggð. „Ég skil það fólk vel sem vill hafa annað útsýni en vinnuvélar og umferð stórra ökutækja fyrir framan gluggana hjá sér. Vandinn er einkum að finna hentugan stað fyrir þessa starfsemi á Seltjarnarnesi. Eitt af því sem gæti komið til greina er að kaupa eða leigja hús Slysavarnafélagsins Landsbjargar við höfnina. Þetta hefur ekki verið rætt til hlítar við forsvarsmenn þess en næsta skref er að koma á fót vinnuhóp á vegum bæjarstjórnarinnar til þess að kanna hvaða leiðir verði færar í málinu.

You may also like...