Fann mig í FB

– stefni á framhaldanám í leiklist –

Ágúst Orri Hjálmarsson var Semídúx skólans sem lauk stúdentsprófi af opinni braut með einkunnina 9.20. Á myndinni er Ágúst Orri ásamt fjölskyldu sinni. Frá vinstri Salka Sól Eyfeld systir hans, Hjálmar Óli Hjálmarsson eldri bróðir, þá Ágúst Orri með bókaverðlaun í fanginu og síðan Guðbjörg Lóa Ólafsdóttir móðir þeirra og á endanum er Hjálmar Hjálmarsson leikari faðir þeirra.

Ágúst Orri Hjálmarsson varð semí­dúx á stúdentsprófi í Fjöl­brauta­skólanum í Breiðholti í lok lið­innar haust­annar. Hann er ættað­­ur úr Kópa­vogi og segir skóla­sögu sína í grunn­skóla ekkert til að hrópa húrra fyrir. “Mér fannst ég aldrei finna mig nægilega vel í skólanum. Það var ekki fyrr en ég kom í FB að ég tók við mér,” segir hann í spjalli við Breiðholts­blaðið. Þessi viðsnúningur hans á náms­brautinni varð til þess að hann var semídúx eða næst efstur nemenda á stúdentsprófi.

 Talið berst fyrst að því af hverju Ágúst Orri hafi  valið FB þegar kom að framhaldsskólanámi. Var það áhugi á einhverri sérstakri námsgrein. Hann neitar því. Segist ekki hafa hugsað svo langt á þeim tíma. “Ætli það hafi ekki verið einkunnirnar mínar úr grunnskóla sem réðu því að ég fór í Breiðholtið. Þær voru ekkert sérstakar. Hvorki úr Snælandsskóla þar sem ég var í sex ár og síðar Kópavogsskóla. Ég var ekkert að skara fram úr í grunnskólanáminu. Náði ekki að tengja huganna nægilega vel við námið. Það er ekki fyrr en ég kem í FB að dæmið fer að snúast við. Ég byrjaði á hópvinnubraut og hélt mig það á allri menntaskólagöngunni. Kerfið er þannig að maður þarf að fylla upp í 77 námseiningar í kjarnanámi skólans en getur síðan valið önnur fög eftir áhugamálum.”

Var hluti af listahópi 

“Ég var hluti af listahópi og starfaði í leikfélagi innan skólans. Ég var kominn nógu langt til að koma að ákvörðun hvaða leikrit ætti að taka til sýninga og vinna við undirbúning þegar Leikfélag FB Aristófanes sýndi leikritið Hvíslarana í Breiðholtsskóla þann 9. maí árið 2019. Leikritið fjallar um Lísu sem heldur fram hjá Guðmundi sem lætur ekki bjóða sér það lengur. Þetta er stuttur gamanleikur eftir hinn ítalska Dino Buzzati. Þetta voru þó ekki mín fyrstu afskipti af leiklist.” Ágúst Orri segist hafa erft einhver leiklistagen. “Þetta er í ættinni. Faðir minn er leikari og ég kom fyrst að þessu í dægradvöl þegar ég var í grunnskóla. Ég hef líka leikið í kvikmynd og tekið þátt í að leika í stuttmyndum. Svo er ég líka mikill áhugamaður um kvikmyndir. Fer oft í bíó.”

Af hverju semidúx

Aftur að FB. Hvernig fór Ágúst Orri að því að semidúxa. “Ég spyr mig að því sama. Sennilega er ekkert eitt svar við því. Það kom fljótt í ljós eftir að ég kom í FB að ég hafði gaman af heimalærdómi. Ég naut þess einnig að mæta í skólann og sinnti náminu mjög alvarlega. Ég var ekkert endilega að reyna að fá hæstu einkunnirnar en það fór að enda þannig. Ég var að vinna aðeins með náminu fyrstu tvær annirnar og svo hætti ég að vinna á skólatíma og fór að einbeita mér alfarið að skólanum. Ég held að það hafi hjálpað til að ná þessum árangri. Ég fór síðan að vinna aftur eftir útskriftina. Er að vinna hjá Olíudreifingu hér á Grandanum.” Ágúst Orri orðar það með þessum hætti því við hittumst skammt frá vinnustað hans á Kaffivagninum. “Ég hef mikinn áhuga á leiklist og er nú að safna fyrir framhaldsnámi. Ég hef líka verið að hugleiða að skoða eðlisfræði og tengdar náttúru­greindar. Ég kynntist þeim talsvert í FB og það vakti áhuga minn á þeim. Mér gekk ágætlega í stærðfræði en hafði í fyrstu ekki mikinn áhuga á fræðifögum en áhuginn opnaðist smám saman fyrir þeim.”

Fljótandi heimur

Ágúst Orri segir að gera megi ráð fyrir sér í Listaháskólanum í haust. Í leiklistinni. Hann kveðst þó ekki búinn að innrita sig því lokað hafi verið fyrir skráningar áður en hann hafi klárað stúdentsprófið. Hann segir að foreldrar sínir hafi tekið misvel í að hann færi í leiklistina. “Hugsanlega sjá þau ekki nægilega góða atvinnumöguleik á því sviði. Mamma horfir meira á iðngreinarnar. Leiklistin er svolítið fljótandi heimur. Ég stefni að komast í nám erlendis síðar. Þar er mun stærri heimur. Vissulega er mikil samkeppni en tækifærin eru líka mörg,” segir Ágúst Orri Hjálmarsson leikarasonur úr Kópavoginum, semidúx úr FB og stefnir á framhaldsnám í leiklist.

Ágúst Orri hampar verðlaunaskjali fyrir góðan námsárangur og þátttöku í félagsstarfi FB frá Rótarýklúbbnum Reykjavík Breiðholt.

You may also like...