Fjölmenni á fundi með borgarstjóra
Fjölmennur íbúafundur var haldinn með borgarstjóra í Gerðubergi á dögunum. Á fundinum dró Dagur B. Eggertsson borgarstjóri upp heildarmynd af hverfinu og fjallaði um áherslur í aðalskipulagi.
Hann beindi orðum sínum og skýringum sérstaklega að uppbyggingu í Suður-Mjódd og þeirri deiliskipulagsvinnu sem þar er unnið að. Hann ræddi einnig um hugmyndir um uppbyggingu í Norður-Mjódd og við Stekkjabakka. Þá fór hann yfir samning við ÍR sem var rækilega kynntur í síðasta Breiðholtsblaði og fjallaði um samráðshópa sem borgarráð hefur samþykkt að stofna um eflingu íþróttastarfs í Breiðholti. Á fundinum kom fram stuðningur við að fjölga íbúðum í hverfinu, ekki síst með hliðsjón af stórum hópi eldra fólks sem vill gjarnan minnka við sig, án þess að þurfa að flytja úr Breiðholti.