Kaldalón byggir á Steindórsreit við Hringbraut
Nú er unnið að breytingum á skipulagi fyrir Steindórsreit sem einnig hefur gengið undir nafninu BYKO reitur. Um er að ræða lóðir nr. 77 við Sólvallagötu og nr. 116 við Hringbraut gegnt JL-húsinu við Hringbraut. Byggingafélagið Kaldalón, sem er í eigu Kviku banka og einkafjárfesta hefur fest kaup á reitnum en hann hefur gengið kaupum og sölum á milli fjárfesta að undanförnu. Kaldalón keypti svæðið af félaginu Steindórsson ehf., sem er í eigu viðskiptafélaganna Hilmars Þórs Kristinssonar og Jóhanns G. Jóhannssonar en það félag hafði keypt hús og byggingarétt af öðrum aðilum. Fyrirhugað er að byggja 84 íbúðir á reitnum og að framkvæmdir geti hafist um mitt þetta ár samkvæmt upplýsingum frá Jónasi Þorvaldssyni framkvæmdastjóra Kaldalóns.
Gangi þessar fyrirætlanir Kaldalóns eftir mun ljúka sögu viðskipta og hugmynda að fjárfestingum sem ekki gengu eftir. Atvinnustarfsemi hefur verið á reitnum í áratugi og er heitið Steindórsreitur dregið af því að þar hafði Bifreiðastöð Steindórs aðstöðu um lengri tíð. Húsin voru þá í eigu hans og síðar fjölskyldu hans. JL Byggingarvörur störfuðu um tíma í húsnæðinu. Þar var um að ræða hluta af verslunarveldi fjölskyldu Jóns Loftssonar sem byggði JL húsið og rak verslanir þar um árabil. JL Byggingarvörur urðu gjaldþrota í júní 1991. Þegar Byko færði hluta af starfsemi sinni í Vesturbæinn tók verslunin Steindórshúsin á leigu fyrir byggingavöruverslun. Byko verslaði við Hringbrautina um árabil eða allt þar til verslun Byko var opnuð í Örfirisey. Eftir það var matvöruverslunin Víðir í húsinu eða þar til hún varð gjaldþrota í júní árið 2018. Íslandspóstur hefur einnig verið með pökkunarþjónustu í hluta húsnæðisins. En frá gjaldþroti Víðir hefur mestur hluti þess staðið auður enda niðurrif fyrirhugað.
Íbúðir og hótel
Árið 2016 auslýsti Reykjavíkurborg nýtt deiliskipulag fyrir Steindórsreitinn. Í skipulagstillögunni var gert ráð fyrir að heildarbyggingarmagn yrði 15.700 fermetrar, þar af 70 íbúðir á 3.250 fermetrum á tveimur til fjórum hæðum. Einnig var gert ráð fyrir gististað á einni til fimm hæðum á 4.300 fermetrum. Þá var gert ráð fyrir verslun og þjónustu í 450 fermetrum og svalir og þakgarðar verða 3.450 fermetrar. Í auglýsingu Reykjavíkurborgar kom fram að markmiðið með deiliskipulaginu væri að móta ramma um byggð sem styrkja myndi heildarmynd borgarinnar. Þess er skemmst að geta að ýmsar athugasemdir komu fram við þessar skipulagshugmyndir. Einkum komu þær frá íbúum við vestur enda Ásvallagötunnar sem fannst að sér þrengt en einnig annarsstaðar frá. Athugasemdir komu fram um að hluti húsnæðisins væri ætlaður fyrir hótelrekstur.
Aftur auglýst fleiri íbúðir og hótelið burt
Borgarráð samþykkti að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir Steindórsreitinn í september á liðnu ári. Þar hafði verið tekið nokkurt tillit til athugasemda sem höfðu borist vegna fyrri skipulagshugmynda. Helstu breytingar eru að íbúðum var fjölgað um 14 eða úr 70 í 84 og hætt var við hugmyndir um hótelrekstur. Samkvæmt skipulaginu verða íbúðirnar í þremur húsum og sem verða hæst fimm hæðir næst Hringbraut og gert ráð fyrir atvinnustarfsemi á jarðhæð.