Spila í Pepsi Max deildinni
Sumarið hjá meistaraflokki karla í fótbolta var vægast sagt frábært. Strákarnir voru nýliðar í 1. deild eftir að hafa lent í 2. sæti í 2. deild karla í fyrra en enduðu í 1. sæti Inkasso-deildarinnar, sem er ótrúlegur árangur.
Fyrir lokaleikinn var staðan æsispennandi í deildinni og strákarnir þurftu sigur eða jafntefli til að komast upp í Pepsi Max deildina. Grótta vann sannfærandi 4-0 sigur gegn Haukum. Fjölnir tapaði fyrir Keflavík á sama tíma sem leiddi til þess að strákarnir enduðu sem sigurvegarar Inkasso-deildarinnar með 43 stig. Fyrir sumarið hafði Grótta fengið mest 20 stig í 1. deild karla, en það var árið 2011. Uppskera þrotlausrar vinnu hjá leikmönnum og þjálfurum skilaði sér svo sannarlega. Stuðningsmenn liðsins hafa verið frábærir í allt sumar og fylgt liðinu milli landshluta. Stúkan var vægast sagt troðfull þann 21. september þegar strákarnir unnu deildina, og stemningin frábær. Við hlökkum til næsta sumars – sjáumst í Pepsi Max deildinni að ári.