Lítið notuð en gæti orðið aðalflugbraut
Nothæfisstuðull Reykjavíkurflugvallar út frá viðmiðum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) yrði 97% án flugbrautar 06/24 eða „neyðarbrautarinnar eins og suðvesturbrautin. Þetta kemur fram í annarri tveggja skýrslna sem verkfræðistofan EFLA hefur lokið við að vinna um Reykjavíkurflugvöll fyrir Isavia.
Önnur skýrslan var unnin á grundvelli tilmæla ICAO sem fyrst og fremst eru hugsuð sem viðmið við valkostagreiningu á nýjum flugvöllum. Í öðru lagi var unnin skýrsla um nothæfistíma fyrir flugvélar af gerðinni Fokker 50 og Beechcraft King Air 200 sem notaðar eru í reglubundnu áætlunar- og sjúkraflugi á Reykjavíkurflugvelli. Þetta eru umfangsmestu skýrslur sem gerðar hafa verið um notkun Reykjavíkurflugvallar og voru unnar í kjölfar athugasemda Samgöngustofu við drög að áhættumati Isavia sem unnið var í kjölfar óska innanríkisráðherra um að Isavia hæfi undirbúning að lokun flugbrautarinnar. Gögnin sem stuðst er við eru umfangsmeiri og nákvæmari en í fyrri skýrslum og munar þar mestu um að fyrir tæpum áratug var komið upp fjórum vindmælum við flugbrautirnar sem eykur verulega nákvæmni mælinga auk þess sem vindhraði og stefna skráist á 15 sekúndna fresti.
Getur suðvesturbrautin orðið önnur af aðlalflugbrautum Reykjavíkurflugvallar
Skoðanir eru mjög skiptar um notagildi suðvesturbrautarinnar. Hörður Guðmundsson flugrekandi og flugmaður á Ísafirði er einn reyndasti sjúkraflutningamaður landsins telur glapræði að loka minnstu braut Reykjavíkurflugvallar þótt skýrslur sýni að brautin sé ekki mikið notuð. Hún gegni mikilvægu hlutverki sem varabraut og jafn vitlaust sé að loka henni og að spenna á sig bílbelti eftir að slys hefur átt sér stað. Annar reyndur flugmaður Ómar Ragnarsson telur að brautin geti orðið önnur af aðal flugbrautum Reykjavíkurflugvallar með nokkrum breytingum og lengingu út í Skerjafjörð og með því mætti loka stóru norður suður brautinni. Í viðtali við Vesturbæjarblaðið á liðnu vori sagði Ómar meðal annars að persónulega teldi hann kost á að halda öllum flugbrautunum þremur en einnig líta svo á að finna verði leið sem sameinað getur sjónarmið þeirra sem vilja byggja á öllu flugvallarsvæðinu og hinna sem vilja halda flugstarfseminni áfram að mestu í óbreyttu formi. Ómar benti á að hvassviðrasamt gæti verið í Reykjavík og flugbraut í þá stefnu sem suðvesturbrautin er geti því verið nauðsynleg. Hann setti fram þá hugmynd að endurgera mætti brautina og lengja hana nokkuð og þannig gæti hún þjónað öllu flugi úr norðri og suðri þannig að leggja mætti stóru norður suðurbrautina niður og losa þannig mikið landrými til annarrar notkunar án þess að skerða notkunarmöguleika Reykjavíkurflugvallar að að neinu leyti. Þessi athyglisverða hugmynd Ómars virðist ekki hafa verið mikið rædd í þeim skoðanaskiptum sem nú eiga sér stað um flugvöllinn.
Sambærileg flugbraut í Keflavík myndi ekki vega upp áhættuna
Sigurður Ingi Jónsson, fyrrverandi forseti Flugmálafélags Íslands sagði í Morgunblaðinu nýverið að nýtt áhættumat Isavia á áhrifum þess að loka NA-SV-brautinni á Reykjavíkurflugvelli undirstrikar að við það dregur úr flugöryggi. Niðurstaðan væri sú að myndast myndi hætta samfara því að loka þessari flugbraut sem ekki yrði unnin upp með neinum mótvægisaðgerðum. Þótt opnuð verði sambærileg flugbraut í Keflavík myndi það ekki vega upp alla áhættuna sem skapast við það að loka neyðarbrautinni.