Hátíðlegur öskudagur á frístundaheimilum Miðbergs
Öskudagurinn var haldinn hátíðlegur á frístundaheimilum Miðbergs, líkt og annars staðar. Börn af frístundaheimilunum Álfheimum, Bakkaseli og Hraunheimum komu saman á öskudagsballi í sal Hólabrekkuskóla og dönsuðu af miklum móð. Einnig voru veitt verðlaun fyrir bestu búningana.
Öskudagur á sér langa sögu. Í vestrænni kristni er hann við upphaf lönguföstu sem var tími takmarkaðrar neyslu, íhugunar og góðrar breytni. Aska táknar í biblíunni hið forgengilega og dreifðu prestar ösku á höfuð fólks fyrr á öldum. Öskudagur kemur fyrir í íslenskum handritum frá 14. öld. Fyrri siðir öskudagsins hafa löngu horfið og er hann nú einkum til skemmtunar á meðal æsku landsins. Öskudagur eins og við þekkjum hann í dag á einkum upptök sín á Akureyri, en þar voru dönsk áhrif lengi áberandi. Þess má geta að heitin bolludagur og sprengidagur auk öskudags tengjast því að fólk gerði sér dagamun fyrir upphaf lönguföstu.