„Viltu tala íslensku við mig?“

– íslenskuþorpið í Seljahlíð –

Íslenskukaffi á Degi íslenskrar tungu í Seljahlíð.

Íslenskan er okkar allra og mikilvæg fyrir okkur öll að hafa tök á henni. Margt er sér til gamans gert á degi íslenskrar tungu og sumt af því er liður í enn stærra verkefni. Í Seljahlíð hefur verið sett upp heilt „þorp“ í samvinnu íbúa og starfsfólks til að tala saman á íslensku í samstarfi við Þjónustumiðstöð Breiðholts. Á Degi íslenskrar tungu var boðið upp á íslenskukaffi í þorpinu. Íbúar og starfsfólk hittust í matsal Seljahlíðar kl. tvö síðdegis og spjölluðu saman – á íslensku. Íslenskan er okkar allra og mikilvæg fyrir okkur öll, eins og fram kom í auglýsingu með viðburðinum, hvort sem við lærðum hana í frumbernsku eða erum að læra hana á fullorðinsaldri.  

Margrét Árdís Ósvaldsdóttir, forstöðukona Seljahlíðar, bauð alla velkomna í íslenskukaffið og las upp fallegan texta fyrir hópinn. Góður andi ríkti meðal kaffigesta og nemendur af erlendum uppruna voru ekki lengi að setjast niður með kaffibolla í hönd og taka þátt í skemmtilegum samtölum. Þetta var kjörið tækifæri til að kynnast öðrum menningarheimum og minnast mikilvægis þess að veita erlendum einstaklingum öruggan vettvang til að æfa íslenskuna.

Hafa hvert eitt sinn mentor

Þorpið í Seljahlíð er reyndar liður í enn stærra verkefni, Íslenskuþorpinu, sem er kennsluverkefni í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands. Í verkefninu er ekki um eiginleg þorp að ræða í þeim skilningi, heldur meira eins og þorpsbrag á afmörkuðum stöðum, lítil og samheldin samfélög þar sem fólk hittist til að efla íslensku og auðga samskipti. Það er nefnilega ekkert áhlaupaverk að læra „ástkæra, ylhýra málið, og allri rödd fegri“ eins og Jónas Hallgrímsson orðaði það svo fallega í ljóði. Þau í Seljahlíð hafa nýtt sér hugmynda- og aðferðafræði Íslenskuþorpsins til að færa íbúa og starfsfólk nær hvert öðru og búa til stuðningsnet um merkingarbært, skemmtilegt og hlýlegt íslenskunám. 

Nemendur eru starfsfólk í Seljahlíð sem talar annað tungumál en íslensku. Þau hafa hvert og eitt sinn „mentor“, eða kennara, sem þau hitta reglulega. Mentorinn er ýmist íbúi eða starfsmaður. Nemendur hitta mentorana sína annars vegar þegar þeim hentar og á ýmsum tímum og stöðum og síðan í vikulegu hópastarfi, sem Guðlaug Stella Brynjólfsdóttir stýrir og kennir. Seljahlíðarþorpið hóf göngu sína í haust en önnur þorp hafa skotið upp kollinum víðsvegar í borginni og starfað mislengi. Í Seljahlíð hverfist starfið um staði og fólk þar sem nemendur geta treyst því að viðmælendur þeirra séu velviljaðir, viti hvaða verkefnum þau séu að sinna og hverjar þarfir þeirra eru. Námið fer til dæmis fram í matsalnum, í félagsstarfi aldraðra, á skrifstofu, með stjórnendum og svo framvegis. Talað er um vinnuna, áhugamál, dagleg málefni og menningu nemenda, mentora og annarra sem lifa og/eða starfa í þorpinu. Með íslenskuþorpinu er myndaður nokkurs konar smáheimur þar sem viðurkenning og stuðningur er við völd. „Þarna úti“ getur fólk sem er að læra íslensku átt von á alls konar viðbrögðum þegar það reynir að tjá sig, en inni í þorpinu eru öll á sömu blaðsíðu og stuðningur og hvatning við völd.

Fólk af ýmsum þjóðernum starfar í Seljahlíð.

Tekist vel í Seljahlíð

En ekki er allt búið enn. Auk íslenskunámsins í daglegu umhverfi er einnig til staðar fræðsla fyrir alla þátttakendur í verkefninu í menningarfærni og fjölmenningu. Hverrar þjóðar sem við erum að uppruna græðum við öll á því að skyggnast yfir hafið. Á því að tileinka okkur aðferðir og hugsanahátt til að geta umgengist hvert annað á gefandi og friðsamlegan máta. Verkefnið Viltu tala íslensku við mig? hefur tekist mjög vel í Seljahlíð og það er að sjálfsögðu vegna áhuga og dugnaðar nemenda annars vegar og velvilja og stuðnings íbúa og samstarfsfólks hins vegar. Áfram Seljahlíð.

Þórhildur Vígdögg.

You may also like...