Um 40 viðburðir á menningarhátíð
Mikið var um að vera á menningarhátíðinni sem haldin var dagana 31. október til 3. nóvember sl. Dagskrá hátíðarinnar var afar fjölbreytt en um 40 viðburðir og sýningar voru í gangi víðsvegar um bæinn.
Seltirningar og aðrir gestir fjölmenntu á flesta viðburði hátíðarinnar og virtust njóta vel þess sem boðið var upp á. Stöðugur straumur fólks var á sýningarnar á bókasafninu, á sýningu Guðrúnar Einarsdóttur í Nesstofu og á ljósmyndasýningu Valgeirs. Mörg hundruð manns gæddu sér af morgunverðarhlaðborðinu á Eiðistorgi á laugardagsmorgninum og spjölluðu við mann og annan. Fjölmenni tók þátt í stríðsminjagöngunni sem þótti virkilega fróðleg. Alger húsfyllir var svo í Félagsheimilinu á heiðursdagskrá um Þórarinn Eldjárn rithöfund og lá stundum við að þakið myndi rifna af svo mikið var hlegið. Virkilega velheppnað og skemmtilegt í alla staði. Myndir segja meira en þúsund orð og því má sjá nokkrar hér og ennfleiri verða birtar á fésbókarsíðu Seltjarnarnesbæjar.