Höfundur að stærstu fatamerkjum
— Viðtal við Jan Davidson fatahönnuð —
Hann er sænskur. Kom hingað fyrir um hálfri öld og hefur verið búsettur hér á landi að miklu leyti síðan. Margir þekkja til hans og hafa starfað með honum. Hann er fatahönnuður og er meðal annars höfundur að stærstu fatamerkjum sem hafa orðið til hér á landi. Bæði fatnaður 66° Norður og Cintamani eru vaxin úr hans smiðju auk Don Cano og annars. Nú er hann að selja eigur sínar hér á landi. Hann stefnir á Svíþjóð en er einnig með rætur og tengist starfsemi í Kasakstan þaðan sem síðari eiginkona hans er ættuð. Hann heitir Jan Davidson og settist niður með Vesturbæjarblaðinu á Te og Kaffi í Borgartúninu á dögunum.
Jan er sportlegur í útliti. Klæddur Don Cano jakka og þegar hann hafði fengið Cappuccino barst talið að því hvaðan hann hafi komið. Hann kveðst hafa komið frá Noregi þar sem hann hafði starfað um tíma en í raun hafi hann komið frá fæðingarlandi sínu Svíþjóð. Hann hafði verið að starfa fyrir sænskt fyrirtæki sem var í samstarfi við fyrirtæki í Noregi. Hann var á leið til London til að taka við starfsemi fyrirtækisins þar en hann var með bakgrunn þaðan frá Savile Row í Mayfair í miðborg Lundúna sem er meðal annars þekkt fyrir hefðbundna sérsniðna karlmannatísku. „Áætlanirnar breyttust. Ég var búinn að starfa í textíl og við hönnun. Eftir að ég kom fór ég fyrst að starfa fyrir Samband íslenskra samvinnufélaga. Þar vann ég meðal annars með manni sem hét Sigtryggur Hallgrímsson og var verslunar- og framkvæmdastjóri fata verksmiðjunnar Gefjunar. Ég var að vinna í Reykjavík en fór einnig mikið til Akureyrar. Þar var Gefjun með starfsemi og stór hluti af textíliðnaði Sambandsins var þar. Á Akureyri kynntist ég ágætum manni. Hann hét Hjörtur Eiríksson og stýrði verksmiðjum Sambandsins og einnig öðru ágætu fólki sem starfaði þar. Svo tók Folda við og starfaði þar til hún varð gjaldþrota í desember 1998. Þar fór fram fatahönnun og framleiðsla. Hermann Sigursteinsson stýrði starfinu þar. Annar eftirminnilegur maður sem ég kynntist var Björn Guðmundsson. Björn hafði numið klæð-skeraiðn en síðan haldið vestur um haf til að læra fjöldaframleiðslu á fötum. Björn starfaði hjá Gefjun eftir heimkomuna, varð síðar hluthafi í Andersen og Lauth og stofnaði Sportver og Herrahúsið ásamt fleirum. Hann var að framleiða sportfatnað undir Lee Coper merkinu og svo Kóróna-fötin sem voru vel þekkt hér á landi á þeim tíma.“
Með Gulla Bergman og Colin Porter
Jan kom síðan að Karnabæ sem margir telja að valdið hafi ákveðinni byltingu í fataframleiðslu og klæðaburði íslenskra karlmanna. „Já, já – ég starfaði með Gulla Bergmann og Colin Porter. Ég setti upp verksmiðju fyrir Karnabæ þar sem Bandido gallabuxur voru framleiddar. Við Gulli þekktumst vel og hittumst oft bæði hér heima og einnig í London. Borðuðum oft saman í Swiss Center. Swiss Center var vinsæll ferðamannastaður á jaðri Coventry Street rétt við Leicester Square sem margir Íslendingar þekkja. Stór bygging sem var bæði sýningargluggi fyrir Swiss og einnig svissneskar vörur. Þarna voru kaffihús og nokkrir veitingastaði með svissnesku þema í kjallaranum. Þangað sem við fórum oft. Þetta var skemmtilegur tími. Það var margt að gerast. Svo má bæta því við að ég kynntist íslenskri konu og við stofnuðum heimili hér á landi. Við eignuðumst tvö börn og ég á þrjú barnabörn. Þrjá stráka. Ég læt því fleira eftir mig hér en fatnað.“
Don Cano varð vinsælt en við fórum of hratt
Jan mætti sem áður segir í glæsilegum jakka. Hann sýndi tíðindamanni mynd innan á hægri boðung jakkans. Mynd eftir Halldór Baldursson myndlistarmann sem meðal annars teiknar skopmyndir fyrir Fréttablaðið að staðaldri. Á hinni hliðinni var ljóð eftir Jan. „Halldór teiknaði myndina í tilefni af ljóðinu. Þar fann hann myndefnið,“ segir Jan stoltur. Sögu Don Cano má rekja til þess að Jan fór í samstarf við Karl Magnússon sem rak Bláfeld lítið framleiðslufyrirtæki í Reykjavík. Það tók þá aðeins um nokkrar vikur að hanna og koma nýjum útivistarfatnaði á framfæri. „Don Cano fatnaðurinn varð vinsæll. Varð eins konar heimilis vörumerki á um tveimur árum. Þetta óx mjög hratt hjá okkur. Alltof hratt og við Karl náðum ekki að hafa næga stjórn á ástandinu. Kostnaður var mikill og ýmsir viðskiptasamningar voru ekki nægilega hagstæðir til þess að reksturinn stæði undir sér til lengri tíma. Markaður fyrir útivistarfatnað var líka of lítill hér á landi á þeim tíma.“
66° og Cintamani
Jan var þó ekki af baki dottinn. Hafði ákveðið að gefast ekki upp enda uppgjöf eitthvað sem hann hefur aldrei þekkt. Hann var að vinna fyrir 66°norður og stofnaði einnig fyrirtækið Cintamani nokkrum árum síðar. Fékk til liðs við sig stráka sem höfðu unnið fyrir Foldu á Akureyri. Árið 2012 fékk Jan ISPO verðlaunin fyrir besta útivistarjakkann. Hann hafði þó ekki gefið Don Cano upp á bátinn. Hann tók þráðinn upp aftur. Á síðustu fjórum árum hefur hann verið að hanna og sauma nýja kynslóð af DON CANO flíkum sem nú eru fáanlegar í Nordoc Store verslununum og Álafossi á Laugavegi 3 til 5.
Til Kazakhstan
Og hann er einnig með framleiðslu í Miðasíulýðveldinu Kazakhstan sem er níunda stærsta land í heiminum með um 15 milljónir íbúa. Landið nær yfir mikinn hluta Mið-Asíu. Á landamæri að Kína, Kirgistan, Rússland, Túrkmenistan og Úsbekistan. Hluti þess er vestan Úralfljóts og telst til Evrópu. Kasakstan var áður Sovétlýðveldi en er nú aðili að SSR. Hvað kemur til. Jan segir að gamall samstarfsmaður hafi haft samband við sig. Hann heitir Heikki Matilla og er frá Finnlandi eins og nafnið bendir til. „Hann er doktor í fatahönnun og við unnum saman fyrir 55 árum. Hann er ekkert unglamb fremur en ég. 74 ára gamall en í fullu fjöri. Við erum það báðir. Hann spurði hvort ég vildi koma með sér til Kasakstan. Ég sló til og nú er ég með framleiðslu þar. Og ekki nóg með það. Ég er aftur giftur. Konu frá þessu stóra og fallega landi. Nei – við erum ekki að fara að búa þar, þótt ég sé með starfsemi í landinu. Ég er búinn að selja starfsemi mína hér á landi og húseignina við Fiskislóð. Ég hef verið hér að mestu leyti í hálfa öld. Hef kunnað vel við mig en það eru bæði plúsar og mínusar við að vera útlendingur. Ég stefni á að flytjast til Svíþjóðar. Allavega að einhverju leyti. Kannski er flökkueðli í mér.”