Glæsilegir veitingastaðir fyrirhugaðir í gamla pósthúsinu

Gamla Pósthúsið má muna fífil sinn fegurri. Þar var löngum helsta pósthús landsins en síðar var Hitt húsið sem hýsti ungmennastarf á vegum Reykjavíkurborgar þar til húsa. Húsið hefur staðið autt að undanförnu en vonir standa til að um næstu áramót verði matargestir farnir að gang þar um garða. 

Ætlunin er að breyta gamla Pósthúsinu við Pósthússtræti í mathöll á næstunni. Nýja mathöllin fær nafnið Pósthús Mathöll sem verður að teljast vel til fundið og það eru þungavigtarmenn í veitingageiranum sem standa að henni. Fremstir þar í flokki eru bræðurnir Ingvar og Hermann Svendsen sem hafa rekið og átt fjölda veitingastaða hérlendis, auk Þórðar Axel Þórissonar og Leifs Welding.  

Byggð verður 140 fermetra glerbygging í porti gömlu lögreglustöðvarinnar sem verður hluti af Mathöllinni en alls verða tíu veitingastaðir og einn glæsilegur kokteilbar í höllinni. Að sögn Leifs verður hönnunin innblásin af miðjarðarhafinu og mikið gert upp úr gleði og stemningu, fyrir utan auðvitað framúrskarandi mat.

Gert er ráð fyri að Pósthús Mathöll muni ekki eiga sína líka á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Stefnt er á að opna í lok ársins með pompi og prakt. Verið er að leita að áhugasömum rekstraraðilum í þau pláss sem ekki eru þegar farin.

You may also like...