Hólabrekkuskóli hlaut Arthursverðlaunin
Hólabrekkuskóli hlaut minningarverðlaun Arthurs Morthens að þessu sinni. Verðlaunin voru veitt í fjórða sinn á Öskudagsráðstefnu reykvískra grunnskólakennara. Skólinn hlaut verðlaunin fyrir heildaráætlun um stuðning við nemendur með sérþarfir.
Minningarverðlaunin eru viðurkenning fyrir störf í þágu stefnu um skóla án aðgreiningar. Arthur Morthens helgaði starfsævi sína börnum sem áttu að brattann að sækja í skólakerfinu. Alls bárust níu tilnefningar til verðlaunanna. Niðurstaða dómnefndar var að veita Hólabrekkuskóla verðlaunin á grunni tilnefningar frá skólaráði skólans. Í niðurstöðunni segir m.a. að í Hólabrekkuskóla sé áhersla lögð á kennsluaðferðir sem henta öllum nemendum hvort heldur sem er í almennri kennslu eða í stoðþjónustu. Nemendalýðræði, raddir nemenda og áhrif þeirra í skólastarfinu séu í hávegum haft. Snillismiðja skólans komi til móts við ólíkar þarfir þar sem stafræn tækni auðgar menntun nemenda og veitir þeim fjölbreytt tækifæri til sköpunar og tjáningar. Áhersla er á samvinnu fagaðila og samskipti við foreldra þar sem Námshringurinn er notaður til að undirbúa nemenda- og foreldrasamtöl. Minningarverðlaunin voru málverk eftir listamanninn Tolla (Þorlák Morthens) sem ber nafnið Sögur úr djúpinu ásamt verðlaunaskjali en Arthur var bróðir Tolla. Hólmfríður Guðjónsdóttir skólastjóri í Hólabrekkuskóla tók við verðlaununum ásamt samstarfsfólki sínu.