Framkvæmdir við nýjan Landsspítala Háskólasjúkrahús komnar á fulla ferð
– rætt við Ásbjörn Jónsson verkfræðing og verkefnisstjóra –
Vinna er hafin af fullum krafti við byggingu nýs Landsspítala háskólasjúkrahúss við Hringbraut. Hinn nýi spítali mun breyta þessu svæði í Miðborg Reykjavíkur verulega enda er um byggingu einskonar spítalaþorps að ræða þar sem margar samtengdar byggingar munu hýsa það mikilvæga heilbrigðisstarf sem fram fer á spítalanum. Eitt af því sem mun hverfa er gamla Hringbrautin. Henni verður endanlega lokað í byrjun janúar en meðferðakjarni hins nýja spítala verður reistur þar sem hún liggur nú. Spítalalóðin afmarkast af Vatnsmýrarvegi, Hringbraut, Snorrabraut og af eldri byggingum spítalans sem ná upp að Eiríksgötu. Talsvert rask verður á umferð um svæðið meðan á framkvæmdum stendur, en nýjar leiðir munu síðan opnast og gert er ráð fyrir að fyrirhuguð borgarlína fari um spítalaþorpið. Vesturbæjarblaðið fékk Ásbjörn Jónsson verkfræðing til þess að ræða þessa stóru framkvæmd sem með tíð og tíma mun breyta aðstöðu til heilbrigðismála og einnig umhverfinu til muna.
Ásbjörn segir að nú sé allt komið á fulla ferð. Sjúkrahótel upp á 4.300 fermetra er fullbyggt og verður tekið í notkun nú á næstunni. Jarðvinnan er hafin og hönnunarvinna er farin af stað bæði fyrir meðferðarkjarnann og rannsóknahúsið. Þær verða tvær af meginbyggingunum í spítalaþorpinu en alls er um sjö verkefni að ræða í þessum áfanga. Götur, veitur og lóð eru verkefni dagsins í dag. Meðferðarkjarninn er um 70.000 fermetra bygging sem hýsa mun aðgerða- og legudeildir spítalans. Rannsóknahúsið er um 15.500 fermetrar. Þá verða einnig byggð bílastæði og tækni- og skrifstofuhús um 17.000 fermetrar að stærð og við það bætast tengingar og brýr því allt húsnæði hins nýja spítala verður samtengt og innangengt í allar byggingar þess. Þá má geta þess að byggður verður þyrlupallur. Meðferðarkjarninn verður byggður fyrir framan núverandi byggingar á spítalalóðinni ofan á gömlu Hringbraut beint suður af barnaspítalanum og kvennadeildinni. Rannsóknahúsið kemur vestan megin við læknagarð þar sem núverandi bílastæði eru. Í bílastæðahúsinu verður húsnæði fyrir ýmsa þjónustu við spítalann, tækniþjónustu og varaaflsvélar sem grípa inn í verði rafmagnsskortur.
Unnið við lagnaskurð
Þessa dagana standa yfir framkvæmdir við lagnaskurð sunnan Barnaspítalans og fljótlega verður byrjað á þverun Laufásvegar niður við gömlu Hringbraut. Áætlað er að sá verkþáttur taki um fimm vikur og á meðan verður Laufásvegur lokaður fyrir umferð á milli gömlu Hringbrautar og Barónsstígs. Gert er ráð fyrir að búið verði að fylla aftur í skurðinn frá Laufásvegi að aðalanddyri Barnaspítalans um miðjan desember. Áætlað er að hefja jarðvinnu fyrir tengigang frá aðalinngangi Barna-spítala nú í lok nóvember. Uppsteypa, fylling og malbikun á því svæði mun standa fram til lok janúar 2019. Á sama tíma verður unnið við stóra lagnaskurðinn og götustæði Efri götu frá tengiganginum til austurs fram hjá kvennadeild og svo enn lengra í austur fram hjá gamla spítalanum.
Gamla húsið verður sýnilegra
Ásbjörn segir spítalalóðina ekki ná suður fyrir núverandi Hringbraut og engar nýbyggingar á vegum spítalans fara þangað. Engu að síður verði góð tenging við Umferðarmiðstöðina til að hún nýtist bæði starfsfólki og öðrum sem eiga erindi við spítalann sem best. Það verða tveir bílakjallarar á jöðrum spítalaþorpsins, sem eru ætlaðir starfsfólki, en einn inn á miðju ætlaður fyrir sjúklinga. Þetta er skipulagt eftir því sem verið er að gera á spítalalóðum erlendis. Aðkoma sjúklinga er í fyrirrúmi en starfsfólk þarf að ganga spölkorn frá bílastæðunum. Vangaveltur hafa verið á meðal fólks hvort gamla Landsspítalahúsið muni nær hverfa inn í hið nýja þorp. Ásbjörn segir svo ekki vera. Hann segir að koma muni fólki á óvart hversu gamla húsið verður sýnilegt og miðpunktur þorpsins. Húsið er friðað hið ytra og mun fá sinn sess í þessu umhverfi. Húsið kemur líka til með að verða mun sýnilegra en það er í dag þar sem það er hálf falið á bak við trjágróður sem eftir er að fjarlægja. Þá verður gert torg fyrir framan það og þau fyrirmæli eru líka í deiliskipulagi svæðisins að engar nýbyggingar mega vera hærri en gamla spítalahúsið. Ásbjörn segir nokkuð horft til þess í dag að byggja spítala á stærra svæðið en fara út í háar byggingar. Á tímabili hafi sú skoðun ríkt nokkuð að teygja byggingar af þessum gerðum upp í loftið. Þetta er breytt því í dag horft meira til þess að flæði sjúklinga innan bygginga sé sem hagkvæmast og þá er ekki endilega hagkvæmt að ferðast mikið lóðrétt. Það eru til útreikningar um hversu langa vegalengd fólk getur farið um á jafnsléttu á sama tíma og það þarf að meðaltali að bíða eftir lyftu. Ásbjörn kveðst því miður ekki vera með þessa útreikninga hjá sé en um umtalsverða vegalengd sé að ræða. Í nýja spítalanum er gert ráð fyrir að allir flutningar fari fram með sjálfsstýrum vögnum – einskonar róbótum sem fara eftir ákveðnum leiðum og sjá sjálfir um að panta lyftur þar sem þeirra er þörf.
Verið að færa umferðaræðar og stofnlagnir
En hvað er í raun og veru verið að gera þessa dagana. Fólk sér girðingar rísa og flutningatrukka aka með jarðveg frá byggingasvæðinu. Nú er verið að undirbúa byggingu meðferðakjarnans og leggja grunn að nýju gatnakerfi á lóðinni og færa veitulagnir. Ásbjörn segir að þetta kosti mikla jarðvegsflutninga. Um það bil 270 þúsund rúmmetrar af efni verði að fara. Það liggur ekki nákvæmlega fyrir hvert efnið verði flutt, en hugmyndir um að flytja það að Bolaöldu upp undir Bláfjöllum séu út úr öllu korti. Engan veginn sé hægt að afsaka slík vinnubrögð en eins og komið hafi fram í útvarpsviðtali á dögunum myndi það kosta stöðugar ferðir flutningavagna fram og til baka úr miðborg Reykjavíkur upp undir Bláfjöll í fleiri mánuði og trúlega yrði það sótt aftur þegar þess yrði þörf. Slíkur akstur flutningatrukka myndi bæði skapa óverjandi kostnað og síðan bætist mengunarþátturinn við.. Ásbjörn segir að í áætlunum hafi verið gert ráð fyrir að efninu yrði ekið í landfyllingar einhvers staðar við strandlengju borgarinnar og að Nýr Landspítali sé búinn að vinna í því í langan tíma bæði með Reykjavíkurborg og Faxaflóahöfnum að finna efninu losunarstað. Það hefur verið rætt um Gelgjutanga, Laugarnes og Örfirisey, jafnvel að fyrirhugaðri Fossvogsbrú en Bolaalda hefur ekki verið inn í myndinni.
Þrjá nýjar götur
Í stað gömlu Hringbrautarinnar koma þrjá nýjar götur í gegnum spítalaþorpið. Þær hafa enn ekki fengið nöfn en ganga í vinnuferlinu undir heitunum, Efri gata, Neðri gata og Syðsta gata. Meðferðarkjarninn verður á milli Efri og Neðri götu og rannsóknahúsið og bílastæðahúsið á milli Neðri götu og syðstu götu. Ásbjörn segir að gert sé ráð fyrir á bilinu 500 til 550 bílastæði verði í bílastæðahúsinu og fermetra rými skrifstofa verði um 2,700 og fermetra rými tækni- og varaafls verði um 1.500 fermetrar. Rannsóknahúsið verður fjórar hæðir með inndreginni þakhæð og þyrlupalli.
Öll starfsemi flyst úr Fossvogi
Gert er ráð fyrir legudeildir flytjist í meðferðarkjarnann og verði á fimmtu og sjöttu hæð. Fjórða hæðin mun kallast tæknihæð, en skurðstofur, undirbúningur og vöknun verður á þeirri þriðju og einnig gjörgæsla. Á annarri hæðinni verður síðan smitsjúkdómadeild ásamt móttöku og þjónustu en bráðamóttaka verður á þeirri fyrstu.
Þessum áfanga á að ljúka 2024
Ásbjörn segir marga hafa óttast að erfitt yrði að koma þessum byggingum fyrir. Það komi hins vegar mörgum nokkuð á óvart þegar betur er að gáð um hversu stórt óbyggt svæði sé að ræða og því fremur auðvelt að koma 100 þúsund fermetra húsnæði fyrir. Þessum áfanga hins nýja Landsspítala háskólasjúkrahúss mun ljúka árið 2024. Ásbjörn segir ekkert liggja fyrir um hvort ráðist verði í síðari áfangann strax að þessum loknum eða síðar. Það mun ráðast af ákvörðunum stjórnmálamanna þegar þar að kemur en í þeim áfanga er meðal annars gert ráð fyrir nýju göngudeildarhúsi, frekari rannsóknastarfsemi og öðru bílastæðahúsi.