Svo forvitin að ég þurfti að horfa upp þegar ég fæddist
— viðtal við Dóru Björt Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa —
Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi og formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkur, er fædd á Fæðingarheimilinu við Eiríksgötu í Reykjavík sem hætti starfsemi fyrir nokkrum árum. Hún hefur brennandi áhuga á öllu á milli himins og jarðar og lítur á það sem eina af sínum áskorunum. “Ég er svo forvitin að ég þurfti að horfa upp þegar ég fæddist til að sjá heiminn fyrir utan áður en ég mætti á svæðið.” Fæðingin var að hennar sögn erfið vegna þessarar forvitni og þurfti að taka hana út með klukku.
Dóra Björt bjó sín fyrstu ár við Ásvallagötu í Vesturbænum. Þegar hún flutti frá Ásvallagötunni fjögurra ára snót sór hún þess dýran eyð að snúa til baka á þetta svæði. “Mér líkaði vel í gamla Vesturbænum og mér fannst gaman að rölta út í Kjötborg og spjalla við þá ágætu bræður sem ráku búðina og gera enn, þá Kristján og Gunnar. Ég hef kannski getað orðið mér úti um góðgæti á reikning foreldra minna. Mér fannst líka gaman að hjóla á þríhjólinu mínu í kringum Grund og ég elskaði nándina í samfélaginu sem þarna var, nándina sem þétt byggð býður upp á. Ætli það hafi ekki verið upphaf áhuga míns á þéttri byggð og lifandi borgarsamfélagi”.
Var ósátt að flytja úr Vesturbænum
Fjölskyldan flutti í Árbæinn þegar Dóra var fjögurra ára. “Ég ólst svo upp í Elliðaárdalnum. Ég var óánægð með flutninginn til að byrja með en vandist lífinu og var fljót að gleyma eins og börn eiga til. Dalurinn er sveit í borg með trjám og náttúru allt um kring. Ég klifraði í trjánum og settist gjarnan á grein og las bækur eða rólaði mér í aparólu. Ég hugsaði nú ekki alltaf út í það hvort hætta gæti stafað af þessu athæfi. Ég var dálítið eins og Ronja ræningjadóttir út í skógi og var oft kölluð það í höfuðið á frægri sögupersónu Astrid Lindgren. Ég var alltaf ákveðið barn. Ég vildi vera með mína eigin kerru þegar við fórum að versla og ganga mínar eigin leiðir óháð vilja foreldra minna og jafnvel í burtu frá þeim. Foreldrar mínir gripu til þess bragðst eftir tilraunir við að hemja mig að láta mig upplifa að hafa týnst svo ég myndi láta af þessari hegðun. Þau földu sig fyrir mér í verslun og vonuðust til þess að ég myndi verða hrædd og fara að leita þeirra, en fyrr en varði var ég komin út á miðjan Laugaveginn með innkaupakerru. Þau sáu að þessi aðferð dygði ekki. Ég varð ekkert hrædd og hélt bara mínu striki. Á nokkuð löngu tímabili talaði ég með einskonar whisky rödd sem barn. Það má ímynda sér hvernig var að hlusta á þetta koma úr barnsbarka. Foreldrum mínum leyst ekki á og fóru með mig til læknis. Eitthvað hlyti að vera að. En læknirinn skoðaði mig og hugsaði sig aðeins um. Svo sagði hann: Hún talar einfaldlega of mikið. Röddin hafði verið ofnotuð. Ég var sítalandi stúlka með mikið skap og makka af hári.”
Kýs að nota ekki bíl
Nú býr Dóra Björt í miðborginni. “Eftir búsetu erlendis ákvað ég að flytja þangað til þess að geta gengið eða hjólað til og frá vinnu. Mér finnst skipta máli að þurfa ekki að eiga bíl.” Dóra bjó um tíma í Osló og stundaði þar nám í heimspeki og alþjóðafræði, en fór síðan í skiptinám í Berlín. Hún starfaði líka hjá Evrópuþinginu í Brussel um tíma. “Miðborgin er í blóma og er orðin svo miklu skemmtilegri en hún var. Mikil fjölgun verslana og veitingastaða hefur verið undanfarin ár. Falleg almenningsrými hafa verið sett í forgang en bílastæðum á yfirborðinu hefur samhliða verið fækkað. Það er þó misskilningur að bílastæðum sé í rauninni að fækka í miðbænum. Þau hafa bara verið að færast inn í bílastæðahúsin og þeim hefur í raun fjölgað töluvert á þessu svæði undanfarin ár.”
Afi stjórnaði kirkjukór og við systurnar höfum rappað
Dóra á ættir að rekja í Þykkvabæinn á Suðurlandi. Sigurbjartur Guðjónsson afi hennar var organisti og kórstjóri í Þykkvabæ og þar á hún frændgarð. “Mér fannst gott að umgangast afa og ömmu. Mér er stundum tjáð að ég sé gömul sál og ég hef alltaf hafa ánægju af að umgangast eldra fólk og spjalla við það. Afi var stundum að yrkja. Ég veit ekki hvort ég lærði það af honum en ég hef gaman af að skella í eina og eina vísu eða jafnvel rappkvæði. Við systurnar höfum rappað saman. Við syngjum líka mikið þegar fjölskyldan hittist. Ætli þetta sé ekki í blóðinu. Afi var kórstjóri kirkjukórsins í Þykkvabæ og faðir minn og systur hans sungu í kórnum. Þetta er trúlega komið frá honum.”
Vesturbærinn og veran erlendis mótaði mig til frambúðar
Dóra segir að það samfélag sem hún kynntist sem barn í gamla Vesturbænum hafi mótað sig til frambúðar. “Ég held að þessi tími bernskunnar eigi þátt í að ég ákvað að gerast baráttumanneskja fyrir betri borg en svo hafði veran erlendis úrslitaáhrif. Ég vil leyfa fólki að njóta þeirra lífsgæða sem þétt samfélag býður upp á. Í þéttu samfélagi getur fólk gengið meira og er ekki eins háð samgöngutækjum. Að þessu leyti er Vesturbærinn til fyrirmyndar þar sem bílanotkun er minni en annars staðar og hjólanotkun meiri. Að breyta ferðavenjum og þétta borg er brýnt umhverfismál. Við þurfum að bregðast við hamfarahlýnuninni með róttækum hætti. Þéttari borg býður einnig upp á meiri lífsgæði. Fólk vill hafa nærþjónustu. Það vill hverfaverslanir þangað sem það getur sótt lífsnauðsynjar. Það fjölgar gæðastundum í deginum að þurfa ekki að sækja þjónustu yfir langa leið. Þéttari byggð er líka forsenda betri almenningssamganga. Til að þær gangi þarf byggðin að vera þétt.”
Að njóta augnabliksins
“Þetta er hugsunin að baki borgarlínunni. Borgarlínan snýst um að skipuleggja byggð í kringum allan samgönguásinn. Samgöngurnar eru skipulagsmál. Þær snúast ekki bara um hvort lest fari um á teinum eða rafdrifin samgöngutæki á gúmmíhjólum. Heldur hvort byggðin geti borið hana uppi. Til þess að svo geti orðið þarf þétta byggð. Að fólk búi í nágrenni hennar. Þétting byggðar og borgarlínan eru órjúfanleg heild.” Dóra segir að í sínum huga gefi almenningssamgöngur fólki frelsi til þess að njóta augnabliksins. “Til dæmis þegar það ferðast til og frá vinnu. Með almenningssamgöngum gefst því kostur á að njóta slökunarstundar á leiðinni með bók í hönd, góða tónlist í eyrum eða jafnvel að undirbúa vinnudaginn. Það er ekki fast undir stýri starandi á afturenda bílsins sem er á undan í umferðinni sem getur verið stressandi og þreytandi.” Talið berst meira að einkabílnum. “Ég held að þessi mikla áhersla sem lögð hefur verið á einkabílinn sé eins konar framhald af sjálfstæðisbaráttu okkar. Við börðumst lengi fyrir sjálfstæði og inn í það blönduðust lífsvenjur sem við höfum tengt við það. Ein þeirra er einkabíllinn. Sumt fólk telur hann grundvöll þess að vera sjálfstæður. Við erum búsett á eyju og erum öll einskonar eylönd.”
Pólitíkin gerir usla út af engu
Dóra Björt segir að sér finnist oft að í pólitíkinni sé verið að gera usla út af engu. “Í stað efnislegrar umræðu er blásið til tilfinningalegs uppnáms. Flokkar setja mál upp með þeim hætti að þeir séu riddarar réttlætisins og máli andstæðinginn sem svikara. Þetta hefur komið fram í borgarmálunum. Þar fer endalaust þvaður fram og reynt er að slá ryki í augu almennings. Á þessu tapar hin upplýsta umræða. Almenningur tapar á þessari umræðuhefð. Í stað þess að vinna að góðum málum er fólk í stanslausu stríði út af engu.”
Að lifa til að vinna eða vinna til að lifa
En af hverju fór Dóra í pólitík. “Þegar ég bjó erlendis fór ég að horfa meira á heimalandið með augum gestsins. Þá fór ég að sjá eitt og annað í nýju ljósi og sem betur mætti fara. Ég lærði mikið af Norðmönnum. Þótt um lík samfélög sé að ræða þá hafa þeir gert margt betur en við. Ég var að vinna við leikskóla með námi og vann í hálft ár sem kennari. Norðmenn skipuleggja skólakerfið með öðrum hætti en við og standa öðruvísi að frístundamálum. Þeir leggja líka mikla áherslu á að mikilvægt sé að halda vel utan um starfsfólk og heilsu þess með styttingu vinnuvikunnar. Í Noregi er mikil áhersla lögð á fjölskyldulíf. Að fjölskyldan eigi sinn tíma og geti skipulagt hann eftir hentisemi. Besta mögulega heilsa er mannréttindi og starfið á ekki bara að grafa undan heilsu fólks heldur á hún hreint og beint að efla heilsu fólks. Vinnan má ekki eyðileggja fólk. Þetta er sterkt inntak í verkalýðsbaráttunni í Noregi. Hér á landi er sá hugsunarháttur meira við lýði að vinnan geri þig að manni. Hér er hugmyndin fremur sú að fólk eigi að lifa til að vinna en að vinna til þess að lifa. Það hefur komið í ljós að stytting vinnuviku hefur ekki dregið úr framleiðni. Hún hefur aukist ef eitthvað er. En þetta er hugsunarháttur sem við eigum erfitt með að tileinka okkur. Hjá Norðmönnum er hugmyndin sú að fólk geti sinnt skyldum sínum sem foreldrar af ábyrgð jafnframt því að sinna starfi sínu. Þetta er áhersla sem ég legg þunga áherslu á í minni pólitík. Fólk á að geta verið foreldri ungra barna en einnig forystumanneskja í störfum sínum. En til að svo megi verða þurfum við að skipuleggja samfélagið svo það verði hægt. Reynslan sýnir að stytting vinnuvikunnar skiptir þar miklu máli. Fólk hefur meira tíma til að sinna eigin áhugamálum án þess að framleiðnin af störfum þess minnki.”
Brenn fyrir umhverfismálum og lýðræði
“Ég hef áhuga á öllu á milli himins og jarðar. Það er vandamál mitt. Ég er svo forvitin að ég þurfti að horfa upp þegar ég fæddist. Þurfti að sjá heiminn fyrir utan áður en ég mætti á svæðið. Nördinn í mér á sér trúlega upptök í heimspekinni. Ég vitna oft í hvernig að hlutum er staðið í Noregi við vinnu mína í borgarstjórn. Bendi á hvernig hin og þessi mál eru leyst þar. Fjölskyldu- og skólamálin eru mér ofarlega í huga. Ég tók við sem forseti borgarstjórnar á þrítugsafmælinu mínu og hætti daginn fyrir 31. árs afmælið. Á ári mínu sem forseti náði ég að gera það sem ég setti mér sem markmið að gera hvað varðar meira gagnsæi og valddreifingu. Minn metnaður er að búa til borg sem er samkeppnishæf við borgir annara landa. Okkur er kappsmál að fá fólk heim úr námi og að laða öflugt fólk hingað. Fólk sem kemur með nýja menningarstrauma og áhrif. Það er mikilvægt fyrir þróun samfélagsins. Ég brenn fyrir gagnsæi, lýðræði, umhverfismálum, valddreifingu og betrumbættri stjórnsýslu.“