Metár framundan í byggingum
Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar til næstu fimm ára er gert ráð fyrir að tekjur af sölu muni nema 3,7 til 4,4 milljörðum árlega. Einnig er gert ráð fyrir um 800 milljónum verði veitt í svokallaða stofnstyrki vegna verkefna leigufélaga sem ætla að byggja fyrir námsmenn, tekjulægri einstaklinga og fjölskyldur og félagslegar íbúðir. Samkvæmt því má áætla að árlega megi reisa íbúðir að verðmæti 6,5 milljarðar króna tengt því verkefni.
Í upplýsingum sem komu fram á kynningarfundi borgarstjóra á dögunum um uppbyggingu í Reykjavík að um 20% Reykvíkinga búa í dag í leiguhúsnæði og um 26% svarenda í könnun telji að leiguhúsnæði verði næstu kostur þeirra. Í dag eru um 10 þúsund leigusamningar í Reykjavík en þyrftu að vera um 13 þúsund miðað við þessar tölur sem þýðir að nú vantar um þrjú þúsund íbúðir á leigumarkaðinn. Gert er ráð fyrir að um fimm þúsund íbúðir verði byggðar í Reykjavík fram til ársins 2020 sem þýðir að um 1.300 íbúðir þurfa að vera leiguíbúðir. Ef gert er þá fyrir að nú þegar vanti um þrjú þúsund íbúðir á leigumarkaðinn þarf þeim að fjölga um 4.300 á næstu fjórum árum fram til ársins 2020.
Áfram byggt á vestur og miðsvæðinu
Á Vestur- og miðsvæðinu er gert ráð fyrir 275 nýjum íbúðum á Héðinsreitnum og 170 íbúðum á Steindórsreit við Hringbraut sem stundum er kenndur við BYKO. Gert er ráð fyrir 78 íbúðum við Keilugranda og 220 við Sæmundargötu sem er á háskólasvæðinu. Þessar byggingar eru til viðbótar við þau byggingarleyfi sem þegar er búið að gefa út. Fyrir utan þetta eru um átta þúsund íbúðir komnar í þróun þótt eiginlegt skipulagsferli sé ekki hafið. Nokkur hluti þeirra íbúða er fyrirhugaður á Vestur- og miðsvæði borgarinnar. Þar af eru um 800 íbúðir í Skerjafirði austan núverandi byggðar þar og 350 íbúðir á svæðinu í kringum Háskóla Íslands. Bygging um 200 íbúða er til skoðunar á Stjórnarráðsreitnum og 50 íbúðir á Landhelgisgæslureitnum í Vesturbænum.
Metár framundan
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði metár vera framundan í byggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík þegar hann kynnti fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir skömmu. Hann sagði borgina hafa lagt áherslu að tryggja meiri möguleika á leigu- og búseturéttaríbúða sem yrði hluti þessar uppbyggingar og þar skipti skipulag nýrra byggingarsvæða miklu máli.